Fyrirtækið sem getur ekki hirt sorp sómasamlega fær 288 milljónir

Yfirleitt er útvistun á þjónustu hins opinbera kynnt sem leið fyrir ríki og sveitarfélög til að spara pening. Nær undantekningalaust verður þjónustan verri eða byggð á að starfsmenn fái óeðlilega lág laun. Í raun má segja að útvistun sé einkavæðing með krókaleið. En oft er ekki einu sinni sparnaður sem fylgir útvistun og því nánast óskiljanlegt að nokkur heilvita maður tali fyrir því.

Eitt besta dæmið um þetta er útvistun Reykjavíkurborgar á nokkuð einföldu og auðskiljanlegu verkefni: að tæma rusl úr grenndargámum víðs vegar í borginni. Slíkir gámar eru ekki svo margir en líkt og flestir kannast við þá eru þeir staðsettir hér og þar í helstu hverfum borgarinnar. Í Reykjavík eru þeir um það bil 50 talsins. Ekki þarf að tæma þá daglega, en þó geta flestir verið sammála um að það þarf að tæma þá oftar en á tveggja vikna fresti, líkt og kom fram í fréttum í sumar. Þá var greint frá því að sorp flæddi upp úr gámum út um alla borg því einkafyrirtækinu sem fékk verkefnið var um megn að tæma gámana.

Nú kemur í ljós að þetta einkafyrirtæki, Terra umhverfisþjónusta, fékk fyrir þetta verkefni 288 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari Sorpu við fyrirspurn Trausta Breiðfjörðs Magnússonar, borgarfulltrúa Sósíalista. Í svari Sorpu er nánast undirstrikað að verkefnið sé smávægilegt miðað við starfsemi Sorpu. „Rétt er að taka fram að ekki er um hefðbundna sorphirðu við húsvegg á heimilum að ræða, heldur til dæmis tæmingu á grenndargámum, akstur á gámum milli starfsstöðva og fleiri skyld verkefni,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU.

Eins og Jón Viggó bendir á þá má í raun slá því á fót að Sorpa gæti séð um þessi örfáu verkefni með starfsgildi sem mætti telja á fingrum annarrar handar . Og þó að þeir starfsmenn væru á forstjóralaunum þá myndi það seint kosta 288 milljónir á ári. Enn fremur má telja næsta víst að gámarnir yrðu tæmdir sómasamlega, því þó að Sorpa sé ekki fullkomin, þá rataði það ekki oft í fréttir að sorp væri að flæða upp úr ruslatunnum við heimili Reykvíkinga. Í það minnsta áður en flókið flokkunarkerfi var innleitt.

Þessi einkavæðing á einföldu verkefni mun reynast Reykvíkingum dýrt spaug, því við þetta bætist svo virðisaukaskattur. „Svar hefur borist en í því kemur fram að Reykjavík greiddi fyrirtækjum um 600 milljónir króna árið 2022 fyrir að hirða sorp. Þetta eru tölurnar áður en virðisaukaskattur er tekinn með. Terra hf. fékk 288 milljónir auk virðisaukaskatts, Kubbi ehf. fékk 248 milljónir auk virðisaukaskatts og Íslenska gámafélagið ehf. fékk um 64 milljónir auk virðisaukaskatts. Verkefnin sem þessi fyrirtæki sinna eru tæmingar á grenndargámum, akstur á gámum milli starfsstöðva og fleiri skyld verkefni. Þau sjá ekki um að hirða heimilissorp. Það verkefni er enn í höndum borgarinnar sjálfrar,“ segir Trausti.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí