Í nýbirtri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir að uppgangur í ferðaþjónustu og metfjöldi ferðamanna á landinu, þrýsti leiguverði upp og valdi óöryggi á leigumarkaði.
Áhrif ferðaiðnaðar á leigumarkað
Gistinóttum ferðamanna hefur fjölgað um 20% á milli ára, sem er nær fordæmalaus vaxtarhraði. „Þegar ferðamenn eru margir miðað við framboð af gistirými,“ segir í skýrslunni, „veldur það verðhækkunum á gistingu og fleiri sjá sér hag í að leigja út íbúðir í skammtímaleigu frekar en í slangtímaleigu. Í slíku árferði á sér því stað tilfærsla á íbúðum af langtímaleigumarkaði yfir á skammtímaleigumarkað. Minna framboð íbúða til langtímaleigu getur dregið úr aðhaldi á leigusala og myndað þrýsting á leiguverð.“
Miðað við þróun á fyrstu tíu mánuðum ársins stefnir í, samkvæmt skýrslunni, að gistinætur ferðamanna á landinu verði 10,2 milljónir alls, sem yrði 20% aukning á milli ára, og um leið met í sögu ferðaiðnaðarins á Íslandi. Í hverjum mánuði á þessu ári hafa gistinætur verið verið fleiri en sömu mánuði í fyrra. Ef fjöldi seldra gistinátta væri ekki árstíðabundinn heldur stöðugur milli mánaða jafngilda 10 milljón nætur því að yfir 27.000 ferðamenn gisti á landinu hverja nótt, en ferðalög sveiflast meira en svo: þegar álagið var mest, um mitt sumar, gistu á landinu um 53.000 ferðamenn á meðalnóttu.
Aðeins 6% leigjenda telja „mikið framboð“
Á leigumarkaði hefur þeim fjölgað sem segja erfitt að finna húsnæði, samkvæmt könnun sem birtist í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Einungis 6% þeirra sem svöruðu telja að mikið framboð sé af íbúðarhúsnæði til leigu, sem er þriðjungur þeirra 18% sem svöruðu sömu spurningu játandi árið 2020. Tæpur helmingur, eða 48%, segja nú að mjög lítið framboð sé af leiguhúsnæði, eða yfir tvöfalt fleiri en árið 2020, þegar 23% svarenda litu svo á.
Aðrar niðurstöður könnunarinnar eru í samræmi við þetta: Árið 2020 sögðu tæp 40% aðspurðra leigjenda að mjög eða frekar auðvelt hefði verið að finna það húsnæði sem þau þá bjuggu í, en þeim hefur nú fækkað í 35% aðspurðra, og svo framvegis. Að mati leigjenda sjálfra eru nú klárlega þrengingar á leigumarkaði.
Að sama skapi hefur þeim leigjendum fækkað milli ára sem telja sig búa við húsnæðisöryggi: árið 2022 svöruðu 65% þeirri spurningu játandi, en nú 57%. Þau sem svara spurningunni gagngert neitandi og telja sig ekki búa við húsnæðisöryggi fjölgaði úr 22% í 29% – þeim hefur með öðrum orðum fjölgað, milli ára, um tæpan þriðjung.
Minnst húsnæðisöryggi hjá einkareknum leigufélögum
Þegar borin er saman upplifun leigjenda af ólíkum gerðum leigusala er ljóst að minnst húsnæðisöryggi er meðal þeirra sem leigja af einkareknum leigufélögum. Aðeins tæpur þriðjungur þeirra telur sig búa við húsnæðisöryggi, eða 32% svarenda. 47% leigjenda einkarekinna leigufélaga segjast ekki búa við húsnæðisöryggi.
Reyndar er staða þeirra lítið skárri sem leigja af einstaklingi á almennum markaði: 46% þeirra segjast búa við húsnæðisöryggi, en 36% ekki. Þar á milli standa eftir 18% sem svara „hvorki né“, hvernig sem það túlkast. Það er umtalsverður munur á stöðu þess hóps sem leigir á almennum markaði og hinna sem leigja af ættingjum eða vinum: 66% þeirra sem leigja af ættingjum eða vinum segjast búa við húsnæðiöryggi, 26% ekki.
Leigjendur innan búsetufélaga skera sig úr í þessu samhengi, þar sem 97% segjast ýmist sammála eða mjög sammála því að þau búi við húsnæðisöryggi. Næst á eftir búsetufélögum upplifa þau sem leigja af óhagnaðardrifnum leigufélögum mest öryggi: 77% þeirra segjast telja sig búa við húsnæðisöryggi.