Í byrjun september fjallaði Samstöðin, ásamt fleiri fjölmiðlum, um mál Jawaher, átta barna móðir frá Palestínu, sem sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt börnum sínum en var synjað. Hún beið á þeim tímapunkti brottvísunar, í húsnæðisúrræði Ríkislögreglustjóra við Bæjarhraun í Hafnarfirði.
Nú sex vikum síðar hefur brottvísun fjölskyldunnar hins vegar ekki átt sér stað, samkvæmt heimildum Samstöðvarinnar. Jawaher og börnin bíða enn á sama stað, milli vonar og ótta, eftir því að bankað verði upp á og þeim skipað um borð í flugvél til að hverfa frá landinu, á milli þess sem þeim berast hörmungarfréttir af nýhöfnu stríði.
Hafa nú dvaldið í tæpt ár á Íslandi
Jawaher og börn hennar komu til Íslands í byrjun árs. Afgreiðsla umsóknar þeirra fram að synjun tók átta mánuði. Tíminn heldur áfram að líða og lífið heldur áfram að verða fáránlegra.
Þrjú barnanna eru sögð í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Elsta dóttirin er með andlega fötlun og getur ekki séð um sig sjálf, sagði í tilkynningu frá samtökunum Réttur barna á flótta. Freyja Haraldsdóttir, réttindagæslumaður fatlaðs fólks og talskona samtakanna Tabú, vakti einnig athygli á stöðu fjölskyldunnar. Hún útskýrði að unga konan væri með þroskahömlun og þyrfti mikinn stuðning í daglegu lífi.
Þá kom fram að annað úr hópi barnanna flogaveikt. Freyja tilgreindi nánar að það þurfi að hafa öruggan aðgang að lyfjum og sé enn útsettara fyrir flogum í svefnleysi og undir álagi.
Þriðja barnið var á þeim tímapunkti enn að jafna sig eftir skurðaðgerð í lok ágúst. Freyja bætti við að það þyrfti öryggi, heilsusamlegt umhverfi og eftirlit. Þá kom fram að móðirin sjálf ætti við veikindi að stríða.
Það var að skilja á máli talsmannsins sem Rauði krossinn á Íslandi skipaði fjölskyldunni, að þar sem um svokallað Dyflinnarmál væri að ræða, væri lítil von til að ákvörðun íslenskra stjórnvalda yrði snúið.