Stefán Einar Stefánsson, Sjálfstæðismaður og blaðamaður á Morgunblaðinu, gagnrýndi flokkinn harðlega í ræðu sem hann hélt á laugardagsfundi Sjálfstæðisfélags Kópavogs í gær. Svo harðlega raunar að fá dæmi eru um að svo innmúraður Sjálfstæðismaður hafi viðurkennt opinberlega margt það sem Stefán sagði í ræðunni. Í ræðunni sagði Stefán til að mynda að ekkert væri að marka kosningaloforð flokksins, að báknið sem flokksmenn segjast hata hafi orðið til undir stjórn Sjálfstæðisflokksins. Stefán kallaði raunar eftir því að flokkurinn færi í stjórnarandstöðu, þó að hann óttaðist að með því myndi flokkurinn missa tök sín og yrði ekki lengur miðja íslenskra stjórnmála.
„Nú er að nýju raunveruleg hætta á því að Sjálfstæðisflokkurinn missi sinn sess sem burðarás stjórnmála núna, skilgreindur út frá þingstyrk eða atkvæðavægi. Það gerist á sama tíma og nú styttist í að einn og hálfur áratugur verði liðinn frá því að Sjálfstæðisflokkurinn leiddi síðast ríkisstjórn, ef undanskildir eru fáir mánuðir á árinu 2017 þegar furðustjórn flokksins með Viðreisn og Bjartri framtíð var við lýði,“ sagði Stefán Einar en Viljinn birtir ræðu hans í heild sinni.
Svo lagði Stefán spilin á borðið og viðurkenndi að báknið hafi orðið til á vakt flokksins, nokkuð sem Sjálfstæðismenn hafa ekki viljað viðurkenna. „Nýframkvæmdum sé furðulega forgangsraðað, til dæmis ný skrifstofubygging Alþingis, ný skrifstofubygging fyrir forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið taki yfir drjúgan hluta Landsbankahallarinnar. Þetta gerist þrátt fyrir að þjónustan aukist ekki. Fólk finni ekki fyrir bættri þjónustu. Biðlistar styttist ekki og Landspítalinn virðist sífellt fjársveltur. Flokkurinn hafi ekki burði til þess að breyta kerfinu,“ sagði Stefán.
Hann benti svo á að það hafi verið Sjálfstæðismenn sem hækkuðu skatta á fyrirtæki en dældu pening í ýmsa styrki. Hann sagðist ekki trúa orði um loforð um að sá skattur væri tímabundinn. „Fjármálaráðherra segir að hann muni aftur lækka á sinni vakt. Ljóst er að það verður ekki. Millifærslur aukast sífellt. Stjórnmálaflokkar eru komnir á fullkomið framfæri ríkisins. Fjölmiðlarnir einnig á sama tíma og 6,2 milljörðum er dælt í RÚV. Bókaútgáfan er sífellt háðari opinberum styrkjum. Meira að segja bílaleigurnar þiggja nú styrki frá ríkinu. Milljarð vegna rafbílakaupa. Bara Bílaleiga Akureyrar hagnaðist um 1,8 milljarða króna í fyrra,“ sagði Stefán Einar.
Svo viðurkenndi hann einnig að „krísan í útlendingamálum“, sem flokksmenn kvörtuðu sáran yfir síðasta vor, væri Sjálfstæðisflokknum að kenna. „Við höfum brugðist í málefnum landamæranna þar sem algjört stefnuleysi og andlitslaus nefnd hefur opnað fyrir flóðgáttir fólksflutninga til landsins á skökkum forsendum. Ekkert annað ríki Evrópu hefur haldið svo slælega á sínum málum,“ sagði Stefán.
Niðurstaðan væri sú að það sé ekkert að marka loforð Sjálfstæðismanna. „Allt eru þetta dæmi sem þreyta Sjálfstæðismenn, og það sem verra er – margt það fólk sem væri líklegt til þess að kjósa flokkinn ef það tryði því að það væri eitthvað að marka loforðin sem hann gefur,“ sagði Stefán og bætti við:
„Er það sjálfstæðisstefnan sem hefur misst erindi sitt? Eða höfum við brugðist?“ “