Alþingi hyggst kalla eftir „vopnahléi af mannúðarástæðum“ en ekki stöðvun stríðsins

„Allt þref um texta og orðalag er hjóm, í samhengi þess ástands sem er fyrir botni Miðjarðarhafs,“ sagði þingflokksformaður VG um hina alræmdu hjásetu Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þann 27. október. Það hvernig ályktun um stríðsátökin er orðuð er þó ekki veigaminna en svo að á Alþingi hafa nú verið lagðar fram þrjár þingsályktunartillögur um efnið á þremur dögum. Vonir standa til að sú þriðja, sem utanríkismálanefnd skilaði í gær, miðvikudag, verði sú síðasta, og hljóti samþykki þingsins í dag, fimmtudag.

Vinstrið vildi vopnahlé, hægrið „mannúðarhlé“

Þessi þriðja tillaga að ályktun um yfirstandandi átök er kynnt sem málamiðlun, í von um samstöðu þvert á flokka og fylkingar, á milli þeirra tillagna sem áður komu fram og má með einföldun skipta í vinstri- og hægri-tillögu. Fyrir vinstri-tillögunni voru skrifaðir þingmenn fjögurra flokka. Með henni hefði Alþingi ályktað að „fela utanríkisráðherra að fordæma árásir Ísraelshers á óbreytta borgara“ og „kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum til þess að koma megi neyðarvistum og læknisaðstoð til íbúa Gaza og í framhaldinu stöðva átök á svæðinu.“

Að baki hægri-tillögunni stóð þingflokkur Viðreisnar. Með henni hefði Alþingi ályktað „að fordæma hryðjuverkaárásir Hamas á almenna borgara í Ísrael sem hófust 7. október 2023 og árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum og á borgaralega innviði á Gasaströndinni í kjölfarið.“ Þar er ekki skorað á utanríkisráðherra að gera eitt né neitt, heldur hefði Alþingi fordæmt árásirnar sjálft, árásir Hamas fyrst, árásir Ísraels svo. Þá hefði Alþingi einnig „kallar eftir tafarlausu mannúðarhléi svo að unnt sé að tryggja flutningsleiðir fyrir neyðarvistir og aðra mannúðaraðstoð til Gasa“ án þess að minnast á að í framhaldinu mætti stöðva átök á svæðinu.

Þriðja tillagan: „vopnahlé af mannúðarástæðum“

Samkvæmt þriðju tillögunni, sem sett hefur verið á dagskrá þingsins í dag, fimmtudag, er það Alþingi sjálft sem ályktar og fordæmir, eins og í tillögu Viðreisnar, en skorar ekki á ráðherr aað gera það. Fyrst af öllu ályktar Alþingi, hljóti tillagan samþykki, að „án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra.“ Hér er talað um „vopnahlé“ eins og í vinstri-tillögunni, ekki hið þýðingarminna „mannúðarhlé“ sem birtist í tillögu Viðreisnar. Vopnahléð er aftur á móti skilyrt sem „vopnahlé af mannúðarástæðum“ og engri von lýst um að það leiði til stöðvunar átaka á svæðinu.

Miðað við það orðfæri sem hefur haslað sér völl á alþjóðavísu í kringum átökin, og þann diplómatíska línudans sem birtist í orðavalinu, má gera ráð fyrir að í enskri þýðingu þessarar ályktunar yrði rætt um „humanitarian ceasefire“. Mitt á milli „humanitarian pause“ og „ceasefire“ án skilyrðingar hefur hugtakið „humanitarian ceasefire“ orðið að því ítrasta sem Sameinuðu þjóðunum, undirstofnunum þeirra, og fjölda ríkja þykir stætt á að kalla eftir, um leið og Ísrael og Bandaríkin hafna slíkum kröfum, undir þeim formerkjum að á þessum tímapunkti myndi vopnahlé bæta vígstöðu Hamas.

Styggir engan en ber vott um sjálfstæði

Þessi krafa gengur ekki jafn langt og krafa um skilyrðislaust eða algert vopnahlé myndi gera. Og þó að Bandaríkin og Ísrael hafni öllum kröfum um vopnahlé þá hafna ríkin slíkum kröfum á ólíkum forsendum eftir því hvernig vopnahléð er orðað: kröfur um almennt vopnahlé hafa þarlendir ráðamenn túlkað sem brot á rétti Ísraels til að verjast; kröfur um vopnahlé af mannúðarástæðum túlka þeir aðeins sem hernaðarlega misráðið. Að því leyti má ætla að nýja ályktunin styggi hvorugt ríkið jafn verulega og krafa um stöðvun átaka myndi gera.

Raunar er ekkert minnst á stöðvun átaka í hinni nýju tillögu yfirleitt. Aðeins í greinargerð með tillögunni er minnst á „stöðvun stríðsátaka“, þegar flutningsmenn tillögunnar segjast vilja „lýsa yfir stuðningi sínum við allar friðsamlegar aðgerðir sem miða að stöðvun stríðsátaka fyrir botni Miðjarðarhafs“ – en jafnvel þar, utan texta ályktunarinnar sjálfrar, fær hugmyndin um stöðvun stríðsátaka ekki að standa óskilyrt, því setningin heldur áfram: „í því skyni að tryggja vernd óbreyttra borgara og veita mannúðaraðstoð.“ Þannig bendir ekkert til að Alþingi muni láta frá sér neins konar ákall um að komið verði á friði.

Þar sem ályktunin gengur þó hótinu lengra í orðavali en bandarískir ráðamenn hafa reynst tilbúnir að taka undir má halda því fram að hún sé að því leyti ekki þýðingarlaus: að ef Alþingi lánast að samþykkja hana myndi það sýna vott um sjálfstæði landsins í utanríkismálum.

Tillaga um ónefnda afstöðu

Í samræmi við anda málamiðlunarinnar hefur heiti þingsályktunartillögunnar sjálfrar tekið stakkaskiptum: Fyrsta tillagan, sú sem var lögð fram á mánudag, hét „Tillaga til þingsályktunar um að fordæma aðgerðir Ísraelshers í Palestínu og kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum.“ Önnur tillagan bar yfirskriftina „Tillaga til þingsályktunar um að fordæma hryðjuverkaárásir Hamas í Ísrael og árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum í Palestínu.“ Hvor um sig var þannig lýsandi fyrir ásetninginn að baki og áherslur textans. Tillagan sem borin verður undir Alþingi í dag, fimmtudag, forðast að láta nokkuð slíkt uppi, og heitir einfaldlega: „Tillaga til þingsályktunar um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.“

Texti tillögunnar

Allur texti hinnar nýju, þriðju, þingsályktunartillögu um efnið er lengri en ofantalin atriði ein sér. Tillagan í heild er svohljóðandi:

Tillaga til þingsályktunar

um afstöðu Íslands vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs.

Frá utanríkismálanefnd.

Alþingi ályktar að án tafar skuli komið á vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza-svæðinu svo tryggja megi öryggi almennra borgara, jafnt palestínskra sem ísraelskra. Alþingi fordæmir öll ofbeldisverk sem beinast gegn almennum borgurum í Palestínu og Ísrael. Alþingi krefst þess að alþjóðalögum sé fylgt í einu og öllu í þágu mannúðar, öryggis almennra borgara og verndar borgaralegra innviða.

Alþingi fordæmir hryðjuverkaárás Hamasliða á almenna borgara í Ísrael sem hófst 7. október 2023. Alþingi fordæmir sömuleiðis allar aðgerðir ísraelskra stjórnvalda í kjölfarið sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, þ.m.t. óheyrilega þjáningu, manntjón, mannfall almennra borgara og eyðileggingu borgaralegra innviða. Brýnt er að öll brot stríðandi aðila á alþjóðalögum verði rannsökuð til hlítar.

Alþingi kallar eftir mannúðlegri meðferð á og tafarlausri lausn gísla, aðgengi hjálpar- og mannúðarsamtaka og að neyðarvistum og læknisaðstoð verði komið til almennings tafarlaust.

Alþingi felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir viðbótarframlagi til mannúðaraðstoðar og rannsóknar á brotum á alþjóðalögum til að fylgja eftir þeim áherslum sem fram koma í ályktun þessari.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí