Síðasta ár gistu ferðamenn 22 nætur á hvern íbúa á Íslandi en aðeins 9,5 á Spáni

Evrópska hagstofan, Eurostat, birti á þriðjudagskvöld nýuppfærðar tölur yfir fjölda gistinátta ferðamanna í ríkjum Evrópu. Ísland er meðal þeirra landa sem ekki hafa skilað gögnum fyrir árið 2022, en Hagstofan hefur þegar birt samræmanleg gögn innanlands. Ef töflurnar eru bornar saman kemur niðurstaðan ekki á óvart: allan þann áratug sem gögnin ná til, frá 2013 til síðasta árs, hefur Ísland verið meðal þeirra landa sem hýsir flesta ferðamenn miðað við íbúafjölda.

Ísland og Króatía í efstu sætum síðan 2016

Árið 2013 voru fleiri gistinætur á hvern íbúa aðeins seldar í Króatíu, á Kýpur og á Möltu. Þá þegar voru gistinætur ferðamanna á Íslandi yfir 50% fleiri en á Spáni, á hvern íbúa. Síðan þá hefur ferðaiðnaðinum enn vaxið ásmegin hérlendis, eins og alkunna er: árið 2014 voru fleiri gistinætur aðeins seldar á Möltu, miðað við íbúafjölda. Ísland komst loks í efsta sæti þessa lista árið 2016 og hefur skipst á fyrsta og öðru sæti við Króatíu allar götur síðan.

Eftir lægðina á meðan sóttvarnir vegna heimsfaraldursins voru í hámæli hefur ferðaiðnaður nú rétt úr kútnum víðast hvar. Eins og fram kom í gögnum Hagstofunnar um mitt nýliðið sumar dvöldu ferðamenn á Íslandi samanlagt 8,55 milljónir gistinátta á landinu árið 2022. Miðað við skráðan íbúafjölda landsins 1. janúar það ár voru það 22,7 gistinætur á hvern íbúa. Aðeins í Króatíu gistu fleiri ferðamenn, 23,3 nætur á hvern íbúa.

2–3x fleiri gistinætur en í helstu sólarlöndum

Enn hafa Eurostat ekki borist gögn allra landa til að reikna meðaltal frá ríkjum álfunnar fyrir árið 2022, en fljótt á litið virðist mega ætla að hlutfallið haldist svipað, milli þeirra smáríkja sem orðin eru ofurháð ferðamennsku, á við Ísland og Króatíu, annars vegar, og meðalríkja álfunnar hins vegar. Árið 2019 var meðaltal 28 ríkja Evrópusambandsins 6,7 gistinætur á hvern íbúa, á meðan ferðamenn gistu 23,5 nætur á hvern íbúa Íslands og 22,4 nætur á hvern íbúa Króatíu. Munurinn á framúrskarandi ríkjunum tveimur og meðaltalinu var með öðrum orðum yfir þrefaldur. Allt lítur út fyrir að það sé hann enn.

Þó að samfélaginu hafi nú gefist nær fimmtán ár, ef miðað er við stofnun Íslandsstofu, til að venjast tilhugsuninni um Ísland sem vettvang ferðamennsku af þessu umfangi, þá getur þeim sem ólust upp við að ferðamannastaðir væru samheiti við sólarlönd hugsanlega enn í dag brugðið við þá staðreynd að í fyrra voru gistinætur ferðamanna á Íslandi nær tvöfalt fleiri en á Grikklandi (12,7 á hvern íbúa), yfir tvöfalt fleiri en á Spáni (9,5 á hvern íbúa) og þrefalt fleiri en í Portúgal (7,4 á íbúa).

Heimild: Eurostat.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí