Bandaríkin halda heiminum saman, sagði Biden í ávarpi til að fjármagna tvö stríð

Í sjónvarpsávarpi sínu til Bandaríkjamanna á „prime time“ á fimmtudagskvöld, miðnætti að íslenskum tíma, sagði Joe Biden að „þjóðræknir bandarískir verkamenn“ vinni um þessar mundir að því, „rétt eins og í síðari heimsstyrjöld“, að smíða „vopnabúr lýðræðisins“. Það voru ekki einu stóru orðin sem féllu í ávarpinu, nokkrum klukkustundum eftir að ísraelsk stjórnvöld létu vita að landher þeirra væri tilbúinn til innrásar á Gasa á hverri stundu.

„Við erum Bandaríkin, Bandaríkin“

Biden sagði að þegar hann hefði ferðast til Úkraínu, til fundar með Zelensky Úkraínuforseta, hefði hann farið með fámennu öryggisliði en alls ekki þótt hann einn, því hann var með „hugmyndina um Bandaríkin“ í farteskinu: „frelsi, sjálfstæði, sjálfsákvörðunarrétt“. Bandaríkin séu enda enn „viti heimsins“ – „enn, enn,“ ítrekaði Biden með áherslu og vitnaði síðan í Madeleine Albright, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Albright er þekktust fyrir það meðal vinstrihreyfinga að hafa árið 1996 svarað játandi þeirri spurningu fréttamannsins Lesley Stahl hvort árangurinn af viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna gegn Írak væri þess virði að hafa dregið hálfa milljón barna til dauða: „Við teljum það vera þess virði,“ svaraði hún. Það var þó vitaskuld ekki þetta sem Biden vitnaði í heldur hafði hann eftir henni að Bandaríkin væru „ómissandi þjóð“.

„Við erum Bandaríkin,“ sagði forsetinn og endurtók „Bandaríkin. Ekkert er okkur um megn ef við gerum það saman.“ „Forysta Bandaríkjanna,“ sagði hann líka, „er það sem heldur heiminum saman.“ Við getum ekki látið hryðjuverkamenn og harðstjóra vinna, þessi mikla þjóð hefur skyldum að gegna, tíminn skiptir sköpum.

Inntak ávarpsins: peningur í stríðin

Forsetinn talaði í ávarpinu til skiptis um Úkraínu og Ísrael, um Pútín og Hamas. Hann sagði að óvinir Ísraels þyrftu að vita að Ísrael væri sterkari en nokkru sinni, og vék andartaki síðar að Pútín: „Þegar einræðisherrar gjalda ekki fyrir árásargirni sína, valda þeir meira öngþveiti, dauða og eyðileggingu.“ Til Úkraínu sagðist Biden ekki hafa í hyggju að senda hermenn, aðeins vopn. Við þurfum að senda þeim „vopnin sem þau þurfa til að verja sig,“ sagði forsetinn, þau eru að ná árangri, enn stendur Kænugarður en „hvað myndi gerast ef við gengjum burt? Við erum lykilþjóðin.“

Um miðbik ávarpsins bar forsetinn fram megininntak þess: að hann hyggst leita eftir fjárheimild fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til tveggja stríða samtímis, eða til að bregðast við „hryðjuverkaárás Hamas gegn Ísrael“ og „viðvarandi grimmdarstríði Rússlands gegn Úkraínu“ eins og átökin voru nefnd í kynningartexta fyrir ávarpið. „Það mun borga sig kynslóðum saman,“ sagði forsetinn, því þannig munu Bandaríkin byggja „öruggari, friðsælli og ábatasamari heim fyrir okkur og börn okkar.“

Í ávarpinu nefndi forsetinn engar fjárhæðir en hann endurtók það orð sem hann notaði á blaðamannafundi í Ísrael á miðvikudag, að stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael verði „fordæmalaus“, þannig megi skerpa á hernaðarlegu forskoti landsins.

Tuttugu vörubíla mannúðarsjónarmið

Í kringum þetta megininntak erindisins, að forsetinn leitar eftir stuðningi almennings, um leið og hann biðlar til þingsins um að fjármagna stríðin, mátti auðvitað finna fleira en stóryrðin að ofan. Þannig sagði forsetinn að fyrsta markmið hans væri að ná þeim Bandaríkjamönnum sem Hamas hefur tekið í gíslingu til baka. Hann játaðist því að Bandaríkin hefðu gert mistök í stríðsrekstri sínum eftir hryðjuverkaárásirnar 2001. Biden sagðist hafa rætt við Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, um „mikilvægi þess að hegða sér í samræmi við lög um hernað“ og nefndi um leið að á fundi þeirra hefði hann tryggt fyrstu afhendingu hjálpargagna til Gaza, það er vörubílana tuttugu sem Egyptaland segist munu hleypa yfir landamærin á föstudag.

Forsetinn fullyrti, í þetta sinn án nokkurra fyrirvara, að Ísrael bæri ekki ábyrgð á sprengjunni sem féll á al-Ahli Arab sjúkrahúsið á Gasa. Rétt er að nefna að engin óháð rannsókn hefur farið fram og leitt í ljós að sú staðhæfing ísraelskra stjórnvalda sé rétt. Biden sagði að ekki mætti gefast upp á áformum um tvö ríki Ísraels og Palestínu. Hann talaði með áherslu um að í Bandaríkjunum væri hvorki pláss fyrir fordóma og hatur í garð gyðinga né múslima, hvort tveggja yrði að fordæma. Tilfinningaríkast var ef til vill þegar forsetinn sagði: „til allra þeirra sem þjást, ég vil að þið vitið að ég sé ykkur, þið tilheyrið.“

Þannig höfðaði Biden til tilfinninga og virtist taka tillit til grundvallarsjónarmiða ólíkra áheyrenda, í ávarpi sem gerði þó ljóst að hvaða marki mælskunni væri stefnt: að forseti Bandaríkjanna vill ótilgreindar, umtalsverðar fjárheimildir til að senda hergögn og styrkja tvo heri í tveimur stríðum samtímis, Úkraínuher og Ísraelsher.

„Megi Guð blessa ykkur öll og megi Guð verja hermenn okkar,“ lauk forsetinn ávarpinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí