Í þriðja sinn á fjórum vikum hefur Landspítali nú, þriðjudaginn 21. nóvember, látið frá sér tilkynningu um að mikið álag sé á bráðamóttökunni í Fossvogi og beðið fólk sem getur snúið sér annað um að gera það heldur. Í tilkynningunni kemur, nú sem fyrr, fram að á bráðamóttökunni verði forgangsraðað eftir bráðleika og fólk sem ekki er í bráðri hættu geti því þurft að bíða lengur en annars eftir þjónustu.
Í ljósi þeirra gagna sem birst hafa um veirugreiningar á Landspítala og fjölda innlagna vegna Covid-19 ætti þetta ekki að koma mörgum á óvart. Samkvæmt síðustu birtu gögnum, frá vikunni 6.–12. nóvember, lágu þá 32 sjúklingar á Landspítala með Covid-19 og höfðu ekki verið fleiri frá árinu 2022. Veiran að baki sjúkdómnum, SARS-CoV-2, greinist um þessar mundir ríflega fimmfalt oftar en inflúensa.
Þegar síðasta tilkynning barst um álag á bráðamóttöku fékk blaðamaður það staðfest frá starfsmanni móttökunnnar að þá væru „rosa mikil veikindi hjá landanum, covid og aðrar veirusýkingar. Mikið aðflæði og svo fer bara þessi keðjuverkun af stað sem teppir bráðamóttökuna.“ Starfsmaðurinn sagði Covid vera þungt fyrir bráðamóttökuna þar sem það teppi einbýli á sjúkrahúsinu og þá ílengist það fólk á bráðamóttöku sem ekki er með covid og fær ekki innlögn á einkastofu í húsinu „því það er uppselt.“ Það sama er uppi á teningnum nú, segir heimildamaður: „Allt stopp upp í hús.“
Í tilkynningu Landspítala er vísað til símanúmersins 1700 og netspjalls Heilsuveru fyrir fólk sem ekki er í bráðri hættu.