Það mætti ætla að það sé draumur meirihlutans í Reykjavík að á Hlemmi sjáist enginn sem er með undir milljón í mánaðarlaun. Búið er að henda farþegum Strætó úr húsi, svo auðugir ferðamenn og miðstjórnendur fjármálafyrirtækja geti haft það notalegt meðan þeir drekka sína kokkteila. Þeir sem eru svo fátækir að þeir þurfa að fara í Strætó geta beðið úti, vanir því, en það sárvantar fleiri samkomustaði fyrir uppa á kókaíni og snobbuðu vini þeirra.
Á ensku kallast þetta fyrirbæri gentrification og hefur valdið því að fátækt fólk hefur verið hrakið frá heimilum sínum um heim allan. Ríkt fólk ákveður skyndilega að hverfi sé flott, flytur þangað og hækkar þannig fermetraverðið. Síðan er algengt að ríka snobbliðinu finnist hverfið sálarlaust án fátæka fólksins og þá endurtekur sagan sig.
Reykjavíkurborg sker sig nokkuð úr öðrum löndum hvað þetta varðar en hér er þetta neikvæða ferli að mestu drifið áfram af yfirvöldum. Nýjasta dæmið um þetta er ný auglýsing Reykjavíkurborgar. Þar er óskað eftir samstarfsaðila til að okra á listamönnum. Nánar tiltekið að halda utan um rekstur fyrir „skapandi greinar“ í húsnæði við Laugaveg 105, beint á móti Hlemmi.
„Gert er ráð fyrir að húsnæðið verði nýtt sem vinnu- og lærdómsaðstaða þar sem skapandi greinar svo sem listgreinar, hönnun, forritun og önnur nýsköpun komi saman. Staðsetning húsnæðisins hentar vel í ljósi þess sem er og verður í næsta nágrenni og þeirri uppbyggingu sem er á næsta leiti,“ segir í auglýsingunni.
En þetta hljómar kannski ekki svo illa en þessi aðstæða verður ekki ódýr fyrir listamennina. Reykjavíkurborg segir að leiga fyrir þessa 655 fermetra verði aldrei minni en ein og hálf milljón á mánuði. Ofan á það mun milligöngumaðurinn vilja taka sinn skerf. Og þó að þetta sé vissulega atvinnurými þá er hægt að fullyrða að þetta sé ekki að fara að hjálpa við að draga úr óðaleiguverði í miðborg Reykjavíkur.