„Framtíðarsýn Norðurlanda í friðarmálum“ er viðfangsefni ráðstefnu sem haldin verður í Hörpu dagana 10. til 11. október, það er þriðjudag og miðvikudag í næstu viku.
Þess er ekki sérstaklega getið í fréttatilkynningu um ráðstefnuna en þó má ætla að dagsetningin ráðist af afmælisdegi tónlistarmannsins John Lennon, 9. október, þegar kveikt er á friðarsúlunni í Viðey ár hvert, listaverki frá ekkju hans, listakonunni Yoko Ono. Í tengslum við friðarsúluna var stofnað Friðarsetrið Höfði, sem heldur ráðstefnuna í samstarfi við Háskóla Íslands og formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Ísland hefur valið formennskutíð sinni í nefndinni slagorðið „Norðurlönd – afl til friðar“ og til samræmis er yfirskrift ráðstefnunnar nú: „The Imagine Forum: Nordic Solidarity for Peace“ sem mætti þýða: Vettvangurinn Hugsa sér – Norræn samstaða um frið. Yfirskriftin, rétt eins og ráðstefnan sjálf, er þó aðeins kynnt á ensku.
Sama virðist eiga við um dagskrá ráðstefnunnar, á vef Alþjóðamálastofnunar HÍ virðist hún aðeins birt á ensku. Þar kemur fram að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun setja ráðstefnuna á þriðjudeginum, í Norðurljósasal Hörpu. Þá ávarpar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra félagsmála, vinnumarkaðar og norrænnar samvinnu, samkomuna.
Löghlýðni, friður og uppistand
Lykilerindi ráðstefnunnar flytur Amina J. Mohammed, aðstoðar-aðalirtari Sameinuðu þjóðanna, sem í kjölfarið ræðir við Katrínu Jakobsdóttur í dagskrárlið sem á ensku nefnist „fireside chat“, og mætti á íslensku útleggjast sem spjall við arineldinn.
Dagskráin er nokkuð þétt og má þar finna ávörp margra góðra gesta en hún verður ekki öll þýdd og rakin hér. Eftir hádegi á þriðjudeginum ávarpar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ráðstefnuna.
Svo virðist vera sem að minnsta kosti einhverjir þátttakendur ráðstefnunnar mæti til leiks með skilyrtari hugmyndir um frið en finna má í texta lagsins Imagine, sem yfirskrift ráðstefnunnar vísar til. Í fréttatilkynningunni um ráðstefnuna, sem birtist á vef Stjórnarráðsins, er eftirfarandi haft eftir Þórdísi Kolbrúnu: „Forsenda friðar og afvopnunar er að öll ríki virði alþjóðalög og samninga, aðeins þá fáum við notið frelsis, velsældar og friðar. Við stöndum á sögulegum tímamótum, og því hefur sjaldan verið jafn áríðandi að koma saman og ræða um frið. Viðbrögð okkar núna, eða skortur á viðbrögðum, munu fylgja okkur um langan tíma.“
Ráðstefnan er sögð skipulögð í samstarfi við helstu friðarrannsóknarstofnanir á Norðurlöndum. Markmið hennar sé að „leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig efla megi norrænt samstarf í þágu friðar.“
Síðdegis á þriðjudag stýrir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir umræðum um stöðu kvenna í Afganistan. Dagskrá miðvikudagsins og þar með ráðstefnunnar allrar lýkur loks með uppistandi Ara Eldjárn.