Nú vill Bandaríkjastjórn að Úkraínumenn búi sig undir friðarsamninga

Minnkandi stuðningur við stríðið í Úkraínu meðal almennings í Evrópu og Bandaríkjunum og erfiðleikar með að koma fjárhagsaðstoð til Úkraínu í gegnum þingið í Washington hefur leitt til stefnubreytingar ríkisstjórnar Joe Biden. Nú er stuðningurinn ekki eins afgerandi, ekki fullyrt að Bandaríkin muni standa við bak Úkraínu sama hvað það kostar og að eina ásættanlega niðurstaðan sé fullnaðarsigur á vígvellinum. Heldur er nú verið að segja Úkraínustjórn að reyna að bæta stöðuna á vígvellinum fyrir komandi friðarsamninga. Og búa sig undir að láta land af hendi.

Lagt er að Úkraínustjórn að leggja áherslu á að verja það svæði sem hún heldur í stað þess að reyna að endurvinna lönd af Rússum. Hin margboðaða gagnsókn Úkraínumanna á þessu ári mistókst en því hafði verið haldið fram að í henni kæmu fram yfirburðir vestrænna vopna og baráttugleði Úkraínuhers. Þetta stoppaði hins vegar á vörnum Rússa, sem höfðu haft góðan tíma til að grafa sig niður. Og mannfall Úkraínumanna varð mikið, enda missir sá her fleiri menn sem sækir en sá sem verst. Og þetta mannfall skilaði engum árangri. Yfirmenn hersins hafa farið fram á að herskylda verði víkkuð út svo hægt sé að kalla hálfa milljón manna á vígvöllinn. Til að þetta gangi eftir þyrfti Úkraínustjórn að kalla aftur heim hluta þeirra sem flúðu landið.

Ríkisstjórn Joe Biden vill nú að Úkraínumenn noti veturinn til að grafa sig niður, útbúa skriðdrekavarnir og reyna að fastsetja víglínuna þar sem hún er nú. Og mæta með þá stöðu til samninga, þar sem fallist yrði á að Krímskaginn tilheyrði Rússlandi og að Donbas, austasti hluti Úkraínu þar sem Rússar eru afgerandi meirihluti íbúanna, fengi einskonar sjálfstjórn. Markmiðið væri að friður tryggði að sá hluti sem eftir væri af Úkraínu, um 80% af fyrra svæði, gæti gengið í Evrópusambandið.

Þessi nýja stefna kallar á nýtt orðfæri. Ekki er lengur rætt um að Úkraína geti unnið stríðið heldur að Úkraína hafi þegar unnið stríð og Pútín tapað því. Þá er gengið út frá því að markmið Pútín hafi verið að leggja alla Úkraínu undir sig en Úkraínuher tekist að stöðva það, að staðan hefði sáralítið breyst frá því fyrir innrás Rússa í febrúar 2022. Þetta væri hins vegar niðurstaða lík þeirri og fyrir lá í drögum að friðarsamningi vorið 2022, en sem Vesturveldin höfnuðu.

Óljóst er hvort Pútín og stjórnvöld Rússlands geti sætt sig við þessi málalok. Rússar standa nú betur á vígvellinum og þeir telja sig án efa geta unnið frekara land. Mögulega munu þeir freista þess að ná allri Svartahafsströnd Úkraínu og átta austustu héröðin. En sókn er kostnaðarsöm, í mannslífum, vopnum og fjármunum. Og markmiðin breytast, taka mið af eigin stöðu en ekki síður stöðu andstæðingsins. Vorið 2022 naut Úkraína mikils stuðnings Vesturveldanna og hótunin um aukin stuðning var lifandi. Síðan hefur komið í ljós að vestræn vopn býta illa og eru mjög takmörkuð auðlind. Mörg lönd geta ekki sent fleiri vopn til Úkraínu, eiga of lítið af þeim og geta ekki framleitt ný nógu ört til að halda í við þörf Úkraínuhers. Frá sjónarhóli Rússa hafa Úkraínumenn í reynd aldrei staðið veikar, þrátt fyrir yfirlýsingar Joe Biden og félaga um að í raun hafi þeir unnið stríðið.

Biden á nú í miklum vanda heima fyrir vegna árása Ísraelshers á Gaza, þar sem bandarískum vopnum er beitt og árásirnar eru í raun í boði Bandaríkjanna. Sameinuðu þjóðirnar væru búnar að knýja fram vopnahlé ef Bandaríkjastjórn stæði ekki í veginum. Þótt Ísraelsstjórn njóti mikils stuðnings meðal almennings í Bandaríkjunum og algjörs stuðnings stjórnvalda, þá er andstaðan nógu víðtæk til að draga úr líkum á kosningasigri Biden næsta haust. Andstæðingar blóðbaðsins á Gaza munu kannski ekki kjósa Trump, en þeir munu heldur ekki kjósa Biden. Og í Bandaríkjunum vinnur sá sem best gengur að fylkja sínu fólki á kjörstað.

Og það er ekki bara svo að grimmd ísraelska hersins gangi fram af almenningi í Bandaríkjunum heldur er Gaza að afhjúpa stórkostlegt ofmat Bandaríkjastjórnar á hernaðaryfirburðum sínum og leppríkja sinna, eins og raunin er í Úkraínu. Og var í Afganistan, Jemen, Sýrlandi og víðar. Ákall Biden um skilyrðislausan stuðning Bandaríkjamanna stendur því ekki aðeins í fólki vegna mannfórna og peningaausturs, heldur verður æ erfiðara fyrir Biden að halda því fram að utanríkisstefnan gangi upp. Því meir og oftar sem Bandaríkin beita hernaðarvaldi sínu því veikar standa þau í augum heimsbyggðarinnar. Það afhjúpast að ofurtrú Bandaríkjastjórnar á hernaðaryfirburði gera heiminn hvorki friðsamari né styrkir hún stöðu Bandaríkjanna. Ríkisstjórnar Evrópu eru of háðar hernaðarvernd Bandaríkjanna svo þær ná ekki endurmeta stöðuna og elta Bandaríkjastjórn því í einu og öllu. En utan Vesturlanda rennur upp fyrir æ fleirum að stuðningur Bandaríkjanna leiðir sjaldan til bættrar stöðu, að Bandaríkjastjórn kalli ill örlög yfir þá sem hún kallar vini sína.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí