Mikið fjaðrafok um ekki neitt

Landsþingi Verkamannaflokksins í Liverpool í Bretlandi er nýlokið. Þingið var haldið viku seinna en þing Íhaldsflokksins en féll gersamlega í skuggann á átökunum í Ísrael/Palestínu. Reyndar er ekki víst að flokknum hafi mislíkað það þar sem í raun hefur flokkurinn ekki haft sig mikið í frammi á nýlega. Líkt og Samfylkingin á Íslandi hefur Verkamannaflokkurinn hefur verið í mikilli uppsveiflu og verið með nær 20% forskot á Íhaldsflokkinn í skoðanakönnunum á síðustu mánuðum. Flestir stjórnmálarýnendur eru þó sammála um að það sé ekki vegna stefnu flokksins og forystusveit hans, heldur frekar mælikvarði á hversu hryllilega ríkisstjórn Íhaldsflokksins hefur haldið á málum.

Í síðustu kosningunum, sem fram fóru í skugga Brexit árið 2019, tapaði flokkurinn töluverðu fylgi, fór úr rúmum 40% atkvæða niður í um 32%. Það sem verra var fyrir flokkinn þá tapaði hann mörgum þingsætum á hinu svokallaða rauða belti, sem líka má kalla ryðbelti Bretlands. Þetta voru almennt talin trygg þingsæti fyrir Verkamannaflokkinn en Brexit var mjög vinsælt á þessu svæði og naut Íhaldsflokkurinn þess. Nú virðist þessi sveifla hafa gengið til baka og meira en svo, Íhaldsflokkurinn hefur hrunið alstaðar í landinu og Verkamannaflokkurinn virðist meira að segja vera að rétta við sér í Skotlandi þar sem flokkurinn hafði tapað nær öllum þingsætum sínum til Skoska þjóðernisflokksins.

Í kjölfar ósigursins sagði þáverandi leiðtogi Verkamannaflokksins, Jeremy Corbyn, af sér og Keir Starmer var kjörinn leiðtogi í hans stað. Starmer var háttsettur í skuggaráðuneyti Corbyn og og talinn til „soft left“ innan flokksins. Hann bauð sig fram sem sáttaleiðtoga eftir harðar deilur höfðu átt sér stað innan Verkamannaflokksins frá því að Corbyn og vinstrimenn náðu yfirhöndinni í flokknum 2015. Stuðningsmenn Tony Blair, fv. forsætisráðherra, höfðu aldrei sætt sig við kjör Corbyn og höfðu leynt og ljóst grafið undan honum og vinstrimönnum í flokknum. Var herferðin gegn vinstrimönnum í flokknum svæsin og ósvífnum lygum beitt. T.d. var Corbyn sakaður um gyðingafordóma, maður sem hafði alla æfi barist gegn rasisma og fordómum. Fréttastöðin Al Jazeera fjallaði um þetta á ýtarlegan hátt í fræðslumynd sem frumsýnd var í fyrra. Í skugga þessara átaka var Keir Starmer kosinn formaður í flokkskosningum þar sem hann lofaði að berjast fyrir vinsælli stefnuskrá Corbyn og vinstrimanna en leita sátta í flokknum.

Eftir kjör Starmer þá sýndi hann að hann var ekki maður sátta heldur þvert á móti. Miklar hreinsanir hófust innan flokksins, vinstrimenn voru hraktir út í horn og sjálfur Jeremy Corbyn var rekinn úr þingflokknum.  Starmer sankaði að sér mönnum úr klíku Tony Blair og „New Labour“ sem ýtt hafði verið til hliðar á tímum Corbyn. Smá saman var stefnumálum vinstrimanna skipt út fyrir „hófsama“ stefnu um að breyta sem minnstu og rugga ekki bátnum. Margir félaga í Verkamannaflokknum töldu sig illa svikna og hafa kallað stefnu Starmer lítið annað en útvatnaða stefnu Íhaldsflokksins. Starmer hefur í raun snúið við stefnu flokksins í flestum málum og hikar ekki við að ganga bak orða sinna. Hinn virti breski blaðamaður Peter Oborne hefur flett rækilega ofan af Keir Starmer og hvernig hann hefur gengið lengra en aðrir hægrisinnaðir leiðtogar flokksins í að ráðast gegn vinstrimönnum í flokknum. Oborne bendir á að Verkamannaflokkurinn hafi ávallt verið breið kirkja, meira að segja Tony Blair gekk ekki svo langt að reka vinstrimenn úr flokknum þó hann hafi ekki hlustað mikið á þá. Oborne telur að Verkamannaflokkurinn sé að breytast í þrönga hægrisinnaða klíku sem í raun geri stóran hluta landsmanna landlausan í pólitík.

Aftur að þingi Verkamannaflokksins. Í takt við stefnuna (eða stefnuleysið) sem flokkurinn virðist aðhyllast í dag þá var helsta þema þingsins að rugga bátnum sem minnst en virðast vera róttækir við að gera lítið. Flokkurinn setti 5 stefnumál á oddinn.

  1. Stórfelld uppbygging á húsnæði. Flokkurinn hefur lofað að byggja 1,5 milljónir nýjar íbúðir til að hjálpa ungu fólki til að eignast húsnæði. Angela Rayner, varaformaður flokksins sem telst frekar til vinstri í flokknum, lagði í ræðu sinni áherslu á uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis en Starmer talaði mest um að byggja húsnæði til sölu. Þó að óumdeilt sé í Bretlandi að það þarf að byggja mikið nýtt húsnæði þá var Verkamannaflokkurinn með mikið fjaðrafok á þinginu um að það ætti að fara með jarðýtu í gegnum skipulagslög sem hindruðu uppbyggingu.
  2. Uppbygging á grænu orkufyrirtæki. Þetta er í raun útvötnuð útgáfa af stefnu Jeremy Corbyn um að öll orkufyrirtæki væru aftur tekin inn í almannaeigu.  En til þess að styggja hagsmunaaðila sem minnst þá hefur stefnan verið smættuð niður í þetta. Starmer hefur þvertekið fyrir að samfélagsvæða orkufyrirtækin þó að hann hafi verið fylgjandi því þegar hann bauð sig fram til formanns.
  3. Breska heilbrigðiskerfið (NHS) er komið að fótum fram. Það er því óumdeilanlegt að þar þarf að taka til og efna til stórfelldrar uppbyggingar. Þetta er augljós atkvæðaryksuga fyrir flokkinn og hefur alltaf verið því Bretar hafa í raun aldrei treyst Íhaldsflokknum fyrir NHS.
  4. Fjölgun á lögreglumönnum og harka gegn brotamönnum. Flokkurinn telur að slíkt sé vinsælt meðal fólks á rauða beltinu svokallaða.
  5. Brjóta niður hindranir gegn því að fólk geti náð frama í samfélaginu. Flokkurinn lofar uppbyggingu í skólakerfinu, í raun lofar hann því að eitthvað af harkalegum niðurskurði Íhaldsstjórnarinnar verði snúið við. Þetta er ekki stefnumál sem nokkur getur verið á móti og því varla líklegt til að rugga bátnum.

Niðurstaðan á þessu þingi Verkamannaflokksins virðist einkennast af því að komist flokkurinn til valda verði litlu breytt. Lagað hér og þar, en róttækar samfélagsbreytingar þær sem forysta Jeremy Corbyn boðaði virðist algjörlega horfin. Ekkert er talað um að sækja ofsagróða til fyrirtækjanna. Ekkert er talað um að hækka skatta á ríkasta fólkið. Ekkert talað um að almannavæða grunnþjónustufyrirtækin í landinu. Ekkert talað um að byggja upp samfélag jöfnuðar í framtíðinni. Engar tillögur um róttækar breytingar. Lítið fjaðrafok um ekki neitt (Much Ado About Nothing) eins og skáldið William Shakespeare kallaði eitt af þekktari leikritum sínum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí