Samtök atvinnulífsins og iðnaðarins á móti áformum um hagkvæmt húsnæði

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins standa einhuga gegn áformum Innviðaráðuneytisins um að hvetja til uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði. Þetta kemur fram í umsögn sem þau skiluðu um frumvarp ráðuneytisins í gær, mánudaginn 16. október. Í umsögninni segir:

„Samtökin telja í raun ekki þörf á umræddri lagabreytingu til að mæta markmiðum frumvarpsins um að aðstoða og hvetja sveitarfélög við uppbyggingu á almennum íbúðum.“

Almennar íbúðir er heiti yfir húsnæði sem reist er með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga, samkvæmt lögum um almennar íbúðir frá árinu 2016, „til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda,“ eins og tilgangi þeirra er lýst í lögunum.

Nýja frumvarpið, sem Sigurður Ingi Jóhannsson mælti fyrir á þingi þann 26. september sl., myndi „skilyrða allt að 25% af heildarfermetrafjölda íbúða við gerð deiliskipulags fyrir ný íbúðasvæði fyrir íbúðir sem falla undir lög um almennar íbúðir.“ Þá væri með öðrum orðum hægt að skylda skipulagsyfirvöld til að tryggja að fjórðungur nýs húsnæðis væri ætlaður fólki „sem eru undir tilteknum tekju- og eignaviðmiðum.“

„Of miklar kvaðir“

Það er þetta sem Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins leggjast nú gegn. Fyrir því færa þau vitaskuld einhvers konar rök eða eitthvað sem lítur út eins og rök. Í umsögn þeirra segir: „Samtökin telja í raun ekki þörf á umræddri lagabreytingu til að mæta markmiðum frumvarpsins um að aðstoða og hvetja sveitarfélög við uppbyggingu á almennum íbúðum. Uppbygging almennra íbúða á sér stað í þeim sveitarfélögum þar sem vilji er fyrir hendi og ekki virðist vera nein lagaleg óvissa um heimild sveitarfélaga til að gera samninga um uppbyggingu á almennu húsnæði.“

Með öðrum orðum láta þau í veðri vaka að þau telji að uppbygging á hagkvæmu húsnæði hljóti að eiga sér stað hvort sem stjórnvöld þrýsta á um það eða ekki. Þau ganga svo langt að halda því fram að frumvarpið myndi „að óbreyttu, að það hamli uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.“

Umsögnin er nokkuð löng, teygir sig yfir átta blaðsíður, og er þar frumvarpinu fundið allt til foráttu. Leiðarstefið í gegnum athugasemdirnar allar er það sama: „Of miklar kvaðir að þessu leyti geta hamlað uppbyggingu íbúða og dregið úr hvata fyrirtækja til að fara af stað í uppbyggingu“, „telja samtökin fyrir liggja að kvaðir á borð við þær sem eru boðaðar með frumvarpinu geti skert eignarréttindi“ og „í öllu falli telja samtökin mikilvægt að metið sé hvort hægt sé að fara aðrar og vægari leiðir að sama markmiði“.

Umsögn SA og SI má finna á vef Alþingis. Ferli frumvarpsins sem þau standa nú gegn er þar vitaskuld einnig.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí