„Róttækar breytingar á tekjuskattskerfi einstaklinga í tíð Bjarna Benediktssonar í fjármálaráðuneytinu hafa leitt til þess að einstaklingar greiða á þessu ári um 61 milljarði króna minna í tekjuskatt en þeir hefðu gert að óbreyttu,“ skrifar Óli Björn Kárason, fyrrum þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í Mogga dagsins og byggir á svari Bjarna Benediktssonar, fyrrum fjármálaráðherra til þingsins um skattabreytingar frá 2013 þegar hann tók við.
Óli Björn segir svo: „Þetta jafngildir að einstaklingar greiði að meðaltali um fimm milljörðum lægri tekjuskatt í hverjum mánuði,“ og lætur í það skína að almenningur hafi notið þessara skattabreytinga. Sé t.d. miðað við 6. launaflokk Starfsgreinasambandsins þá hafa skattar fólks á þeim lágu launum ekki lækkað heldur hækkað á þess tímabili. Það eru aðrir en launafólk sem hefur notið góðs af lækkun skatta hjá Bjarna og Sjálfstæðisflokknum.
Skattabreytingar Bjarna er helstar lækkun bankaskatts, afnám auðlegðarskatts, lækkun tolla og mikil endurgreiðsla á tekjuskatti fyrirtækja. Þetta eru allt lækkanir sem koma hinum efnameiri til góða, ríkustu fjármagnseigendunum og stærstu eigendum stærstu fyrirtækjanna.
Bjarni vill halda því fram að lækkun bankaskatts hafi lækkað lánakostnað almennings en enginn annar trúir því. Þvert á móti er augljóst að lækkun skattsins jók aðeins hagnað bankanna. Sama má segja um lækkun tolla og aðflutningsgjalda. Afleiðing þeirra breytingar var betri afkoma heildsala og smásala, ekki lækkun verðlags, enda glíma Íslendingar við svokallaða græðgisverðbólgu sem drifin er áfram af okri fákeppnisfyrirtækja.
En afleiðing þessara skattalækkana lendir á almenningi. Bjarni hefur lækkað skatta á hin ríku og skilið gat eftir á ríkissjóði, svipað og Liz Truss vildi gera þá skömmu tíð sem hún var forsætisráðherra Bretlands. Bretar höfnuðu þeirri efnahagsstjórn, að réttlætanlegt væri að lækka skatta á hin ríku án þess að fjármagna þá lækkun, með öðru en trúarsetningum um að skattalækkanir á hin ríku myndu á endanum skila sér til allra í formi blómlegs samfélags. Í Bretlandi sá fólk að slíkt myndi leiða til verðbólgu og grafa undan efnahag allra annarra en hinna ríku. Og Bretar köstuðu Liz Truss og stjórn hennar af sér.
Íslendingar hafa ekki losað sig við Bjarna Benediktsson. Hann þurfti reyndar að segja af sér í fjármálaráðuneytinu vegna endalauss klúðurs við sölu á hlutabréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka, sem hann þurfti að selja til að fylla upp í gatið sem skattalækkun til hinna ríku skyldi eftir sig. Og Bjarni fór ekki langt, yfir í utanríkisráðuneytið og setti varaformann sinn í fjármálaráðuneytið til að framfylgja stefnu sinni áfram.
Ef við tökum yfirstandandi ár sem dæmi, þá væri ekki halli á fjárlögum yfirstandandi árs ef Bjarni hefði ekki lækkað skatta á hin ríku. Og afgangur á næsta ári, möguleiki á að hefja niðurgreiðslu skulda og draga úr vaxtakostnaði, sem er 88 milljarðar króna á þessu ári. Þetta má orða öðru vísi. Ef Bjarni hefði ekki lækkað skatta á hin ríku væru vaxtagreiðslur ekki að sliga ríkissjóðs og þrengja að möguleikum á að byggja hér upp gott samfélag fyrir allan almenning.
Og það væri heldur ekki brýn þörf að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka, að mati Bjarna og félaga. Ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn vill selja hlut almennings í bankanum er annars vegar hugmyndafræðileg. Flokkurinn vill koma eigum almennings til auðvaldsins. En hins vegar afleiðing af óstjórn Bjarna á ríkissjóði, afleiðing þess að hann hefur gefið frá sér tekjur af sköttum á fjármagns og fyrirtæki sem hefur skilið eftir gat á ríkissjóði. Og lausnin sem Bjarni og félagar sjá er að selja eignir. Og þá rennur andvirðið til að fjármagna skattalækkanir til hinna ríku, sem er ástæðan fyrir gatinu á ríkissjóði.