Grindvíkingur segir siðlausa banka sparka í samfélag í sárum: „Þið skulið vita eitt – þið eruð næst“

„Kæru samlandar. Ef bankastofnanir geta vogað sér að koma fram á þennan hátt við heilt samfélag í sárum og sparkað í liggjandi hund skulið þið vita eitt- þið eruð næst.“

Svo líkur Sigríður María Eyþórsdóttir, tónlistarmaður úr Grindavík, pistli sem birtur er á Vísi. Sigríður segir að tilboð bankanna um frysta húsnæðislán Grindvíkinga sé ekkert annað en blekking til að nýta sér hörmungarnar sem nú dynja yfir íbúa.

„Falsörlætis tilboð bankanna um að frysta húsnæðislán Grindvíkinga eru gagnsæ blekking til að nýta sér hörmungar sem nú dynja yfir heilt sveitarfélag og skara eld að sinni köku . Við höfum öll sem komin eru vits og ára staðið frammi fyrir hruni , en nú eru Grindvíkingar á öllu verri stað þar sem eigur þeirra, húsnæði og lífsafkoma er í hættu og í mörgum tilvikum eru fasteignir verlausar með öllu, skemmdar, óseljanlegar vegna staðasetningar og náttúruvár hættu,“ segir Sigríður.

Hún bendir á mörg fyrirtæki hafi reynt að leggja Grindvíkingum hjálparhönd. Það eigi þó ekki við um bankanna. „Í því öngþveiti sem myndast hefur í kjölfar jarðhræringa og fólksflótta frá svæðinu hefur hver stofnunin og fyritækið á fætur öðru, svo og örlátir einstaklingar sýnt sóma sinn og samstöðu við að styðja við bök flóttafólksins sem stendur nú frammi fyrir einum stærstu áskorunum lífs síns. Þar í hóp hafa nú bæst okkar ágætu lánastofnanir. Tilboð þeirra til okkar sem nú sjáum á eftir eigum okkar og lífsstarfi í glötun er það að náðarsamlegast frysta húsnæðislán okkar um tiltekinn tíma , með þeim skilyrðum þó að allar rentur og vextir falli á höfuðstól lána okkar og komi til greiðslu þegar frystingu lýkur. Vonast undirrituð að þetta sé tilraun til spaugsemi, til þess gerð að létta Gindvíkum þrautargönguna sem fram undan er, enda svo vitfirrt boð að engum manni ætti að leynast að hér getur varla alvara legið að baki,“ segir Sigríður.

Hún segir að þetta „tilboð“ bankanna sé einfaldlega samfélagslega siðfirrt. „Hvað vitum við ? Við vitum að ógreiddir vextir safnast inn á höfuðstól lánsins, svo frystingin hefur þann annmarka að minnka eigið fé í eigninni samhliða frystingunni . Allt frá hruni árið 2008/9 höfum við verið að súpa seyðið af frystingum lána. Ég, sem er langt í frá því að geta talið mig fjármálasnilling, persónulega er núna að borga 420.000 kr í vexti á mánuði í boði Seðlabankans, og ef ég þarf að frysta lán mitt í eitt ár má auðveldlega sjá að eign mín í húskofanum hefur rýrnað um allt að fimm milljónum, milljónum sem ég þarf svo að borga vexti af í framhaldi? Ég spyr. þykir mér nóg um fyrir. Það vita allir sem vilja að bankastofnanir vinna ekki fyrir okkur sem greiðum lánin. Því fullyrði ég að þetta boð til okkar er í besta falli samfélagslega siðfirrt,“ segir Sigríður.

Hún segir að í raun væri betra fyrir hana að húsið færi undir hraun. „Það er sár stund að átta sig á því að það væri skárri kostur að sjá eftir heimili sínu undir hraun eða ofan í gjótu, en að sjá það standa heilt. Hvernig sem fer virðist því vera að við munum missa heimili okkar og lífsviðurværi, á hvorn veginn sem fer, annað hvort í gegnum forgarð helvítis eða vera gleypt af hinum skrímslunum í mynd bankastofnana,“ segir Sigríður.

Hún skorar á alla sem vettlingi geta valdið að leggja Grindvíkingum lið í baráttu þeirra við siðlausa banka. „Krafan hlýtur að vera tafarlaus frysting á lán Grindvíkinga, án vaxta og verðbótasöfnunar, um umsaminn tíma. Ég kalla á alþingi Íslendinga og samfélagsins alls til þess að koma í veg fyrir að tæplega 4 þúsund manns missi heimili sín og framtíð í kjaft auðvaldsins. Ég skora á stjórnaraðstöðuna, ég skora á alþingismenn alla, ég skora á kirkjuna, ég skora á verkalýðshreyfinguna, ég skora á félagasamtök, ég skora á almenning, ég skora á alla sem telja sig hafa sóma sem manneskjur að stöðva þetta ferli með öllu móti, hvort sem heldur er með mótmælum eða lagasetningum,“ segir Sigríður.

Hún segir að nú sé nóg komið. „Hér ríkir ekki ófremdarástand heldur neyðarástand og það er með öllu ósamrýmanlegt félagslegum gildum og manngildum að fjármálastofnanir geti makað krókinn og fitað svínið á þennan hátt fyrir það sem má kalla augljósa og fyrsjáanlega slátrun. Hér erum við Grindvíkingar, heimilislaus, í framtíðarótta. Sum hver, jafnvel mörg okkar, sjá fram á atvinnumissi, fjárhagslegt hrun og þurfa á sama tíma að framfleyta fjölskyldum á óöruggum og hagnaðardrifnum húsaleigumarkaði um ófyrirsjáanlega framtíð. Þetta eru ekki kaldar kveðju til okkar sem horfum inn í óvissuna, þetta er svívirða. Við húseigendur sem höfum varla haft bolmagn til að greiða af lánum okkar í þeim aðstæðum og vaxtahækkunum sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarið, sjáum nú fram á það að í miðjum hörmungum verðum við endanlega slegin af.

Nú er komið nóg.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí