Nestlé, Pepsi og fleiri versla enn við Rússa en segjast draga línuna við kakómalt og vodka

Nestlé, Ferrero, Pepsi, Savencia, Bonduelle, Mondelez og Lactalis eru meðal þeirra vestrænu stórfyrirtækja sem hafa haldið áfram starfsemi í Rússlandi þrátt fyrir innrás Rússa í Úkraínu.

„Afstaða okkar hefur ekki breyst. Við höfum engan áhuga á að hverfa frá Rússlandi. Við virðum alþjóðlegar reglur. Við höldum afstöðu okkar af því að við höfum langtíma-sýn á viðskipti okkar,“ sagði Xavier Unkovic, nýr forstjóri matvælaframleiðandans Bonduelle, síðastliðinn mánudag. Fáir stjórnendur hafa tjáð sig með jafn afdráttarlausum hætti um sama efni, en sýna þó sömu afstöðu í verki, segir í umfjöllun sem birtist í Le Monde á laugardag.

Andspænis þeirri áskorun sem innrásin í Úkraínu fól í sér til þessara fyrirtækja, um hvort þau ættu að slíta tengslin við Rússland eða halda viðskiptum sínum þar til streitu, virðast matvælafyrirtæki hafa tekið annan pól í hæðina en mörg önnur, og réttlætt það með þörfinni á að íbúar Rússlands nærist eins og annað fólk, ásamt ábyrgð gagnvart starfsfólki sínu.

Ekki við hæfi að hagnast, segir stjórnarformaður

Stjórnarformaður Bonduelle, Christophe Bonduelle, segir að ágóði af viðskiptum fyrirtækisins í Rússlandi muni allur renna til enduruppbyggingar í Úkraínu. „Það er ekki við hæfi að hagnast á þessum átakatímum,“ lét hann hafa eftir sér í því samhengi.

Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, gagnrýndi Nestlé fyrir starfsemi fyrirtækisins í Rússlandi strax í upphafi stríðsins, á síðasta ári. Þetta stærsta matvælafyrirtæki heims brást á þeim tíma við með því að segja að starfsemi þess í Rússlandi myndi fyrst og fremst miðast við „að veita nauðsynleg matvæli, á við barnamat og matvæli fyrir sjúkrahús, en ekki að skila hagnaði.“ Fyrirtækið myndi þannig hætta sölu á súkkulaðinu KitKat, til að mynda, og Nesquik, því sem á íslensku kallast kakómalt.

„Við gerum ekki ráð fyrir að ná hagnaði í landinu eða greiða nokkra tengda skatta í Rússlandi um fyrirsjáanlega framtíð,“ kom fram í tilkynningu fyrirtækisins. „Ef einhver ágóði verður, þá verður hann að öllu leyti gefinn til mannúðarstarfs,“ sagði þar einnig. Eftir sem áður starfa enn sex verksmiðjur fyrirtækisins í Rússlandi, samkvæmt ársskýrslu. Þær framleiða, að sögn Le Monde, mjólkurvörur, sælgæti og gæludýrafóður. Í ársskýrslunni kemur ekkert fram um afdrif hagnaðarins af þessum rekstri.

Útflutningur á vodka stöðvaður með sniðgöngu

Yfirlýsingar annarra fyrirtækja stangast bersýnilega á við athafnir þeirra. Bandarískja fyrirtækjasamstæðan PespiCo lýsti því yfir við upphaf stríðsins að hún myndi stöðva sölu gosdrykkja í landinu. Það hefur fyrirtækið einfaldlega ekki gert, og hefur velta fyrirtækisins í Rússlandi aukist frá 2021 til 2022, úr 4 prósent af heildarsölu þess í 5 prósent.

Sænski vodkaframlaiðandinn Absolut Company er í dag í eigu franska áfengisframleiðandans Pernod Ricard. Síðasta vor hófst herferð í Svíþjóð fyrir því að sniðganga vörur fyrirtækisins, og þá ekki síst vodkað sjálft, ef það léti ekki af starfsemi sinni í Rússlandi. Herferðin skilaði þeim árangri að fyrirtækið hét því að stöðva allan útflutning á áfengi til Rússlands. Fyrirtækið hefur þó varað við því að vörur þess, og annarra fyrirtækja í sömu stöðu, fáist oft áfram á svörtum markaði.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí