Milljarða ávinningur ríkisins af samningi við Microsoft hvergi sjáanlegur

Stjórnvöld hafa ekki getað sýnt fram á að fyrirheit um 5,5 milljarða ávinning ríkisins af samningi við Microsoft á Íslandi hafi verið uppfyllt. Raunar virðast stjórnvöld ekki einu sinni hafa reynt að sýna fram á nokkuð slíkt og ekki lagt til neina hlutlæga mælikvarða til að meta þann árangur sem heitið var.

Á mánudag birti Ríkisendurskoðun skýrslu um úttekt embættisins á samningi ríkisins við Microsoft, eftir að kynna innihald skýrslunnar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Í úttektinni kemur fram að „Fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi ekki getað sýnt fram á að sá fjárhagslegi ávinningur sem að var stefnt, þ.e. 5,5 ma.kr. árlegur sparnaður frá og með árinu 2023, hafi skilað sér,“ eins og það er orðað í tilkynningu Ríkisendurskðunar. Þá hafi „komið upp tilfelli þar sem fjármunum var sóað og að enn séu uppi álitamál vegna öryggis- og persónuverndarsjónarmiða.“

Ekkert fordæmi meðal annarra ríkja

Samningurinn sem Fjármálaráðherra gerði við Microsoft á Íslandi árið 2018 var fyrsti samningurinn af þeim toga sem Microsoft gerir við heilt ríki, eins og haft var eftir framkvæmdastjóra fyrirtækisins í fréttatilkynningu ráðuneytisins.

Eins og iðulega þegar íslensk stjórnvöld gera stóra samninga við alþjóðafyrirtæki á þessu sviði var samningur ríkisins við Microsoft á Íslandi meðal annars kynntur með ummælum um að þar með væri íslenskri tungu að einhverju leyti betur borgið en áður: „Tryggir íslenskunni sess,“ sagði þannig í fyrirsögn Morgunblaðsins um samninginn 2. júní 2018. Var þar vísað sérstaklega til þýðingatækni í Microsoft Word. Svo virðist sem stjórnvöld hafi líka viljað gera þessum þætti hugbúnaðarins sérlega hátt undir höfði en fréttatilkynning Fjármálaráðuneytisins daginn áður hófst á því að tilkynna að hægt yrði „að þýða íslenskan texta yfir á sextíu önnur tungumál og Microsoft mun forgangsraða íslenskri talvél framar.“ Þá sagði þar að „stefnt“ væri á „að láta hugbúnaðinn skilja íslenska tungu.“

Morgunblaðið, 2. júní 2018.

Það virðist hvorki á sviði Ríkisendurskoðunar né nokkurs annars embættis innan stjórnsýslunnar að meta hvernig Microsoft hefur tekist til við að forða íslenskri tungu frá glötun. Ríkisendurskoðun lætur sig hins vegar varða fullyrðingar stjórnvalda um væntan fjárhagslegan ávinning af samningnum og tekur meðal annars til skoðunar hvort þær hafa staðist.

Fyrirheit um 5,5 milljarða ávinning brugðust

Þannig sagði í fyrrnefndri fréttatilkynningu Fjármálaráðuneytisins þann 1. júní 2018 að með samningnum myndu sparast 200 milljónir króna árlega. Fljótlega kom þó í ljós að einhverjar þeirra stofnana sem áður höfðu gert sjálfstæða samninga við Microsoft um hugbúnaðarlausnir mættu hækkun á leyfakostnaði með tilkomu nýja heildarsamningsins. Ráðuneytið svaraði þeim ábendingum með fréttatilkynningu vorið 2019. Þar var vísað til greiningarvinnu sem unnin hafði verið í samstarfi við Capacent, sem komst að þeirri niðurstöðu að áviningur af heildarsamningnum væri fjölþættari en svo að hann yrði metinn út frá kostnaði við einstök leyfi einstakra stofnana. Þar var fullyrt að ekki aðeins myndu 200 milljónir króna sparast árlega fyrir tilstilli samningsins, heldur yrði „bein hagræðing“ og aukin skilvirkni af þessari samþættingu sem næmi 800 milljón króna ávinningi á ári; tímasparnaður innan stofnana hins opinbera myndi nema 2,7 milljörðum króna á ári; og „afleidd áhrif“ 2 milljörðum. Þannig yrði árlegur ávinningur hins opinbera af samningnum 5,5 milljarðar króna, og myndi hann koma fram að fullu á þessu ári, 2023.

Það eru þessar fullyrðingar sem Ríkisendurskoðun tekur til athugunar í úttekt sinni og kemst að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið hafi ekki getað sýnt fram á umræddan ávinning. Í úttektinni segir: „Engar hlutlægar mælingar á tímasparnaði eða auknum afköstum starfsfólks sem rekja má til samningsins hafa farið fram og engum gögnum um þá þætti er til að dreifa. Aðspurt gat fjármála- og efnahagsráðuneyti ekki svarað því hvort þessi markmið hefðu náð fram að ganga.“

Engir hlutlægir mælikvarðar til að meta árangur

Ávinningsmatið byggði að sögn Ríkisendurskoðunar á „almennum forsendum og var aldrei nýtt til þess að skilgreina hlutlæga mælikvarða um árangur þess að gera og innleiða heildarsamning milli ríkisins og Microsoft.“ Að auki segir þar að ómögulegt sé „að segja til um með hvaða hætti þróunin hefði orðið ef ekki hefði komið til heildarsamnings og við hvað eigi þá að meta ávinning samningagerðarinnar. Engu að síður er ljóst að stöðugildum vegna starfa við upplýsingatækni hefur ekki fækkað hjá stofnunum ríkisins frá því samningurinn við Microsoft var gerður.“

Þá stóðust væntingar um beinan fjárhagslegan ávinning vegna lægri leyfagjalda ekki heldur. „Almennt hefur kostnaður fyrir hvert notendaleyfi ríkisstofnana í A-hluta aukist eftir gerð og innleiðingu heildarsamnings. … Þrátt fyrir aukinn samrekstur verður ekki séð að kostnaður stofnana vegna upplýsingatækni hafi minnkað.“

Úttektin leiðir í ljós, segir þar, að „verkefnið var vanmetið í upphafi og ekki nægilega vel undirbúið“ auk þess sem „meirihluti þeirra markmiða sem stefnt var að skv. fyrrgreindu árangursmati náðust ekki í samræmi við fyrirætlanir ráðuneytisins.“

Í úttekt Ríkisendurskoðunar eru einnig gerðar athugasemdir við atriði sem varða persónuvernd og aðra þætti sem varða hugbúnaðarlausnir sérstaklega.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí