Hvers vegna eru íslenskir vegir svona góðir? spyr bandarískur ferðamaður

Á föstudag spurði Reddit-notandi spurningar, innan hópsins „Visiting Iceland“, sem gæti komið heimamönnum spánskt fyrir sjónir: Hvers vegna eru íslenskir vegir svona góðir? Viðkomandi tilgreindi nánar hvað hann eða hún ætti við: „Ég varði síðustu viku í að keyra syðri hringveginn og í kringum Reykjavík. Vegirnir voru frábærir. Viðgerðir og vegagerð hvergi í gangi. Í Bandaríkjunum, sérstaklega í Michigan, þaðan sem ég kem, virðist þetta óraunverulegt. Hvað er leyndarmálið? Efnin? Aðferðirnar?“

Aðrir notendur tóku undir. Ein segist nýkomin úr ferð til Noregs og Íslands og líða eins og hún hefði „upplifað fyrsta heims land í fyrsta sinn á ævinni“. „Ég er frá Bandaríkjunum“ bætti hún síðan við.

Svarið er skattar

Einhverjir velta fyrir sér hvort meira salt sé notað á vegina í Michigan, í frosti, aðrir nefna að sveiflur í hitastigi séu meiri þar. Þá bendir einn notandi á að á Íslandi sé aðeins einn vegur til að viðhalda, hringvegurinn. Annar notandi þykir þó hitta naglann á höfuðið, alltént fær svar hans langflest atkvæði annarra notenda, þegar hann skrifar:

„Á Íslandi þarf að viðhalda fleiri kílómetrum af vegum miðað við íbúafjölda en nokkurs staðar annars staðar, nema í Kanada. Að segja „það er bara einn vegur“ fer á mis við kjarna málsins. Ísland fjárfestir í vinnviðum, þess vegna er vegunum vel viðhaldið.

Til samanburðar hefur Ísland tvöfalt fleiri kílómetra af vegum miðað við íbúafjölda en Bandaríkin. Til frekari samanburðar er hlutfall skatta af landsframleiðslu á Íslandi 37 prósent en 27 prósent í Bandaríkjunum. Svo hér er svarið: vegum er viðhaldið vegna þess að við borgum fyrir það og forgangsröðum því í fjárlögum.“

Vegirnir í Michigan hljóta að vera rusl

Ekki er þó reynsla allra af bandarískum vegum sú sama. Neðar í þræðinum má lesa þá athugasemd að vegirnir í Michigan séu „óvenjulega hræðilegir, kannski þeir verstu í Bandaríkjunum“. Höfundur athugasemdarinnar segist sjálfur vera frá Michigan, og samanburðurinn sé ef til vill ekki sanngjarn: „Margir aðrir hlutar Bandaríkjanna hafa góða vegi.“

Notandi frá Colorado-fylki tekur undir þetta, segist nýkominn af tíu daga ferð um hringveginn á Íslandi, og vegirnir í Michigan hljóti að vera „algjört rusl“: hringvegurinn hafi að mestu verið þröngur, ójafn og bylgjóttur. Í ofanálag hefði helst litið út fyrir að hver sem málaði línuna milli akreina hefði gert það með málningarrúllu í hönd, í myrkri, eða verið kófdrukkinn.

Um ástand íslenskra vega skilur annar eftir háðsglósu: „Segðu mér að þú hafir aðeins ekið hringveginn án þess að segja mér að þú hafir aðeins ekið hringveginn.“ Og enn einn bætir við: „Enginn Íslendingur mun vegsama ástand veganna í landinu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí