„Kapítalisminn er búinn til með ríkisafskiptum”

„Hlutfall þeirra sem eru undir lágtekjumörkum hefur hækkað síðan ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við árið 2017 og fátækt hefur dýpkað lítillega á sama tímabili. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu forsætisráðherra um fátækt sem unnin var að beiðni Alþingis. Fátækt er ekki náttúrulögmál heldur pólitísk niðurstaða, afleiðingin af samfélagslegum og pólitískum ákvörðunum sem eru teknar á hverjum tíma.“

Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi á dögunum. Í ræðunni lýsti hann því hvernig öfgar markaðshagkerfisins hafi í raun aukist umtalsvert á vakt VG síðustu ár. Hann benti þó á að stjórnarliðar geti ekki kennt öðrum né utanaðkomandi aðstæðum um það, því þessir öfgar eru mótaðir af ríkisafskiptum.

„Það sama gildir um auðlegð. Nú er það svo að ríkasta eina prósentið á Íslandi á meira en þúsund milljarða í eigin fé. Fólkið á þessar eignir ekki bara vegna þess að það hefur fjárfest skynsamlega, dottið í lukkupottinn, erft mikið eða fengið að njóta rentunnar af takmörkuðum auðlindum, heldur líka vegna þess að við sem samfélag lítum á eignaréttinn sem mikilvæg mannréttindi og beitum ríkisvaldinu af fullum þunga til þess að verja hann. Það getur enginn eignast neitt án þeirrar umgjarðar sem hið opinbera markar með lögum og reglum og viðheldur með löggæslu, dómstólum, útgáfu peninga og svo framvegis,“ sagði Jóhann Páll.

Þó hægrimenn láti oft eins og ríkisvald sé þeim eitur í beinum, þá bendir Jóhann Páll á að án þess gengi þetta ekki upp. „Kapítalisminn er búinn til með ríkisafskiptum. Markaðshagkerfið er búið til með ríkisafskiptum og það sama gildir um þá tekju- og eignadreifingu sem þessi kerfi ala af sér. Þá er ekki nema sanngjarnt að fólkið sem verður ofan á í þeim kerfum sem við höfum komið okkur upp og nýtur mesta ábatans af varðstöðu okkar um eignaréttinn greiði langsamlega mest fyrir viðhald þessara sömu kerfa,“ sagði Jóhann Páll.

Í ljósi þessa þá eru engin siðleg rök fyrir miklum ójöfnuði í samfélaginu. „Ég hef tamið mér að hugsa um ójöfnuð út frá hugmyndum sem bandaríski stjórnmálaheimspekingurinn John Rawls setti fram á áttunda áratug síðustu aldar, að ójöfnuður sé siðferðilega óréttlætanlegur nema þá aðeins að hin ójafna skipting sé þeim til hagsbóta sem verst eru settir. Þorsteinn Gylfason heitinn kallaði þetta fjalldalaregluna. „Fjöll mega ekki vera hærri né tignari,“ sagði hann, „en þarf til þess að dalirnir séu sem blómlegastir og byggilegastir.“

Á bak við þessa hugsun býr líka sú sannfæring að hæfileikar okkar og líffræðilegir eiginleikar séu óverðskuldaðir, alveg jafn óverðskuldaðir og það inn í hvaða fjölskyldu eða stétt við fæðumst. Og jafnvel þegar við leggjum hart að okkur til að þroska hæfileika okkar þá veltur dugnaðurinn að verulegu leyti á félagslegum þáttum, uppeldi og fjölskylduaðstæðum,“ sagði Jóhann Páll og bæti við lokum:

„Að þessu leyti held ég að þeir sem tala fyrir „jöfnum tækifærum“ en hunsa ójöfnuð og skaðsemi ójafnrar tekju- og eignadreifingar séu á villigötum. Eina leiðin til að tryggja raunverulega jöfn tækifæri er að auka jöfnuð í samfélaginu almennt, beita ríkisvaldinu af fullum þunga til að jafna leikinn gagnvart frumgæðum samfélagsins. Aðeins þannig verjum við og aukum raunverulegt frelsi fólks og tækifæri þess.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí