„Samkeppnisbrot íslenskra skipafélaga er alvarlegur glæpur gegn íslenskum neytendum. Glæpurinn er ekki huglægur. Hann snýst um lífskjör. Það er von mín og ósk að þær stofnanir sem fjalla um áfrýjun úrskurðar Samkeppniseftirlits hafi hugrekki og manndóm til að meta varnarræður vitfirringa þegar í réttarsal kemur. Hagsmunir sem eru undir í þessu máli eru lífskjör á Íslandi. Þau eru æðri hagsmunum íslenskra iðjuhölda,“ skrifar Vilhjálmur Bjarnason, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Mogga dagsins.
Vilhjálmur rekur glæpi nokkurra fjárglæframanna í sögunni, meðal annars Jósafat Arngrímsson, en segir síðan: „Glæpamaður Íslands nr. 1 getur ekki réttlætt samkeppnisbrot með því að hann hafi tapað fjandann ráðalausan í tilraunum sínum til heimsyfirráða og því ætlað sér að endurheimta tapið á saklausum íslenskum neytendum. Forsenda nauðasamninga við lánardrottna getur aldrei verið tilræði við neytendur.“
Þarna er augljóslega átt við Ólaf Ólafsson, aðaleiganda Samskipa, sem tapaði eign sinni í Kaupþingbanka við Hrunið, fyrir réttum fimmtán árum. Samskip var þá ofurskuldsett og lánardrottnar félagsins tóku það yfir. Ólafur og aðrir stjórnendur keyptu félagið síðan aftur og fjármögnuðu kaupin með samráði við Eimskip um taumlaust okur á flutningum.
Skrif Vilhjálms eru á skjön við leiðaraskrif Moggans þar sem hamast hefur verið á Samkeppniseftirlitinu undanfarnar vikur og þess krafist að það verði lagt niður og forstjóri þess rekinn. Á yfirborðinu eru þær kröfur byggðar á ásökunum um yfirgang eftirlitsins gagnvart stórútgerðarmönnum en í ljósi þess að Morgunblaðið hefur lítið fjallað um stærsta samkeppnislagabrot Íslandssögunnar, má ætla að raunveruleg sök Samkeppniseftirlitsins í huga Moggamanna sé afhjúpun á samsæri skipafélaganna.
Vilhjálmur segir í grein sinni að til þess til þess að Samkeppniseftirlit verði virkt þurfi að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Þessum markmiðum verði náð með því að:
- vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri
- vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum
- auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum
- stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur
Síðan sehgir Vilhjálmur: „Ef fulltrúar kjósenda telja að regluverk sé of flókið til að vinna að hagsmunum neytenda þýðir það að hagsmunir framleiðenda vöru og þjónustu séu æðri hagsmunum neytenda. Það getur aldrei orðið nema í hugum vitfirringa. En þeir eru til! Vandinn í málsvörn kann að vera sá að kunna ekki að þegja yfir nógu mörgu.“ Og þar augljóslega við samflokksmenn sína, sem ætið verja stórfyrirtæki þegar hagsmunir þeirra og almennings fara ekki saman. Og enn frekar á þetta við um Morgunblaðið og aðra hluta auðvaldspressunnar.