Hjalti Björnsson, áfengisráðgjafi og fararstjóri, segist ekki geta hugsað sér lengur að borða lambakjöt eftir að hafa séð bílinn sem sjá má hér fyrir ofan. Bíllinn var á leiðinni í sláturhúsið á Selfossi en Hjalti segist hafa séð lömbin troða snoppunni út um rifurnar til að reyna með veikum mætti að ná sér í ferskt loft. Vafalaust dauðhrædd.
„Ég sá svona bíl um daginn sem var á leið inn á plan SS sláturhússins á Selfossi. Sá litlu lömbin troða snoppunni út um rifurnar til að ná sér í ferskt loft. Mögulega eru um 100-150 lömb á bílnum?,“ spyr Hjalti á Facebook.
„Allavega þá fannst mér þetta allt svo sorglegt eftir að hafa horft á sauðburð í vor og hugsa til þess að hafa lifað eitt einasta sumar til þess eins að enda svona. Ég hef ekki getað hugsað mér lambakjöt síðan ég sá þennan bíl og þessa sýn. Sennilega er ég bara hættur að borða lambakjöt,“ segir Hjalti.
Hann segist eftir þessa reynslu hafa meiri skilning fyrir grænmetisætum og viðhorfum þeirra. „Það rifjast nú upp fyrir mér þegar Ringo Star fyrir mörgum árum sagðist ekki borða neitt sem félli til í náttúrunni, epli, appelsínur, melónur og fleira nema það dytti sjálft af trjánum. Ég skil þetta betur núna en þá,“ segir Hjalti.