Segir Krónuna hafa hækkað verð langt umfram tilefni kjarasamninga

Dýrtíðin 26. okt 2023

„Þetta er eins kristaltært og getur orðið: Kjarasamningar á síðasta ári höfðu ekki þau áhrif á vöruverð hjá Krónunni að fyrirtækið hefði verið tilneytt að hækka verð hjá sér eins og það gerði. Það notaði kjarasamningana sem afsökun fyrir meiri hækkunum en þörf var á, eins og sést á aukinni framlegð og auknum hagnaði,“ segir Marinó G. Njálsson tölvufræðingur.

„Seðlabankastjóri verður að leita eitthvað annað að sökudólgum,“ heldur hann áfram. „Eða kannski að hann skýri út, hvernig 1,25% hækkun heildarkostnaðar, að því virðist, vel rekins fyrirtækis, hefði átt að valda 9,1% hækkun verðs matar og drykkjarvöru frá undirritun kjarasamninga í byrjun desember 2022 til loka 3. ársfjórðungs 2023? Það er a.m.k. ekki því að kenna, að fólk á nánast lægstu launatöxtum samfélagsins fékk launahækkun.“

Mariní fer yfir níu mánaðaruppgjör Festi á facebook siðu sinni.

„Festi, móðurfélags Krónunnar, Elko og N1, gaf í dag út afkomutilkynningu og uppgjör fyrri 3. ársfjórðung 2023. Í tilkynningunni má segja að fyrirtækið „afsaki“ sig að hafa „bara“ skilað 1,8 milljarða króna hagnaði á ársfjórðungnum. Segir í tilkynningunni að afkoma samstæðunnar hafi aukist um 16,2% frá sama tímabili á fyrra ári og að niðurstaðan hafi verið þetta „þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi „í formi áhrifa verðbólgu á vöruverð og allan rekstrarkostnað“ „.

Ég græt nú krókudílatárum yfir þessu krefjandi rekstrarumhverfi og sérstaklega verðbólgunni. Mig langar að upplýsa fyrirtækið um það, að frá júní og fram í september þá var verðbólga, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, heil 0,72%. Get ég ekki séð að áhrif verðbólgu hafi verið mikil á vöruverð eða rekstrarkostnað á þessu tímabili. Síðan má spyrja: Hve stór hluti verðbólgunnar var því að kenna?

Nú rekstrarumhverfið var svo krefjandi að tekjur samstæðunnar jukust um 6,2% á milli ára og framlegð mældist 23,0% og hækkaði um 2,9 prósentustig sem samsvarar 14,4% hækkun framlegðarinnar á milli ára. Og til að leggja sérstaka áherslu á hve krefjandi rekstrarumhverfið var, þá stendur þetta í afkomutilkynningunni:

„Framlegð í dagvöru eykst um 640 millj. kr. eða 17,7% á milli ára vegna aukinnar veltu í verslunum Krónunnar og N1. Framlegð í orkusölu hækkar um 911 millj. kr. vegna góðrar magnaukningar milli ára og jákvæðari þróunar eldsneytisverðs á fjórðungnum í samanburði við fyrra ár.“

Ég er 100% viss um að þessi jákvæða þróun eldsneytisverðs var ekki neytendum til hagsbóta!

Sé þessu deilt niður á dótturfyrirtækin, þá jókst velta Krónunnar um 27% á milli ára og hagnaður upp á 1,3 milljarða króna samsvaraði um 30% hækkun frá sama tímabili í fyrra. N1 og Elko högnuðust, en ekki eins mikið og árið á undan.

Takið vel eftir þessu. Önnur stærsta matvöruverslunarkeðja landsins jók hagnað sinn um 30% – þrjátíu prósent! Stóð hún undir 72% af hagnaði Festis. Krónan tók 296 milljónir króna meira inn í hagnað á fyrstu níu mánuðunum í ár en á sama tímabili árið 2022 og búast má við, að framlegð fyrirtækisins hafi verið eitthvað umfram þau 23,0% sem Festi náði í heild, enda jókst hún um 17,7%.

En rúsínan í pylsuendanum eru upplýsingar um laun og starfsmannakostnað, en ég hef oft sagt, að fullyrðingar um að kjarasamningar hafi valdið mikilli verðbólgu, haldi ekki vatni. Í árshlutareikningum er þessi liður sagður hafa hækkað um 18,2% á milli ára fyrstu 9 mánuði hvors árs, en jafnframt bent á að stöðugildum hafi fjölgað um 6,5%. Nú veit ég svo sem ekki hve stóran hluta af þessari 18,2% hækkun megi rekja til 6,5% fjölgunar stöðugilda, en gefum okkur til einföldunar að hækkun launa og starfsmannakostnaðar dreifist þokkalega jafnt á alla starfsmenn (sem það gerir ekki, því starfsfólk í matvöruverslunum er yfirleitt á frekar lágum launum). Þá þýðir það að 106,5% starfsmanna standa undir 118,2% launa og starfsmannakostnaðar (100% starfsmanna stóð áður undir 100% launa og starfsmannakostnaðar). Það þýðir að laun og starfsmannakostnaður á hvern starfsmann hafi hækkað um 10,9% (118,2/106,5-1=0,109=10,9%).

Síðan þegar við tökum tillit til þess, að laun og starfsmannakostnaður Festis þessa 9 mánuði 2023 var um 11,3% af veltu Festis, þá voru áhrif kjarasamninganna um 1,23% á heildarveltu, en aðeins hærra hlutfall af heildarútgjöldum eða ca. 1,25%.

Ég myndi vilja sérstaklega, að Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, sé látinn vita af þessu. Kjarasamningarnir, sem fjármálastöðugleika- Ásgeir, leist svo vel á en peningastefnu-Ásgeiri ekki, þeir ollu 10,9% hækkun launa og starfsmannakostnaðar hjá Festi fyrstu 9 mánuði ársins miðað við sama tímabil í fyrra og sú hækkun nam um 1,25% heildarkostnaðar.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí