Sameiginlegur fundur framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins lýsir yfir stuðningi flokksins með öllum fátækum á alþjóðlegum degi fátæktar, 17. október, sem og alla aðra daga. Ályktað var að flokkurinn muni leggja baráttu þeirra hópa lið sem rannsóknir hafa sýnt að eru útsettir fyrir fátækt. Fjölmennastir þessara hópa eru öryrkjar, innflytjendur, aldraðir, leigjendur, einstæðir foreldrar og láglaunafólk.
„Sú staðreynd að þjóðskipulag okkar þrýstir þessum hópum niður fyrir fátæktarmörk afhjúpar grimmd kerfisins. Í stað þess að tryggja öllum viðunandi afkomu og kost á góðu lífi er afkomukvíða þröngvað upp á tugir þúsunda. Stórir hópar fólks þurfa að neita sér um mat, læknishjálp, frístundir og hvíld. Barátta þessara hópa fyrir réttlæti er mikilvægasta baráttan fyrir góðu samfélagi.
Auðveldasta leiðin til að bæta samfélag er að laga það sem aflaga er. Þess vegna ætti óskalisti hinna fátæku að vera leiðarljós stjórnvalda. Markmið þeirra ætti að vera að færa þeim öryggi, skjól og trygga afkomu sem búa við fáækt og óöryggi. Það væri heilbrigð stjórnarstefna, öfugt við þá sem núverandi ríkisstjórn rekur. Stefna ríkisstjórnarinnar byggir á að spyrja hin ríku og valdamiklu um hvað þeim vanhagar um og nota síðan óskalista þeirra sem verkefnalista,“ segir í ályktun í stjórninni.
Í erindi Sósíalista, Útrýmum fátækt, eru lagðar fram sjö kröfur hinna fátæku, sem, eru vörður á leið til betra samfélags. Þær eru þessar:
SJÖ LYKLAR AÐ ÚTRÝMINGU FÁTÆKTAR
I. Hættum að skattleggja fátækt
Það er bæði heimskt og ósiðlegt að innheimta skatta af fólki sem er með svo lágar tekjur að það getur ekki framfleytt sér. Kanna ber hver lágmarksframfærsla einstaklinga og fjölskyldna er og leggja bann við skattlagningu tekna sem falla þar undir. Ef taka þarf tillit til húsnæðiskostnaðar hvers skattgreiðanda ber að gera það.
II. Enginn með minna en lágmarkslaun
Eftirlaunafólk, öryrkjar, atvinnulausir, námsfólk og þau sem eru á framfærslu hjá sveitarfélögum hafa ekki verkfallsvopn til að berjast fyrir kjörum sínum. Tekjur þessara hópa skulu því miðast að lágmarki við lægstu umsömdu launakjör á vinnumarkaði.
III. Börn hafa engar tekjur og geta því ekki borið nein útgjöld
Vernda þarf börn sérstaklega fyrir fátækt. Börn hafa engar tekjur og því er fráleitt að lögð séu á þau gjöld vegna heilbrigðisþjónustu, menntunar, tómstunda, samgangna eða annars sem flokka má undir þjónustu sem öll börn eigi rétt á. Börn eiga að njóta persónuafsláttar hjá skattinum eins og fullorðnir þannig að persónuafsláttur fjölskyldu sé í réttu hlutfalli við fjölda fjölskyldumeðlima.
IV. Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta
Heilsuleysi, slys eða áföll eiga ekki að grafa undan efnahag fólks. Það er nóg að fólk glími við sjúkdómana sjálfa, afleiðingar slysa og áfalla og tekjutap sem því fylgir þótt heilsu- og sjúkrastofnanir bæti ekki við áföllin og rukki hin veiku. Við eigum að borga fyrir heilbrigðisþjónustu þegar við erum hraust og á vinnumarkaði, ekki þegar við erum orðin veik og lasburða.
V. Húsnæðisbyltingin: 30 þúsund íbúðir á tíu árum
Ódýrt og öruggt húsnæði er forsenda allra velferðar- og heilbrigðisþjónustu. Fjárhagslegur stuðningur við þau sem búa við leiguokur brennur upp á húsnæðismarkaði. Persónulegur stuðningur og valdefling þess sem býr við linnulausan afkomukvíða virkar ekki. Grunnforsenda þess að hér verði byggt upp öflugt velferðarkerfi, sem er aftur forsenda þess að fátækt verði upprætt, er stórátak í uppbyggingu félagsleg húsnæðis. Sósíalistar leggja til húsnæðisbyltingu þar sem 30 þúsund félagslegar íbúðir verði byggðar um allt land á næstu tíu árum.
VI. Verndum leigjendur fyrir bröskurum
Lágtekjufólk á leigumarkaði er flest klemmt á milli lágra tekna og okurleigu. Til að vernda þetta fólk þar til uppbygging félagslegs húsnæðis hefur lækkað leiguverð varanlega, þarf að setja á leiguþak til að stöðva okrið, hækka húsnæðisbætur svo enginn borgi meira en fjórðung tekna sinna í húsnæðiskostnað og setja lög um húsleigu sem tryggja leigjendum öryggi og vernd. Þau lög kveði t.d. á um að samtök leigjenda séu samningsaðili um leiguverð.
VII. Byggjum upp almannasamtök
Besta leiðin til að tryggja réttlæti og jöfnuð í samfélaginu er að almenningur skipuleggi hagsmunabaráttu sína í verkalýðsfélögum og öðrum almannasamtökum. Ríkisvaldið á að ýta undir slík samtök og styrkja. Til að verja hin fátæku fyrir gagnsókn auðvaldsins þarf öflug leigjendasamtök, samtök eftirlaunafólks, námsfólks og atvinnulausra, samtök innflytjenda og barna, samtök fólks á framfærslu sveitarfélaga, sjúklinga, skuldara og neytenda. Öflug slík samtök eru forsenda þess að hér byggist upp réttlátt samfélag. Baráttusamtök almennings eiga að verða helsti samstarfsaðili ríkisvaldsins og taka þar sess hagsmunasamtaka hinna ríku og valdamiklu.