Tryggvi Pálsson, formaður Bankasýslunnar, fullyrti í Morgunblaðinu í dag að það ríkti skrýtin menning innan Landsbankans og einnig að bankinn hefði ekki hugað nægilega vel að kaupunum á TM tryggingum. Bankasýslan ákvað nýverið að skipta út öllu bankaráði Landsbankans. Fráfarandi formaður ráðsins, Helga Björk Eiríksdóttir, segir í viðtali við RÚV að Tryggvi sé að setja fram aðdróttanir og vega illa að bankanum.
„Okkur finnst fullmikið að okkur vegið af hálfu bankasýslunnar. Það stingur, sú ásökun að þetta hafi ekki verið vel undirbúið að hálfu bankans og starfsfólki bankans, sem hefur unnið að þessu í marga mánuði. Því er ítrekað haldið fram að þetta veiki stöðu bankans. Sem þetta gerir alls ekki. Þetta styrkir stöðu bankans til lengri tíma litið,“ segir Helga Björk.
Hún segir einnig að það hafi verið mistök af hálfu Tryggva og Bankasýslunnar að víkja öllum úr bankaráði. „Ég held að það sé óhætt að segja, úr því sem komið er, að það hafi orðið trúnaðarbrestur. Það var náttúrulega ákvörðun bankasýslunnar að víkja öllu bankaráðinu og ég held það sé ekki góð ákvörðun. Það er ekki gott fyrir bankann þegar heilu bankaráði er skipt út. Það tekur tíma að komast inn í umfangsmikið starf eins og fer fram í bankaráði Landsbankans,“ segir Helga Björk.