Ráðherrar og fræðimenn ræða frið á Imagine-ráðstefnunni í Hörpu

„Framtíðarsýn Norðurlanda í friðarmálum“ er viðfangsefni ráðstefnu sem haldin verður í Hörpu dagana 10. til 11. október, það er þriðjudag og miðvikudag í næstu viku.

Þess er ekki sérstaklega getið í fréttatilkynningu um ráðstefnuna en þó má ætla að dagsetningin ráðist af afmælisdegi tónlistarmannsins John Lennon, 9. október, þegar kveikt er á friðarsúlunni í Viðey ár hvert, listaverki frá ekkju hans, listakonunni Yoko Ono. Í tengslum við friðarsúluna var stofnað Friðarsetrið Höfði, sem heldur ráðstefnuna í samstarfi við Háskóla Íslands og formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Ísland hefur valið formennskutíð sinni í nefndinni slagorðið „Norðurlönd – afl til friðar“ og til samræmis er yfirskrift ráðstefnunnar nú: „The Imagine Forum: Nordic Solidarity for Peace“ sem mætti þýða: Vettvangurinn Hugsa sér – Norræn samstaða um frið. Yfirskriftin, rétt eins og ráðstefnan sjálf, er þó aðeins kynnt á ensku.

Sama virðist eiga við um dagskrá ráðstefnunnar, á vef Alþjóðamálastofnunar HÍ virðist hún aðeins birt á ensku. Þar kemur fram að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun setja ráðstefnuna á þriðjudeginum, í Norðurljósasal Hörpu. Þá ávarpar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra félagsmála, vinnumarkaðar og norrænnar samvinnu, samkomuna.

Löghlýðni, friður og uppistand

Lykilerindi ráðstefnunnar flytur Amina J. Mohammed, aðstoðar-aðalirtari Sameinuðu þjóðanna, sem í kjölfarið ræðir við Katrínu Jakobsdóttur í dagskrárlið sem á ensku nefnist „fireside chat“, og mætti á íslensku útleggjast sem spjall við arineldinn.

Dagskráin er nokkuð þétt og má þar finna ávörp margra góðra gesta en hún verður ekki öll þýdd og rakin hér. Eftir hádegi á þriðjudeginum ávarpar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ráðstefnuna.

Svo virðist vera sem að minnsta kosti einhverjir þátttakendur ráðstefnunnar mæti til leiks með skilyrtari hugmyndir um frið en finna má í texta lagsins Imagine, sem yfirskrift ráðstefnunnar vísar til. Í fréttatilkynningunni um ráðstefnuna, sem birtist á vef Stjórnarráðsins, er eftirfarandi haft eftir Þórdísi Kolbrúnu: „Forsenda friðar og afvopnunar er að öll ríki virði alþjóðalög og samninga, aðeins þá fáum við notið frelsis, velsældar og friðar. Við stöndum á sögulegum tímamótum, og því hefur sjaldan verið jafn áríðandi að koma saman og ræða um frið. Viðbrögð okkar núna, eða skortur á viðbrögðum, munu fylgja okkur um langan tíma.“

Ráðstefnan er sögð skipulögð í samstarfi við helstu friðarrannsóknarstofnanir á Norðurlöndum. Markmið hennar sé að „leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig efla megi norrænt samstarf í þágu friðar.“

Síðdegis á þriðjudag stýrir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir umræðum um stöðu kvenna í Afganistan. Dagskrá miðvikudagsins og þar með ráðstefnunnar allrar lýkur loks með uppistandi Ara Eldjárn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí