Ísraelska dagblaðið Haaretz sagði í afdráttarlausum leiðara á laugardag að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, beri einn ábyrgð á árás Hamas-liða á laugardag, þeirri banvænustu sem framin hefur verið gegn Ísrael, á ísraelsku landsvæði, í fimmtíu ár. Blaðið sagði Netanyahu hafa mistekist að bera kennsl á þá hættu sem hann stofnaði meðvitað til með því að reka stefnu í þágu landtöku og eignanáms, með því að hunsa tilveru og réttindi Palestínumanna, og með skipan hægri-öfgamanna í lykilstöður ríkistjórnarinnar.
Netanyahu sagði á mánudag að viðbragð ríkisins við árás Hamas-liða á laugardag muni „breyta Mið-Austurlöndum“. Ummælin féllu á fundi með bæjarstjórum á þeim svæðum sem árásin beindist að, og voru höfð eftir forsætisráðherranum í tilkynningu frá embættinu. Ekki var farið nánar í saumana á merkingu orðanna í tilkynningunni.
Myrtu 260 gesti tónlistarhátíðar
Þegar þetta er skrifað, um miðjan mánudag, eru rúmir tveir sólarhringar liðnir frá viðamikilli árás Hamas-liða. Í árásinni voru að minnsta kosti 700 drepnir og 2.400 særðir. Í átökunum sem hófust beint í kjölfarið hafa að minnsta kosti 560 íbúar á Gaza verið drepnir og 2.700 særðir.
Í fyrstu fréttum af árásinni á laugardag greindu fjölmiðlar aðallega frá eldflaugaárásum: Hamas skaut þúsundum eldlflauga á ísraelskar byggðir, en nákvæm tala er á reiki. Fulltrúar samtakanna sögðu flaugarnar hafa verið fimm þúsund, ísraelsk stjórnvöld hafa nefnt tölur á milli tvö og þrjú þúsund. Ljóst er að þær voru nógu margar til að nokkur fjöldi slapp í gegnum eldflaugavarnarkerfi Ísraels, járnhvelfinguna sem svo nefnist, og ollu bæði tjóni og mannfalli.
Fréttir af hinni hlið árásarinnar voru lengur að ná verulegri athygli, en tugir skæruliða lögðu í sömu mund af stað yfir múrinn sem aðskilur Gaza frá Ísrael, eftir ýmsum leiðum. Meðal annars flaug ótilgreindur fjöldi vopnaðra manna með svifdrekum á hátíðarsvæði Supernova tónlistarhátíðarinnar, sem haldin var í eyðimörkinni í þriggja kílómetra fjarlægð frá múrnum. Þar hófu þeir skothríð, gengu um og drápu hátíðargesti, þar til alls lágu 260 í valnum, að mestu ungt fólk héðan og þaðan frá landinu.
Einhverjir úr hópi hátíðargesta eru líka á meðal þeirra 120 sem Hamas-liðar hafa tekið í gíslingu, og er ætlað að verði annars vegar beitt sem eins konar tryggingu gegn fyrirséðum gagnárásum Ísraels á Gaza, hins vegar í fangaskipti. Á mánudag létu fulltrúar Hamas vita að minnst fjórir Ísraelar sem teknir voru í gíslingu og fluttir til Gaza séu á meðal þeirra sem hafa látið lífið í loftárásum Ísraelshers.
Hóprefsingar á Gaza
Ótal spurningar standa opnar um aðdraganda og afleiðingar árásarinnar á laugardag. Hvernig Hamas-liðum tókst yfirleitt að skipuleggja og framkvæma svo umfangsmikla árás undir stöðugu eftirliti ríkis sem virðist gegnsósa í öryggisráðstöfunum, er spurning sem íbúar Ísraels og stjórnvöld ríkisins standa frammi fyrir. Hvernig Ísraelsríki bregst við árásinni byrjaði að koma í ljós þegar á laugardag og mun alda áfram að koma á daginn næstu daga og vikur.
Átök milli Ísraelshers og Hamas hófust þegar á laugardag. Á sunnudag lýstu ísraelsk stjórnvöld formlega yfir stríði við Hamas. Þó að yfirvöld í landinu skilgreini átökin með þeim hætti er ljóst að aðgerðir þeirra beinast þegar að öllum íbúum Gaza. Á mánudag tilkynnti Yoav Gallant, varnarmálaráðherra, að hafið væri „algjört umsátur“ um Gaza, sem fæli í sér að lokað væri fyrir flutning matvæla, fyrir rafmagn, gas og aðra orkuflutninga til svæðisins. „Allt er lokað,“ sagði hann. „Við erum að fást við skepnur í mannsmynd og munum haga aðgerðum okkar í samræmi við það.“
Viðbrögð umheimsins
Leiðtogar vestrænna ríkja hafa látið frá sér yfirlýsingar um samúð með fórnarlömbum árásarinnar á laugardag og fordæmingu á árásinni. Í sumum tilfellum hafa yfirlýsingunum fylgt yfirlýsingar um rétt Ísraela til að grípa til varna og jafnvel stuðning, óháð því hvaða mynd þær varnir munu taka. Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, Olaf Scholz, kanslari Þýskalands og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, eru meðal þeirra síðarnefndu: „Ísrael hefur rétt á að verjast – í dag og á komandi dögum,“ sagði von der Leyen á X/twitter þegar á laugardag, og lýsti yfir samstöðu með Ísrael og íbúum þess.
Scholz lýsti því yfir að Þýskaland standi með Ísrael og réðist þegar gegn því sjónarmiði að við báðar hliðar sé að sakast um þá stöðu sem nú er uppi: „Það er enginn ofbeldisspírall,“ sagði hann, „heldur árás hryðjuverkamanna Hamas á óbreytta ísraelska borgara.“ Þá sagði hann Ísraelsríki „þurfa að tryggja að Hamas geti ekki framið slíka glæpi aftur.“ Eins og hér hefur þegar verið getið brást Zelensky við árásinni með því að líkja stöðu Ísraels undir árásum Hamas-liða við stöðu Úkraínu undir innrás Rússa, og lýsti yfir fullri samstöðu.
Bandarísk stjórnvöld hafa sent flugmóðurskip á vettvang, en Erdogan Tyrklandsforseti varað Bandaríkin við afskiptum, enda sé samstaða Tyrkja með Palestínumönnum takmarkalaus. Þá tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á mánudag að hún myndi stöðva allar tilfærslur fjármuna til þróunaraðstoðar í Palestínu þar til athugun hefur farið fram á nýtingu fjárins. Alls hafa þar 619 milljón evra verið frystar, eða um 100 milljarðar íslenskra króna. Oliver Varhelyi, talsmaður framkvæmdastjórnarinnar, sagði umfang „hryðjuverkanna og grimmdarinnar gegn Ísrael og íbúum þess vera tímamót,“ að sögn Reuters.