„Íslensk stjórnvöld hafa talað mjög skýrt“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur haldið til streitu þeim skilningi sínum, frá föstudegi til sunnudags, að íslensk stjórnvöld hafi tekið skýra afstöðu til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs og tjáð þá afstöðu mjög skýrt.

Að kvöldi föstudagsins 27. október kaus Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna um ályktun þar sem krafist var „vopnahlés af mannúðarástæðum“ í þeim átökum sem nú standa yfir á Gasa. Ísland sat hjá við þá atkvæðagreiðslu. Ályktunin var niðurstaða neyðarfundar um ástandið á vettvangi Allsherjarþingsins. Undir hádegi þann sama dag tók fréttamaður RÚV viðtal við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, þar sem hún sagði íslensk stjórnvöld taka undir kröfu um mannúðarhlé á þessum fundi.

Taka undir kröfu um mannúðarhlé

„Það er nýjast í þessu máli,“ sagði Katrín, „að íslensk stjórnvöld tóku undir það á neyðarfundi sem stendur núna yfir hjá Sameinuðu þjóðunum og hófst í gær, að taka undir kröfu um mannúðarhlé á þessum átökum.“

Fréttamaður RÚV hafði það eftir forsætisráðherra að málið vefðist fyrir mörgum, en skilja mátti á henni að það ætti sem betur fer ekki við um íslensk stjórnvöld:

„Við sáum það til dæmis í gær hversu erfitt það reyndist Evrópusambandinu að lenda einhverri niðurstöðu í þessu máli. En við auðvitað njótum þess að geta bara talað okkar röddu.“

„Við auðvitað njótum þess að geta bara talað okkar röddu,“ sagði forsætisráðherra föstudaginn 27. október.

Þurfa íslensk stjórnvöld ekki, spurði fréttamaður RÚV vongóður, að stíga fastar til jarðar og koma öðrum í skilning um það að þetta gangi ekki lengur? Forsætisráðherra svaraði því til að íslensk stjórnvöld hafi talað mjög skýrt:

„Ja, íslensk stjórnvöld hafa talað mjög skýrt. Og það er þessi skýra áhersla á að alþjóðalög séu virt, og þar með talin mannúðarlög og það felur í sér að innviðir og óbreyttir borgarar eiga ekki að vera skotmark í stríðsátökum.“

Styðja vopnahlé af mannúðarástæðum

Seinna sama dag valdi Ísland að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni um ályktunina. Fastafulltrúi landsins hjá SÞ varði atkvæðið með ræðu þar sem hann gerði grein fyrir sömu áherslum og forsætisráðherra. „Ísland tekur undir ákall um mannúðarhlé,“ sagði fastafulltrúinn í ræðunni, „til að auðvelda örugga veitingu mannúðaraðstoðar um gjörvallt Gasa-svæðið. Öruggan og óhindraðan mannúðaraðgang verður að tryggja. Óbreytta borgara og eignir þeirra, heilbrigðisstarfsfólk og mannúðarstarfsfólk og eignir verður að vernda.“

Hjáseta Íslands við atkvæðagreiðsluna hefur vakið bæði undrun og reiði meðal stórs hluta almennings. Í kvöldfréttum RÚV á sunnudag birtist nýtt viðtal við Katrínu Jakobsdóttur, þar sem forsætisráðherrann sagði að ekki hefði verið haft samráð við sig fyrir atkvæðagreiðsluna. Í sömu mund ítrekaði hún að afstaða Íslands í málinu væri skýr:

„Nei, það var nú ekkert samráð haft við mig. En hins vegar lá fyrir að afstaða Íslands var alveg skýr fyrir atkvæðagreiðsluna. Og hún var sú að við styðjum vopnahlé af mannúðarástæðum. Við teljum brýnt að átökin verði stöðvuð. Að það skapist líka færi til að koma hjálpargögnum og neyðarbirgðum inn á svæðið. Mín afstaða og míns þingflokks er hins vegar sú að mannúðarkrísan á þessu svæði sem slík, að það hefði verið rétt, í raun og veru, að styðja tillöguna, einfaldlega vegna þess að ástandið er gríðarlega alvarlegt.“

„Við styðjum vopnahlé af mannúðarástæðum. Við teljum brýnt að átökin verði stöðvuð,“ sagði Katrín sunnudaginn 29. október.

Katrín sagði að sér þætti „gríðarlega vont“ að ekki hefði náðst „breiðari samstaða á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um nálgun á þessi mál.“

Um grundvallaratriði erum við sammála

Spurð hvort málið setti aukna spennu á samstarf hennar og Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra svaraði Katrín:

„Nei, ég held að það sé ríkur skilningur af því að, sko, grundvöll … um grundvallaratriði erum við sammála. Og það er okkar stefna, Íslendinga: við höfum viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki, við tölum alltaf fyrir tveggja ríkja lausn. Og þessi afstaða hefur komið mjög skýrt fram.“

Að því leyti sem fótur virðist fyrir því að eftir standi einhver skýrleiki í máli íslenskra stjórnvalda virðist hann grundvallast á greinarmuninum á mannúðarhléi og vopnahléi: Ísland virðist hlynnt mannúðarhléi á átökunum, til að koma vistum og hjálpargögnum til óbreyttra borgara, en mótfallið kröfu um vopnahlé, það er að Ísraelsríki láti af loftárásum og öðrum hernaðaraðgerðum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí