Marinó G. Njálsson færir rök fyrir því að alræmdu útrásarbankarnir, sem fóru allir á hausin árið 2008, hafi líklega verið skárri en bankarnir í dag. Í það minnsta fyrir hinn almenna Íslending. Þau rök eru ekki flókin. Útrásarvíkingarnir töldu að eina leiðin til að græða almennilega, milljarða ofan á milljarða, þá væri að stunda viðskipti erlendis. Bankarnir í dag hins vegar skila meiri hagnaði en í útrásinni. Sá hagnaður byggist nær eingöngu á því að bjóða þjóðinni bara upp á okurvexti.
„Munið þið Skýrsluna, sem átti að vera upphafið að endurreisn siðgæðis, trúverðugleika stjórnmálanna og trausts í fjármálkerfinu. Uppræting spillingar átti að fylgja og þjóðin átti að fá að vita sannleikann. Niðurstaðan varð nákvæmlega öfug,“ skrifar Marinó á Facebook.
„Stjórnmálamenn með fé í skattaskjólum hafa gegnt embætti forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og utanríkisráðherra. (Ok, annar þeirra öllum stöðunum, en hinn bara einni.) Vanhæfið ríður ekki einteymingi við skipanir í stöður og framkvæmd embættisverka. Bankakerfið í Skýrslunni var endurreist í formi banka sem virðist eiga fátt sameiginlegt með viðskiptabönkum í nágrannalöndum okkar og húsnæði stórs hluta landsmanna var komið í hendur Gamma. En Skýrslan er sem sagt 14 ára í dag. Hún átti að vera uppgjör og upphafið að einhverju betra. Svo hefur ekki reynst.“
Marinó bendir svo á að mörg vandamál á Íslandi má rekja til þessa. Húsnæðiskrísa undanfarna sé að einhverju leyti þessu að kenna. „Ég held að stór hluti landsmanna sakni tímanna frá því fyrir hrun, vegna þess að þá var hægt að fá hagstæð lán á lágum vöxtum, þá gátu byggingaraðilar staðið í framkvæmdum, þá var það erlenda starfsemi bankanna sem skilaði hagnaðinum, en ekki heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki, þá voru vextir Seðlabankans mun lægri en í dag. Veltið því fyrir ykkur, að hið pínulitla íslenska bankakerfi er að skila meiri hagnaði eftir hrun, en margfalt stærra bankakerfi gerði á góðæristímum í þjóðfélaginu,“ segir Marinó og bætir við:
„Það er eitthvað bogið við Ísland, þegar sífellt er verið að veikja burðarstoðar samfélagsins, þ.e. heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki. Hvað verður um „viðskiptabankana“, þegar viðskiptavinirnir eiga ekkert til að eiga í viðskiptum með? Hvað verður um hið opinbera, þegar heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki verða ekki lengur aflögufær? Fyrir hrun þótti gott að arðsemi eiginfjár fjármálafyrirtækja væri 3-5%. Ég sakna þeirra tíma. Allt vegna þess að það er svo smart að græða. En á hverju á að græða, þegar búið er að éta útsæðið?“