Ísland krefst vopnahlés og Ísland krefst ekki vopnahlés

Þingmenn fögnuðu á fimmtudag þeirri samstöðu sem náðist á Alþingi um „afstöðu Íslands vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs“, eins og það er orðað í yfirskrift ályktunarinnar sem þingið samþykkti. Ályktunin er orðrétt samhljóða tillögu Utanríkismálanefndar, sem var lögð fyrir þingið á miðvikudag, en það var á vettvangi nefndarinnar sem fulltrúar þingflokkanna komust að sameiginlegri niðurstöðu um orðalag. Það er að því leyti bagalegt, að það skuli hafa gerst í nefnd frekar en í þingræðum, að þá er almenningi hulið hvaða röksemdir og átök lágu að baki ákvörðunum um orðalag ályktunarinnar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, gerði þó, í umræðum um ályktunina, grein fyrir bókun sinni um málið í utanríkismálanefnd. Bókunina las hann upp, hún hefst á eftirarandi orðum:

„Undirritaður er aðili að tillögunni með hliðsjón af eftirfarandi skilningi: Að með orðalaginu „vopnahlé af mannúðarástæðum“ sé átt við það sem kanadísk stjórnvöld kölluðu „humanitarian pause“ í skýringum á tilvísaðri tillögu þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þ.e. tímabundið hlé á átökum til að liðka fyrir mannúðaraðstoð á Gaza-ströndinni.“

Bókun Sigmundar Davíðs staðfestir þannig að orðalagið „vopnahlé í mannúðarskyni“ eða „vopnahlé af mannúðarástæðum“ virðist gera stjórnmálafólki kleift að fá bæði sleppt og haldið: láta í veðri vaka, gagnvart þeim sem það vilja heyra, að farið sé fram á vopnahlé, það er að stríðsátökunum linni, en halda um leið öðrum skilningi opnum gagnvart þeim sem myndu styggjast við slíka kröfu.

Það er skilningur Sigmundar, að aðeins sé beðið um tímabundin hlé, eins konar matarpásur í stríðinu. Því mætti halda fram að í þeim skilningi hafi krafan verið uppfyllt samdægurs, þegar ísraelsk stjórnvöld tilkynntu að þau muni gera fjögurra klukkustunda hlé á árásum dag hvern til að óbreyttir borgarar geti komist í skjól.

Á sama tíma hefur hins vegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekið að minnast á vopnahlé í þessu samhengi án þess að skilyrða það sem „vopnahlé af mannúðarástæðum.“ Það gerði Katrín í þingræðu sinni um ályktunina, þegar hún sagði Ísland með henni senda „skýr skilaboð út í alþjóðasamfélagið, skýran vilja Alþingis um tafarlaust vopnahlé“.

Ef þessar umræður hefðu farið fram áður en samstaða náðist milli þingflokka um orðalag ályktunarinnar hefðu Katrín og Sigmundur ef til vill komist að sameiginlegri niðurstöðu um merkingu textans í ályktuninni, eða þingið gert breytingar á textanum þar til hann yrði nógu skýr til að þingmenn yrðu á einu máli um hvað fælist í honum. En pólitísk samstaða hafði náðst í utanríkismálanefnd, þingumræðunum var ekki ætlað að hafa áhrif á niðurstöðu sem var þegar í höfn. Eftir stendur samstaða um að krefjast vopnahlés og að krefjast ekki vopnahlés.

469. mál á vef Alþingis: Afstaða Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí