Arndís Anna Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur gert hreint fyrir sínum dyrum. Nú gengst hún við því að hafa verið ofurölvi á skemmtistaðnum Kiki um helgina. Þegar málið kom fyrst upp laug hún um atvikið og sagðist hafa verið handtekin því hún hafði verið of lengi inn á klósettinu. Óhætt er að segja að fáir hafi trúað því. Hið sanna er að hún var handtekin því hún lét öllum illum látum þegar dyraverðir opnuðu hurðina á salerninu.
Eftir stendur að málið er fremur vandræðalegt fyrir Pírata, enda hafa þeir ítrekað lagt áherslu á að ólíkt öðrum stjórnmálamönnum, þá séu þeir heiðarlegir og stundi ekki pólitískan spuna. Í því samhengi má benda á að Arndís Anna reyndi einnig að láta málið snúast um að Kiki sé vinsæll staður meðal samkynhneigðra, sem er í raun algjört auka atriði. „Það að lögreglan taki útkall frá hinsegin skemmtistað alvarlega, hvers eðlis sem það er, og bregðist svona skjótt við er sérstaklega mikilvægt,“ sagði Arndís Anna í fyrstu tilkynningunni vegna málsins.
Skáldið Halldór Halldórsson, Dóri DNA, segir á Twitter að allir þingmenn, óháð flokki, geti dregið lærdóm af atvikinu. Sá lærdómur er einfaldur. „Ég bara fíla ekki alþingismenn á djamminu. Bara alls ekki. Vorkenni ykkur ekki neitt. Sýnið lýðræðinu þá virðingu að drekka bara heima hjá ykkur þessi ár sem þið eruð á alþingi. Það gerir Sigmundur Davíð allavega.“
Í athugasemd er honum bent á að Sigmundur Davíð hafi líka lent í hneyksli sem tengdist krá, Klaustur bar. Því svarar Halldór: „Ég held að hann hafi verið nokkuð edrú á Klaustur. En hann var algjörlega farinn þegar danadrottning kom í Þjóðleikhúsið.“