Jónas Kristjánsson ritstjóri hélt úti örstuttum færslum á vefsíðu sinni síðustu ár sín, þar sem hann sagði frá og greindi landsmálin. Snemmsumars birti hann fyrstu færsluna þar sem hann kallaði Sjálfstæðisflokkinn bófaflokkinn og hélt því svo áfram allt til dauðadags, sumarið 2018. Alls birti Jónas 106 færslur þar sem hann vísar til Sjálfstæðisflokksins sem bófaflokks.
Í þeirri fyrstu, frá 4. júní 2001, er Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá skrifar Jónas færslu unfir fyrirsögninni Hrokknir af hjörunum:
„Berserksgangur er runninn á bófaflokkinn á Alþingi. Froðufellingin snýr að saksóknara Alþingis. Tryggvi Þór Herbertsson líkir Sigríði Friðjónsdóttur við Lavrenty Beria, þekktan fjöldamorðingja og lögreglustjóra Stalíns. Telur eins munu fara fyrir Sigríði og Javert, lögreglustjóra í Vesalingum Victors Hugo, sem fleygði sér í Signu. Tilefni ummælanna er, að saksóknarinn opnaði heimasíðu, þar sem hlaðið er inn skjölum í málaferlum gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis. Sigríður segir samt síðuna opna fyrir greinargerðum til varnar Haarde. Siðblindi bófaflokkurinn hefur bara hrokkið af hjörunum.“
Næstu árin heldur Jónas áfram greiningu sinni á starfsaðferðum flokksins, fyrir hvern hann vinnur og hver er sök kjósenda hans. Strax þarna snemmasumar 2011 var Jónas búinn að greina sök kjósenda Sjálfstæðisflokksins, kallaði þá burðadýr í bófaflokki:
„Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður sagði þetta árið 2009 á landsfundi Sjálfstæðisflokksins: “Vilji Sjálfstæðisflokkurinn halda yfirráðum sínum yfir sjávarútvegsauðlindinni, þá felur það í sér að flokkurinn vill standa utan Evrópusambandsins og því fagna ég.” Þetta segir alla söguna um stöðu Flokksins. Hann er gæzlumaður sérhagsmuna. Gætir þess, að kvótagreifar haldi þýfinu, sem þeir stálu af þjóðinni með veðsetningu á óveiddum afla. Sá er tilgangur og markmið Flokksins. Hann er bófaflokkur, studdur af firrtum kjósendum, sem gegna hlutverki burðardýra í bófaflokki Sjálfstæðisflokksins.“
Hann skýrir svo betur stöðu burðardýranna síðar á árinu:
„Kjósendur Sjálfstæðisflokksins jafngilda burðardýrum fíkniefnasmyglara. Hinn fjölmenni hópur, sem kýs Flokkinn, er ígildi þeirra, sem flytja eiturlyf á markað. Kjósendur Flokksins bera eins og burðardýrin fulla ábyrgð á hegðun sinni. Því bera þeir sinn hluta ábyrgðarinnar á hruninu, þótt Flokkurinn sem slíkur og valdamenn hans beri mesta. Kjósendur Flokksins geta ekki vikið sér undan ábyrgð. Þeir eru óvinir þjóðarinnar eins og bófaflokkurinn í heild. Þeir eru bara gæzlumenn sérhagsmuna, einkum kvótagreifa og auðróna. Voru það fyrir hrun, voru það í hruninu og eru það enn. Eins og hver önnur burðardýr.“
Jónas greinir ólíka stöðu fólksins í forystunni, í annars vegar bófa og hins vegar bjána, í færslu undir einmitt þeirri fyrirsögn: Flokkur bófa og bjána:
„Sjálfstæðisflokkurinn er sumpart bófaflokkur og öðrum þræði bjánaflokkur. Sem bófaflokkur er hann aðferð kvótagreifa við að halda pólitísku kverkataki á þjóðinni. Sem bófaflokkur er hann aðferð nokkurra fjölskyldna við að hirða arðinn af puði þjóðarinnar. Sem bjánaflokkur setti hann peningalegan örvita í Seðlabankann. Davíð Oddsson gerði bankann gjaldþrota prívat og persónulega með gerræði alkemistans. Leyfði bankabófum að skafa bankann innan á síðustu metrunum. Sams konar bjáni var Geir H. Haarde sem forsætis. Hann skildi ekki illkynjaðar breytingar á bönkunum og sigldi þjóðarskútunni beint í strand.“
Á Samstöðinni hefur undanfarið verið fjallað um Eimreiðarklíkuna, Bláu höndina, Kolkrabbann og önnur nöfn sem gefin hafa verið bakherbergjum Valhallar. Umfjöllun Jónasar Kristjánssonar um þetta fyrirbrigði, sem hann kallaði bófaflokkinn, er rifjuð upp af því tilefni. Jónas var einn virkasti og virtasti samfélagsgreinir á landinu upp úr miðri síðustu öld og allt til dauðadags. Lesa má þessar 106 færslur Jónasar um bófaflokkinn í Valhöll hér: Bófaflokkur í færslum Jónasar Kristjánssonar.
Hér má svo horfa of hlusta á þætti Samstöðvarinnar um Eimreiðina, Bláu höndina og Kolkrabbann að undanförnu.
Í úrvali vikunnar birtum við ýmiss viðtöl um Eimreiðarklíkuna, kolkrabbann og bláu höndina. Við byrjum á Þorvaldi Logasyni segir okkur frá Eimreiðarhópnum sem náði völdum innan Sjálfstæðisflokksins og í raun yfir Íslandi öllu. Síðan ræðum við Þorvaldar og völd Valhallar við Sólveigu Ólafsdóttur nýdoktor, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur prófessor og Viðar Hreinsson bókmenntafræðing. Á eftir fylgja síðan fjögur viðtöl við menn sem þekkja til valdaklíku Valhallar og þeir segja okkur frá henni, hver með sínu nefi: Jóhann Hauksson blaðamaður, Hallgrímur Helgason rithöfundur, Gunnar Smári Egilsson blaðamaður og Ólafur Jónsson skipstjóri.