Í síðustu viku lágu 40 sjúklingar á Landspítala með Covid-19, þegar mest varð, og hafði þá fjölgað um 25% milli vikna, eða úr 32 innlögðum sjúklingum í vikunni áður. Þetta kemur fram í nýbirtri vikuskýrslu sóttvarnalæknis um stöðu öndunarfærasýkinga. Leita þarf aftur til ársins 2022 til að finna viðlíka fjölda innlagna vegna sjúkdómsins og virðist ljóst að nokkuð aðsópsmikil bylgja stendur nú yfir. Síðustu vikur hefur bráðamóttaka Landspítala ítrekað látið boð út ganga um að hún sé yfirfull og hvatt sjúklinga til að leita annað eftir því sem unnt er. Covid-faraldurinn er ein helsta orsök þessa aukna álags.
Vinsamlegast leitið annað
Á þriðjudag í þessari viku tilkynnti Landspítalinn enn og aftur um að bráðamóttakan væri yfirfull: „mikið álag og margir sem bíða eftir þjónustu“ sagði í tilkynningunni og var fólk sem er ekki í bráðri hættu hvatt til að hringja fyrst í 1700 eða leita upplýsinga á netspjalli Heilsuveru. Tilkynningar sem þessar mega nú heita hefðbundnar, þetta var í þriðja sinn á fjórum vikum sem Landspítalinn biðla til sjúklinga sem geta hugsað sér að leita annað en á bráðamóttöku að gera það heldur.
Á fimmtudag lét síðan forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vita af því, í viðtali við RÚV, að rafræn samskipti í gegnum vefinn Heilsuveru hafi aukið álag á heilsugæsluna: þar sé aðgangur sjúklinga að samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk „of greiður“. Rétt er að taka fram að þar átti forstjórinn við rafræn samskipti í gegnum Mínar síður, samskipti gegnum valkostinn Netspjall auki ekki álag á starfsfólk heldur, þvert á móti, létti á því.
Eftir sem áður virðist heilbrigðiskerfið nú ítrekað láta frá sér merki til sjúklinga um að þeir séu of margir eða of veikir, þarfnist of mikillar þjónustu og óskandi væri að þeir gætu þurft minna á henni að halda.
Kemst í hálfkvisti við bylgjuna í mars 2022
Samkvæmt heimildamönnum Samstöðvarinnar á Landspítala liggur ljóst fyrir að stór hluti þess umframálags sem nú er á sjúkrahúsinu er til kominn vegna Covid-19 sýkinga. Þetta samræmist þeim gögnum sem þó birtast um útbreiðslu faraldursins, en heilbrigðisyfirvöld drógu alla gagnamiðlun um hann mjög saman í kjölfar þess að stjórnvöld felldu niður allar sameiginlegar sóttvarnir gegn honum, snemma árs 2022.
Nú á fimmtudag birti sóttvarnalæknir vikuskýrslu um stöðu öndunarfærasýkinga. Skýrslan nær til 46. viku ársins, 13.–19. nóvember 2023. Þar kemur fram að enn varð aukning bæði á greindum tilfellum Covid-19 og á innlögnum vegna sjúkdómsins, en allt að 40 sjúklingar lágu inni á Landspítala með Covid-19 í einu í þeirri viku. Til samanburðar má nefna að bylgjan sem skall á landinu af mestum þunga, eftir afnám sóttvarna við upphaf ársins 2022, reist hæst í 80–90 innlögnum í senn. Yfirstandandi bylgja kemst á þann mælikvarða í hálfkvisti við mars-mánuð 2022.
1 lögð inn með flensu á móti hverjum 8 með Covid
Á sama tíma virðist nú hefðbundinn, árstíðabundinn flensufaraldur að hefjast og lögðust fimm sjúklingar inn á sjúkrahúsið með inflúensu í síðustu viku, samanborið við fyrrnefnda 40 með Covid. Í þeirri viku var Covid-19 því áttfalt algengari sýking meðal inniliggjandi sjúklinga Landspítala en inflúensa.
Flensan sækir þó í sig veðrið. Á miðvikudag birtist hin vikuskýrslan sem varðar þetta svið, raunar aðeins ein tafla: yfirlit yfir greiningar frá veirufræðideild sjúkrahússins. Þar sem deildin annast nú allar PCR-greiningar eru gögnin ekki bundin við sjúklinga sjúkrahússins heldur veita þau innsýn í útbreiðslu sjúkdóma í samfélaginu öllu. Tilfelli Covid-19 greininga stóðu samkvæmt skýrslunni nánast í stað milli vikna, fóru úr 58 í 57, á meðan inflúensu-tilfelli tvöfölduðust, stukku úr 11 í 20.
Sjúklingum býðst ekki lengur, eins og framan af faraldrinum, að sækjast eftir PCR-greiningu að eigin frumkvæði, heldur eru þær aðeins framkvæmdar ef heilbrigðisstarfsmaður telur tilefni til. Þannig eru þessi gögn ekki nákvæm vísbending um stöðu smita almennt, heldur fyrst og fremst stöðu smita meðal þeirra sem sjá tilefni til að leita til læknis, sem sér tilefni til að veirugreiningar. Meðal þeirra sem veikjast upp að því marki virðist Covid-19 hafa verið þrefalt algengari en inflúensa í síðustu viku.
Að óbreyttu komið til að vera
Álagið sem Covid-19 bylgjur valda heilbrigðiskerfinu er enn margfalt á við álagið af öðrum öndunarfærasýkingum. Engar vísbendingar eru þó um að stjórnvöld hyggist bregðast við með sóttvarnarðgerðum. Þá leggja heilbrigðisyfirvöld litla áherslu á að miðla ráðum eða leiðbeiningum um sóttvarnir til almennings. Á öftustu síðu vikuskýrslu sóttvarnalæknis um stöðu öndunarfærasýkinga má finna nokkrar ábendingar, sem ólíklegt virðist að beri fyrir augu margra.
Þá virðist ósennilegt að tækifærum öndunarfæraveira til útbreiðslu fækki í jólamánuðinum. Að öllu samanlögðu bendir fátt til þess, að óbreyttu, að lát verði á Covid-bylgjum um fyrirsjáanlega framtíð.
Í vikuskýrslum sóttvarnalæknis er ekki greint frá fjölda sjúklinga á gjörgæslu eða fjölda dauðsfalla.