Moskvusinnar vinna kosningasigur í miðri Evrópu

Sigurvegari kosninganna í Slóvakíu er Robert Fico og flokkur hans Smer, eða Stefna – sósíaldemókratar. Það er erfitt fyrir fólk utan Slóvakíu að átta sig á þessum flokki, eins og á við um flesta flokka í slóvakískum stjórnmálum. Flokksmenn skilgreina flokkinn sem sósíaldemókratískan með slóvakískum blæ. Og sá blær felur meðal annars í sér andstöðu við stuðning Slóvakíu við Úkraínu í stríðinu við Rússa, andstöðu við réttindi samkynhneigðra og margt sem er líkara nýja hægrinu í Vestur-Evrópu en settlegum sósíaldemókrataflokkum. Flokkurinn hefur verið skilgreindur sem vinstri popúlískur flokkur sem hallur er undir Pútín og Rússa, hvernig svo sem það á að vera hægt.

Þegar svo til öll atkvæði hafa verið talin er Smer með 42 þingmenn af 150 á þjóðþinginu. Til að mynda ríkisstjórn þyrfti Robert Fico að semja við fyrrum samherja sinn, Peter Pellegrini og flokk hans Hlas, eða Rödd – sósíaldemókratar, sem klofnaði út úr Smer. Eins og með Smer myndi Hlas vera skilgreindur sem velferðarflokkur á efnahagssviðinu en íhalds- eða afturhaldsflokkur í samfélagsmálum og mannréttindum. Miðað við það sem þegar hefur verið talið upp úr kjörkössunum er Hlas með 27 þingmenn.

Saman hafa þeir fyrrum félagar, Fico og Pellegrini, því 69 þingmenn, vantar 7 þingmenn upp á meirihlutann. Þeir gætu leitað til Slóvenska þjóðernisflokksins, sem er með 10 þingmenn, og er álíka íhaldssamur í samfélagsmálum og líka hallur undir Rússa, en myndi aldrei skilgreina sig sem sósíaldemókratískan flokk eins og Smer og Hlas gera. En eins og aðrir ný-hægri flokkar vilja Þjóðernissinnarnir styrkja velferðarkerfin, en aðeins fyrir fólk af réttu þjóðerni. Annar valkostur eru Kristilegir demókratar með 12 þingmenn, álíka íhaldssamur flokkur og hinir. Þriðji kosturinn er OL’aNO, sem er skammstöfun sett saman úr nafni flokks sem gæti kallast Venjulegt fólk og sjálfstæðir einstaklingar upp á íslensku. Það er enn einn íhaldssami flokkurinn. Sá hefur 16 þingmenn.

Það stefnir þvi flest í ríkisstjórn sem vill skrúfa ofan af áunnum réttindum samkynhneigðra, kvenna og annarra hópa sem hafa fengið aukin réttindi á undanförnum áratugum. Og ríkisstjórn sem tekur svipaða stöðu innan Evrópusambandsins og Nató og Viktor Orban, leiðtogi Ungverja, hefur gert. Eina sem getur stoppað þetta er að Pellegrini uni Fico ekki að verða forsætisráðherra og reyni að mynda ríkisstjórn með tveimur flokkum sem skilgreina mætti sem frjálslynda nýfrjálshyggjuflokka og Evrópusinna, einskonar Viðreisn. Annars vegar er það Framsóknarflokkur Slóvakíu og hins vegar Frelsi og samstaða. Saman hafa þessir tveir 43 þingmenn. Með Hlas eru þá komnir 70 þingmenn, vantar sex upp á tæpasta meirihluta. Til að ná saman í ríkisstjórn yrðu frjálslyndari flokkarnir að semja við einn af afturhaldsflokkunum. Og það getur auðvitað gerst. Það er alls ekki svo í Slóvakíu, frekar en í öðrum löndum, að stjórnmálafólk nái saman um hugsjónir eða stefnu. Oftast er einfaldlega samið um völd og persónulegan metnað. Um leið og kjörstöðum lokar missa kjósendur öll völd, pólitíkin hættir að snúast um vilja almennings og hverfist um stjórnmálastéttina.

En líklegast er að næsta ríkisstjórn í Slóvakíu reki stefnu sem er líkari þeirri sem Pútín rekur í Rússlandi en einhverju sem Evrópubúar vilja almennt flokka undir sín gildi, sem sagt er að Úkraínumenn séu að fórna sér fyrir alla daga. Þetta er ekki einskorðað við Slóvakíu. Ný-hægri flokkar með hugmyndaleg tengsl við Pútín hafa verið að vinna kosningasigra undanfarin misseri á Ítalíu, í Svíþjóð og Finnlandi. Og það gæti gerst í Hollandi í haust og mögulega á Spáni í janúar auk þess sem margt bendir til að Pólverjar muni endurnýja vilja sinn til að feta þessa braut um miðjan þennan mánuð. Jafnvel að ganga hraðar í þessa átt.

Slóvakía er í Evrópusambandinu og þar er evra gjaldmiðilinn. Landið er í Nató og Schengen. Það hefur því bein áhrif á Ísland hvaða leið Slóvakía velur. Landið tilheyrir Visegrád-löndunum ásamt Tékklandi, Póllandi og Ungverjalandi. Í öllum þessum löndum eru sterkustu stjórnmálaöflin efins um það sem kallað er frjálslyndi á Vesturlöndum. Og þar er lítill vilji til að fara lengra í sameiningu Evrópu, krafan er um aukin völd þjóðríkjanna og minni völd Evrópusambandsins í Brussel.

Myndin er af Robert Fico fagna sigri í nótt.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí