Inga mælir í þriðja sinn fyrir lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, mælti í dag í þriðja sinn fyrir frumvarpi um að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Flutningsmenn frumvarpsins eru, auk þingmanna Flokks fólksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður og þingmaður Viðreisnar.

Lagafrumvarpið sjálft er einfalt: 1. grein þess segir: „Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur lagagildi á Íslandi. Samningurinn um réttindi fatlaðs fólks er birtur sem fylgiskjal með lögum þessum.“ 2. grein frumvarpsins segir: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ísland undirritaði umræddan samning 30. mars 2007 og hann var fullgiltur 2016 en Alþingi hefur enn ekki lögfest hann. Það þýðir að enn sem komið er hefur samningurinn ekki bein réttaráhrif á Íslandi, kröfurnar sem í samningnum eru gerðar til stjórnvalda um réttindavernd fatlaðs fólks eru ekki lög á landinu og því ekki hægt að fylgja eftir innan dómstóla eða á öðrum vettvangi.

Árið 2019 samþykkti Alþingi tillögu um að fela stjórnvöldun að undirbúa lögfestingu samningsins og leggja fram frumvarp þess efnis ekki síðar en undir lok árs 2020. Í kjölfarið var ákveðið að þýða samninginn upp á nýtt. Ný þýðing var lögð fram og samþykkt árið 2021.

Stjórnarflokkarnir hafa þó enn ekki lagt fram frumvarp um lögfestingu samningsins. Inga Sæland mælti fyrir frumvarpinu á 152. þingi, í desember 2021, og aftur á 153. þingi, í nóvember 2022. Umsagnir bárust þá um frumvarpið frá Öryrkjabandalagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Íslandsdeild Amnesty International, NPA-miðstöðinni, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og réttindagæslumanni fatlaðra í Reykjavík og á Seltjarnarnesi, sem öll lýstu yfir stuðningi við frumvarpið.

Í framsöguræðu sinni nú á fimmtudag, þegar hún lagði frumvarpið fram í þriðja sinn, sakaði Inga Sæland stjórnvöld um að tefja málið vegna þess kostnaðar sem það gæti haft í för með sér. „Þess vegna hafa þau verið látin bíða árum saman eftir þessum grundvallarmannréttindum sínum.“

Gengið var til atkvæðis um málið og það sent til umfjöllunar í velferðarnefnd þingsins, þar sem að óbreyttu má vænta að það dagi uppi, þriðja þingið í röð.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí