Marinó G. Njálsson segir að það skjóti verulega skökku að meðan almennir borgarar eru sakaðir um að stunda peningaþvott ef þeir svo mikið sem borga með reiðufé, þá séu opinberar stofnanir jafnvel að hjálpa sumum við þvottinn. Hann bendir á að það sé alveg augljóst að margir auðmenn hafi flutt fé í skattaskjól, sérstaklega eftir hrun. Þann pening þarf raunar að þvo, svo hægt sé að nota hann hér á landi. Marinó segir að fjármálageirinn í heild sinni þurfi að gera hrein fyrir sínum dyrum.
„Frétt birtist í vikunni, þar sem greint var frá því, að Byko hefði verið í fullum rétti að krefja viðskiptavin um nafn og kennitölu vegna kaupa viðskiptavinarins á vörum fyrir meira en 50.000 kr. sem greitt var fyrir með reiðufé. Farið var út í langar skýringar á því hvers vegna það var. Heimildin er enn einu sinni með umfjöllun um flutning einstaklinga á háum fjárhæðum úr skattaskjólum beint inn á reikninga í íslenskum fjármálafyrirtækjum eða óbeint með viðkomu í misvafasömum erlendum fjármálafyrirtækjum. Einskis er spurt um uppruna peninganna, þó öllum megi vera ljóst, að þeir séu ekki tilkomnir vegna fullkomlega heiðarlegra viðskipta,“ skrifar Marinó á Facebook.
Hann minnir á Panamaskjölin, en í þeim voru bæði þáverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra, auk ótal annarra manna. „Panamaskjölin, Pandóruskjölin og hvað þeir eru kallaðir allir þessir lekar, sem hafa leitt í ljós að til landsins hefur verið flutt mismunandi svart fé úr hinum ýmsu skattaskjólum um allan heim, hafa ekki hrist upp í fjármálaeftirliti eða fjármálafyrirtækjum að horfa til mögulegs peningaþvættis. Það er hins vegar þegar hugsanlegur smákrimmi er að mögulega að þvætta 70.000 kr. (eða hver fjárhæðin var) í Byko, sem ferlið fer í gang,“ segir Marinó og bætir við:
„Er ekki að gagnrýna Byko. Langt frá því. En get ekki annað en furðað mig á því, að mjög fá peningaþvættismál hafa verið rannsökuð vegna aðila sem flutt hafa háar upphæðir til Íslands eftir hrun. Sumir fengu meira að segja aðstoð Seðlabankans, sem situr á skýrslu um málið, þar til þau verða öll fyrnd. Seðlabanka, hvers bankastjóri sagði á sínum tíma, að Seðlabankinn félli ekki undir lög um peningaþvætti, eins og það ætti að vera skýring á því að hann tók að sér að þvætta peninga úr skattaskjólum.“
Marinó segist óttast að bankakerfið sé ekkert skárra í dag en það var fyrir hrun. „Ég skora á aðila innan fjármálakerfisins, sem eiga að framfylgja lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, að skoða bækur sínar og tilkynna ÖLL mál til lögreglu (fyrnd eða ekki), þar sem minnsti möguleiki er talinn á peningaþvætti í þeim tilfellum sem upphæðir eru yfir 10 milljónum króna. Gott væri að byrja á síðustu 5 árum og fara svo alveg aftur til ársins 2009. Ég er alls ekki að halda því fram að allar slíkar færslur séu mögulegt peningaþvætti, en samkvæmt lögunum á að tilkynna öll tilfelli, þar sem vafi leikur á uppruna peninganna, þó svo að þeir komi frá aðilum sem ættu að flokkast virtir,“ segir Marinó.
Grunsamlegt sé svo hve sjaldan bankar tilkynni svona mál til lögreglu. „Einhverra hluta vegna, hefur það gerst frekar sjaldan, að stór peningaþvættismál eigi upptök sín í tilkynningum frá fjármálastofnunum, þ.m.t. bönkunum fjórum. Er það svo sem ekkert öðruvísi, en er í öðrum löndum. Fjármálafyrirtæki út um allan heim hagnast mjög mikið á því að aðstoða viðskiptavini sína við að þvætta pening. Allir stærstu bankarnir stjórna fjármálafyrirtækjum í skattaskjólum, eru milligönguaðilar við stofnun skúffufyrirtækja, manna stjórnir þeirra og sjá um fjárfestingar þeirra. Ég reikna með að íslensk fjármálafyrirtæki eru líklega beinir eða óbeinir þátttakendur í slíku. Af hverju ættu þarfir viðskiptavina þeirra að hafa breyst, þó komin sé ný kennitala?,“ spyr Marinó.
„Kominn er tími til, að fjármálageirinn geri hreint fyrir sínum dyrum. Peningum, sem skotið er undan skatti af einstaklingum sem einstaklingum sem eiga sand af seðlum, leggja bara meiri byrðar á aðra landsmenn, eins og byrðar margra séu ekki nógar.“