Samkvæmt nýbirtum gögnum evrópsku hagstofunnar Eurostat byggðu 27 aðildarríki ESB nýtt íbúðarhúsnæði fyrir sem nemur 5,8 prósent af landsframleiðslu (GDP) árið 2022. Það er heldur hærra en árið 2021, þegar byggt var nýtt íbúðarhúsnæði fyrir 5,6 prósent af landsframleiðslu, og nokkru hærra en meðaltal frá aldamótum, sem er 5,5 prósent af landsframleiðslu.
Mest var byggt af nýju íbúðarhúsnæði, samkvæmt þessum mælikvarða, á Kýpur, eða fyrir 8,6 prósent af landsframleiðslu. Þar á eftir koma Þýskaland og Finnland, með nýbyggt íbúðarhúsnæði fyrir 7,3 og 7,2 prósent af landsframleiðslu. Minnst var byggt af nýju íbúðarhúsnæði í Grikklandi og Lettlandi, á sama mælikvarða, eða fyrir 1,6 til 1,9 prósent af landsframleiðslu.
Hvar Ísland skipaði sér í reynd á þessum lista árið 2022 blasir ekki við, þar sem gögn um byggingu nýs íbúðarhúsnæðis á Íslandi fylgdu ekki í þessari samantekt Eurostat. Sérfræðingur Hagstofunnar benti blaðamanni þó á sambærileg gögn. Í þjóðhagsreikningi ársins 2022 má finna fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði. Hún var rúmir 183 milljarðar króna. Landsframleiðsla Íslands á sama ári mældist um 3.766 milljarðar króna. Hlutfall fjármunamyndunar í íbúðarhúsnæði af landsframleiðslu nam því tæpum 4,9 prósentum af landsframleiðslu.
Til að ná meðaltali Evrópulandanna í framleiðslu nýs íbúðarhúsnæðis hefði, samkvæmt þessu, þurft að byggja nýtt íbúðarhúsnæði á landinu fyrir 218 milljarða króna þetta ár, eða 35 milljörðum meira en raunin var.
Heimildir: Eurostat og Hagstofan.