Lélegar samgöngur í Reykjavík stór hluti af rafskútuvandanum: „Vandamálið er áfengi, ekki rafskútan“

Á síðustu dögum hefur orðið hálfgerð vitundarvakning vegna slysahættu rafskúta. Einn þeirra sem hefur vakið mesta athygli á þeim er Hjalti Már Björnsson bráðalæknir. Hann segir, líkt og Vísir greindi frá í gær, að þrír á dag mæti að meðaltali á bráðamóttöku eftir slys á rafhlaupahjóli. Nú eru margir sem kalla eftir því að rafskútur verði einfaldlega bannaðar en Hjalti bendir á að það sé ekki endilega rétta leiðin til að draga úr þessum slysum.

„Ein helsta ástæðan fyrir því að rafskútur eru nauðsynleg viðbót við samgöngur í þéttbýli á Íslandi er hversu takmarkaðar almenningssamgöngur eru í boði. Því held ég að sú bylting sem verður með tilkomu Borgarlínu muni fækka þessum slysum. Því þarf að flýta uppbyggingu Borgarlínunnar og annarra almenningssamganga,“ segir Hjalti á Facebook en þar tekur hann saman nokkur atrið sem hann segir nauðsynlegt að leggja áherslu á.

Hann bendir einnig á að flest þessa slysa verða þegar viðkomandi er í glasi. „- Umtalsverður hluti rafskútuslysa verða vegna ölvunar, þar er vandamálið áfengi, ekki rafskútan. Ég sé mörg sem slasa sig af því að ganga niður tröppur undir áhrifum áfengis, það er samt engin ástæða til að banna tröppur,“ segir Hjalti.

Hann bendir einnig á að ólíkt ölvunarakstri þá er sá ölvaði líklegastur til að slasa sjálfan sig í slysi.  „ Ólíkt ölvunarakstri á bíl valda þau sem lenda í slysum á rafskútum sjaldnast áverkum á öðrum. Því er það mín skoðun að ekki sé réttlætanlegt að láta sömu refsingu liggja við ölvunarakstri bíls og að vera ölvaður á rafskútu. Þegar fólk hefur lent í líkamstjóni vegna rangra ákvarðana undir áhrifum áfengis ætti að styðja þau, ekki bæta við refsingu,“ segir Hjalti og heldur áfram að bera rafskúturnar við bíla:

„Ég er sammála því að takmarka hraða á öllum farartækjum þannig að ekki sé hægt að aka þeim hraðar en leyft er á hverjum stað. Hér yrði mesti ávinningurinn af því að hraðatakmarka bílana. Fjöldi banaslysa í umferðinni á Íslandi náði hámarki árið 1977 þegar 33 létust. Síðan þá hefur fjöldi bíla og ekinna kílómetra á ári margfaldast, þrátt fyrir það hefur banaslysum fækkað niður í brot af því sem áður var. Samfélagið lærði á bílinn og þannig náðist slysatíðnin talsvert niður þó hún sé enn há. Hið sama er líklegt að gerist með rafskútur.“

Að lokum bendir hann á bílar valda einna  mestu heilsutjóni. „Samgöngumál þarf alltaf að skoða í víðu samhengi. Sá sem notar bíl veldur sjálfum sér heilsutjóni með hreyfingarleysi en sjálfum sér og öðrum heilsutjóni með loftmengun. Rafskútur eru mun skárri kostur hvað umhverfið varðar. Besti samgöngumátinn er þó að nota almenningssamgöngu og reiðhjól.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí