Sameiginlegur fundur framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins krefst þess að augljósum leiðum hinna ríku til skattaundanskota verði lokað. Réttlátt samfélag verður ekki byggt upp nema með réttlátu skattkerfi. Skattkerfi sem hyglir hinum ríku en leggur byrðar á hin efnaminni er óréttlátt, skekkir undirstöðu samfélagsins og magnar upp óréttlæti.
Í erindi Sósíalista Stöðvum skattaundanskot segir meðal annars:
„Eignarhaldsfélög án annars rekstrar en umsjón eigna eru farvegur fyrir undanskot skatta og hafa einkum verið stofnuð í þeim tilgangi. Arður úr rekstrarfélögum, raunverulegum fyrirtækjum sem framleiða vöru eða þjónustu, er fluttur upp í eignarhaldsfélög þar sem ótal tækifæri eru til að fresta greiðslu skatta og á endanum að komast hjá öllum skattgreiðslum. Á árunum fyrir Hrunið 2008 voru stórfelldar fjárhæðir fluttar með þessum hætti í fyrirtæki í aflöndum sem borguðu enga skatta á Íslandi. Eftir Hrun var skattalögum breytt svo horft var fram hjá félögum á erlendum lágskattasvæðum og eigendur þeirra skattlagðir eins og félögin væru ekki til, væru ekki sjálfstæðir skattaðilar.
Nú er tíminn til að stíga næstu skref og gera það sama við öll eignarhaldsfélög, félög sem hafa enga starfsemi aðra en umsjón eigna, og skattleggja eigendur þeirra beint eins og félögin væru ekki til. Arðgreiðslur til eignarhaldsfélaga yrðu þá skattlagðar strax sem arður til eigendanna í sama hlutfalli og eign þeirra er í félaginu og sama ætti við um aðrar tekjur þess svo sem vexti og söluhagnað.
Eignarhaldsfélög hafa engan rekstarlegan tilgang umfram venjulegan bankareikning og alls engan samfélagslegan tilgang. Þau eru helstu verkfæri hins fjármáladrifna kapítalisma, sem hefur ekki aðeins veikt samfélagið heldur étið að innan fyrirtæki í raunverulegum rekstri, veikt þau efnahagslega og ruglað stefnu þeirra. Það hefur því engan samfélagslegan tilgang að líta á þessi félög sem sjálfstæða skattaðila. Þau eru fyrst og fremst verkfæri til að soga fé upp úr öðrum fyrirtækjum og samfélaginu og flytja til eigenda sinna með sem minnstum skattgreiðslum.“