Stúdentaráð krefur HÍ um endurgreiðslu ólögmætra skrásetningargjalda

Það fer ekki framhjá neinum að nýr kraftur hefur færst í kjarabaráttu háskólanema. Október-mánuður hófst á sýningu sem Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Bandalag háskólamanna (BHM) héldu í Smáralind undir yfirskriftinni „Mennt var máttur“. Var sýningunni ætlað að varpa ljósi á „slæma stöðu námslánakerfisins á Íslandi og dregur upp mynd af því hvert Ísland gæti stefnt ef áfram verður haldið á braut undirfjármögnunar Menntasjóðs námsmanna,“ eins og Alexandra Ýr van Erven, forseti LÍS orðaði það í blaðagrein.

Alexandra skrifaði: „Ef fram fer sem horfir geta ákveðnar námsgreinar í háskólum verið í útrýmingarhættu. Á sýningunni er stigið inn í þá framtíð sem blasir við ef ekkert verður gert. Stuðningur við stúdenta er ekki einkamál stúdenta enda hefur það hvernig okkur tekst til að mennta stúdenta nútímans bein áhrif á það hvernig vinnumarkaður framtíðarinnar verður samansettur.“

Og nú undir lok sama mánaðar hélt Stúdentaráð Háskóla Íslands blaðamannafund í tilefni úrskurðar áfrýjunarnefndar kærumála háskólanema, sem leiddi í ljós að þau skrásetningargjöld sem HÍ hefur innheimt eru ólögmæt.

Eins og Rakel Anna Boulter, forseti Stúdentaráðs, orðar það í grein sem Vísir birti á föstudag, er til staðar lagaheimild fyrir skrásetningargjöldum sem slíkum, en þeim eru sett tvö skilyrði: „Gjaldið má ekki skila hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum vegna nemendaskráningar og tiltekinnar þjónustu. Hins vegar má ekki rukka fyrir þjónustu sem telst til kennslu eða rannsóknarstarfsemi.“

Til að tryggja að gjöldin séu innan þessara marka þarf háskólinn að „reiða fram útreikninga eða traustar áætlanir þar sem sýnt er fram á með skýrum hætti, í hvað skrásetningargjaldið fer, með öðrum orðum hvort gjaldið sé að fara í þá þjónustu sem það má fara lögum samkvæmt.“ Það, skrifar Rakel, „hefur háskólinn ekki gert. Þess vegna er ekki nokkur leið til að ganga úr skugga um að gjaldið sé ekki hærra en sem nemur útgjöldum.“

Rakel nefnir einnig að þrátt fyrir lögmæti þess að innheimta skrásetningargjöld, að uppfylltum skilyrðu, þá sé það einsdæmi á Íslandi meðal Norðurlandanna, ekkert annað þeirra innheimti skrásetningargjöld í opinberum háskólum. Þá tilgreinir hún að Ísland sé „eftirbátur annarra Norðurlanda þegar kemur að fjármögnun opinberrar háskólamenntunnar,“ sem sjáist meðal annars á því fjármagni sem fylgi hverjum ársnema, „sem lægst er á Íslandi. Meðaltalið á Norðurlöndunum er 4,6 milljónir króna árlega en á Íslandi eru það aðeins 2,9 milljónir.“

Rakel segir Stúdentaráð um árabil hafa „bent háskólanum á grun ráðsins að gjaldið standist ekki lög. Stúdentaráð hefur krafið HÍ um skýringar og útreikning sem liggja til grundvallar ákvörðun um upphæð skrásetningagjaldsins.“ Nú fer Stúdentaráð fram á að „háskólinn, sem hefur haft úrskurðinn á sínu borði í þrjár vikur, hefji endurgreiðslur eins og honum er skylt samkvæmt lögum um innheimtu opinberra gjalda.“

„Stúdentaráð vill með þessu setja Háskólanum fyrir dyrnar,“ skrifar Rakel. „Stúdentar geta ekki haldið uppi fjármögnun opinberrar háskólamenntunar.“

Nánar um „Mennt var máttur“-herferð LÍS.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí