Algengt að leiðsögumenn á Íslandi bulli bara eitthvað – „Dæmalaust rugl,“ segir Bogi og vill svör frá fyrirtækjum

Una Margrét Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona á Rás 1, segir í færslu sem hún birtir á Facebook að svo virðist sem það sé gífurlega algengt að leiðsögumenn á Íslandi bulli bara eitthvað um sögu landsins við ferðamenn. Hún segist hafa orðið vitni af því ítrekað í miðbænum þar sem leiðsögumenn sögðu erlendum ferðamönnum frá sjálfstæðisbaráttu Íslands, nema hún var einfaldlega kolröng.

Færslu Unu Margrétar má lesa í heild sinni neðst í fréttinni en meðal dæma sem hún nefnir er að leiðsögumaður hafi bent hópi á styttuna af Jóni Sigurðssyni og fullyrt að þetta hafi verið maðurinn sem hafi tilkynnt dönskum stjórnvöldum í síðari heimsstyrjöldinni að Ísland hefði lýst yfir sjálfstæði.

Fréttamaðurinn geðþekki Bogi Ágústsson segir þetta ótækt og kallar eftir svörum innan Facebook-hópsins Bakland ferðaþjónustunnar. „Hér þarf einhver talsmaður ferðaþjónustunnar að svara. Hvaða fyrirtæki bera ábyrgð á þessu dæmalausa rugli sem Una Margrét lýsir í þessari færslu sinni?,“ spyr Bogi.

Einn þeirra sem svarar er Roberto Luigi Pagani en hann segir þetta í raun flókið máli og í raun snerta alla þjóðina. „Þetta er flókið mál, útlendingar heillast oft af sögulegum lygum og leiðsögumönnum finnst einfaldara að segja það sem ferðamenn vilja heyra,“ segir Roberto. En hann segir vandamálið einfaldega snúast nokkuð um menntun á Íslandi.

„Íslendingar virðast stundum meira en sáttir við að endurskrifa sögu sína til að uppfylla væntingar þessara útlendinga og eru í meira mæli farnir að trúa þessu sjálfir, og þá er spurning um hver gæði menntunar í skólum eru, þar sem ég fæ svona tilfinningu að kunnátta landsmanna á sögu Íslands yfir höfuð er frekar ófullnægjandi,“ segir Roberto.

Færsla Unu í heild sinni:

Eru íslenskir leiðsögumenn að romsa bulli yfir erlenda ferðamenn?

Á undanförnum mánuðum hef ég hvað eftir annað orðið alveg undrandi á lélegri Íslandssöguþekkingu leiðsögumanna sem eru með ferðamannahópa í miðbæ Reykjavíkur. Þetta eru íslenskir leiðsögumenn, en hvort þeir hafa lokið tilskildu námi leiðsögumanna veit ég ekki. Ég vona ekki, því þá er eitthvað meira en lítið bogið við kennsluna.

Við Eiður göngum oft yfir Austurvöll. Fyrir nokkrum vikum var þar ung stúlka með hóp ferðamanna. Hún benti á styttu Jóns Sigurðssonar og um leið og við gengum hjá heyrði ég að hún sagði ferðamönnunum (auðvitað á ensku) að á árum seinni heimsstyrjaldar þegar Danmörk var hernumin af Þjóðverjum hefði þessi náungi skrifað Dönum bréf og sagt að Íslendingar ætluðu að vera sjálfstæð þjóð.

Ég trúði varla mínum eigin eyrum, en þar sem ég vildi vera kurteis beið ég þangað til stúlkan var að leggja af stað með hópinn. Þá kallaði ég stúlkuna á eintal og benti henni á að Jón Sigurðsson hefði fæðst 1811 og ekki verið uppi á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. En þá kom í ljós að stúlkan vissi ekki einu sinni hvað maðurinn hét, sem styttan var af, hún hafði haldið að þetta væri Jónas Hallgrímsson!

Eftir þetta fór ég að leggja betur við hlustir þegar ég sá leiðsögumenn með hópa á Austurvelli. Og þótt enginn hafi verið jafn illa að sér og þessi stúlka áttu þessir leiðsögumenn það sameiginlegt að vita sama og ekkert um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og halda að stofnun íslenska lýðveldisins 1944 hefði verið afleiðing stríðsins.

Þannig hlustaði ég til dæmis á karlmann, sem vissi að vísu hvenær Jón Sigurðsson hefði verið uppi, en sagði að Íslendingar hefðu verið lítið hrifnir af sjálfstæðishugmyndum því þeir hefðu grætt svo mikið á því að vera undir stjórn Dana. Þetta viðhorf hefði breyst á 20. öld og þess vegna hefðu Íslendingar notað tækifærið þegar Danmörk var hernumin til þess að lýsa yfir sjálfstæði. Danir hefðu ekki komist að því fyrr en að stríði loknu!

Og í gær hlustaði ég á stúlku sem hélt fram þessu sama, að Jón Sigurðsson hefði að vísu verið með einhverjar sjálfstæðishugmyndir á 19. öld, en enginn hefði stutt þær því Íslendingar hefðu fengið svo mikla peninga frá Dönum. Svo þegar seinni heimsstyrjöldin kom hefðu Ameríkanar hernumið Ísland og þess vegna hefði Ísland allt í einu getað lýst yfir sjálfstæði….

Þegar hér var komið sögu þoldi ég ekki lengur að hlusta á þetta bull enn og aftur, kvaddi mér hljóðs á ensku, eins kurteislega og ég gat, og útskýrði að hér hefði farið fram öflug sjálfstæðisbarátta á 19. öld og fyrstu áratugum 20. aldar, þannig hefði náðst fram samningur um fullveldi 1918 sem hefði falið í sér fyrirheit um algjört sjálfstæði að 25 árum liðnum, ef Íslendingar samþykktu það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En nú spyr ég: Er þetta hægt? Er hægt að láta það ganga að erlendir ferðamenn fái alrangar upplýsingar um Íslandssöguna – frá íslenskum leiðsögumönnum? Og hvernig stendur á þessu? Er menntun leiðsögumanna svona léleg eða eru þetta ómenntaðir leiðsögumenn án hefðbundinna leiðsögumannaréttinda?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí