Hin skýra stefna: Ísland styður mannúðarhlé en er mótfallið kröfu um vopnahlé

Í fréttum af átökunum í Ísrael og á Gasa hafa á víxl hljómað orðin „vopnahlé“, „mannúðarhlé“ og „mannúðarvopnahlé“. Íslenskir ráðamenn virðast á köflum nota þau sem samheiti, enda þó að alþjóðasamfélagið leggi mjög ólíkan, jafnvel andstæðan, skilning í þau. Margir myndu líklega taka undir með þeim orðum þingflokksformanns VG, Orra Páls Jóhannssonar, um helgina að „þref um texta og orðalag sé hjóm, í samhengi þess ástands sem er fyrir botni Miðjarðarhafs.“ Sé gaumur gefinn að þeim orðum sem ráðherrar hafa látið falla til þessa bendir þó allt til að þref um orðalag fari nærri því að vera kjarni málsins. Öll merki benda til að ríkisstjórn Íslands hafi komið sér saman um að vera mótfallin skilyrðislausum kröfum um vopnahlé en fylgjandi mannúðarhléi.

Mannúðarhlé sem andstaða vopnahlés

Íslensku hugtökin eiga sér ekki jafn skýrar skilgreiningar og þau ensku. Í flestum tilfellum hefur vopnahlé þó verið notað til þýðingar á enska orðinu ceasefire en mannúðarhlé látið samsvara humanitarian pause. Hugtökin gætu virst keimlík en standa þó fyrir andstæðar nálganir á átökin: Í frétt Reuters frá 24 október segir um hlé eða pause, í þessu samhengi, að það sé yfirleitt álitið óformlegra og styttra en eiginlegt vopnahlé. Mannúðarhlé myndi þannig snúast um að hleypa mannúðargögnum á Gasa en halda síðan árásum áfram.

Tillagan sem Bandaríkin lögðu fram innan Öryggisráðs SÞ fyrr í þessum mánuði kallaði í fyrstu ekki eftir neinu hléi frá átökunum. Í meðferð ráðsins tók hún þó breytingum og úr varð að tillagan innihélt ákall um „allar nauðsynlegar aðgerðir, til dæmis mannúðarhlé“ til að hleypa mætti mannúðargögnum á svæðið. Með orðum Bjarna Benediktssonar, um afstöðu Íslands, í samtali við mbl.is nú á mánudag: „Okk­ar málstaður á þess­um tíma­punkti er að hvetja til þess að það sé dregið úr spenn­unni og mannúðaraðstoð komið til fólks í neyð.“ En ekki að hernaðaraðgerðir verði stöðvaðar fyrir fullt og allt.

Öryggisráð og Allsherjarþing milli hléa

Reuters hafði eftir Vassily Nebenzia, sendiherra Rússlands á hjá SÞ, um meðferð málsins innan Öryggisráðsins: „Heimurinn væntir þess að Öryggisráðið kalli eftir tafarlausu og skilyrðislausu vopnahléi. Það er nákvæmlega það sem ekki er að finna í tillögu Bandaríkjanna. Þess vegna sjáum við engan tilgang með því og getum ekki stutt það.“

Rússland fór því fram á vopnahlé á vettvangi Öryggisráðs SÞ. Krafan um vopnahlé heyrist þó vitaskuld ekki aðeins frá fulltrúum Rússlands á vettvangi Öryggisráðsins heldur er sú krafa sem heyrist hæst meðal milljóna mótmælenda gegn hernaðaraðgerðum Ísraels um allan heim. Hvergi hefur borið á því að „mannúðarhléi“ sé haldið á lofti sem slagorði í kröfugöngum en „Ceasefire now“ eða „Vopnahlé strax“ glymur um víða veröld.

Bandaríkin hafa til þessa ekki tekið undir þá kröfu, enda væri krafan um vopnahlé að þeirra mati í andstöðu við rétt Ísraelsríkis til að „verjast“, eftir árás Hamas-liða þann 7. október síðastliðinn. Svo aftur sé vitnað í Bjarna Benediktsson nú á mánudag: „Þetta er vandrataður meðal­veg­ur þegar fyrstu at­burðirn­ir mót­ast af hrotta­legri hryðju­verka­árás, gíslatöku, af­höfðun fólks og svo fram­veg­is. Það er ekki hægt að taka at­b­urðina sem ger­ast í kjöl­farið úr sam­hengi við það.“

Hvað er þá mannúðar-vopnahlé?

Þessi tvö orð, vopnahlé og mannúðarhlé, fela þannig í sér andstæða nálgun á átökin. Krafan um vopnahlé er krafa um að Ísrael hætti árásum á Gasa. Krafan um mannúðarhlé felur í sér að fallist er á rétt Ísraels til árásanna, enda sé ríkið í reynd að verjast árás, en æskilegt að fólkið sem situr undir árásunum fái þó mat og drykk á meðan. Á þessum greinarmun strandaði afgreiðsla málsins í Öryggisráðinu, sem komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu.

Með aðild að NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin er íslenska ríkið í slagtogi við þau öfl sem vilja alls ekki krefjast vopnahlés en styðja þó, í ljósi aðstæðna, mannúðarhlé. Greinarmunurinn á þessum hugtökum virðist svo liggja á milli ráðuneyta: Í Utanríkisráðuneytinu er heldur lögð áhersla á að Ísland muni ekki styðja kröfur um vopnahlé, á meðan forsætisráðherra leggur áherslu á mikilvægi þess að styðja tillögur um mannúðarhlé.

Tillagan sem Jórdanía færði loks fyrir Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna og samþykkt var í atkvæðagreiðslunni á föstudag, þegar Ísland sat hjá, notaði þriðja orðalagið: humanitarian truce. Það hefur verið þýtt bæði sem mannúðarvopnahlé og vopnahlé af mannúðarástæðum. Í ályktuninni var kallað eftir „immediate, durable and sustained humanitarian truce leading to a cessation of hostilities“ – „tafarlausu, haldgóðu og varanlegu mannúðarvopnahléi sem leiði til þess að hernaðarátökum ljúki.“

Hin skýra stefna Íslands

Þegar þetta þriðja hugtak skaut upp kollinum, í drögunum sem voru lögð fyrir Allsherjarþingið, virðist að einhverju leyti hafa mátt leggja í það hvorn skilninginn sem er, að það væri í ætt við mannúðarhlé eða í ætt við vopnahlé. Hvort sem Utanríkisráðuneytið hafði Forsætisráðuneytið með í ráðum eða ekki virðist utanríkisráðherra hafa tekið af skarið um þann skilning, að vopnahlé af mannúðarástæðum, án frekari fyrirvara, stæði of nálægt vopnahléi til að veita kröfunni atkvæði.

Forsætisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið nú á mánudag að ríkisstjórnin sé einhuga um að „leggja áherslu á vopna­hlé af mannúðarástæðum strax.“ Til styttingar segir í fyrirsögn Morgunblaðsins: „Vill tafarlaust vopnahlé á Gasa“. Þegar forsætisráðherra sjálf færir afstöðu Íslands í orð virðist hún þó aldrei tala um vopnahlé án þessa fyrirvara, „af mannúðarástæðum“.

Sama dag sagði Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, að stefna stjórnvalda væri skýr, þau tali einum rómi en greini aðeins á um hvernig skuli koma stefnunni á framfæri. Um það virðast raunar allir fulltrúar ríkisstjórnarinnar sammála, að stefna hennar í málinu sé bæði skýr og afdráttarlaust og fulltrúar landsins haldi henni vel á lofti.

Sá skilningur virðist aðeins mögulegur ef gætt er að skörpum greinarmuni orðanna: ríkisstjórn Íslands styður hugmyndir um mannúðarhlé á Gasa, er mótfallið skilyrðislausum kröfum um vopnahlé, og á þá aðeins eftir að ná sameiginlegri lendingu um hvernig beri að skilja vopnahlé af mannúðarástæðum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí