Lögregla segir „óábyrgt“ að hafa lónið opið, stjórnandi segist fylgja yfirvöldum … og hefur opið

Ljóst er að mörgum þótti bæði hughreystandi og upplýsandi að vita af fundi Almannavarna um stöðu jarðhræringa á Reykjanesi á mánudag. Meðal þeirra sem þökkuðu fyrir fundinn á samfélagsmiðlum var maður að nafni Óskar Grímur, sem skrifaði á vettvangi Facebook-hópsins Jarðsöguvinir: „Fínn fundur hjá „Víði @ Almannavarnir“ 🙂 Það var þó eitt sem mér fannst vera í hrópandi ósamræmi við stöðuna. Er það bara mér sem þykir það skrýtið, að á sama tíma og HS Orka er með lágmarksmönnun í virkjuninni, til þess að auðvelda rýmingu ef til hennar skyldi koma, þá er allt á fullu gasi í Bláa lóninu?“

„Sem fæstir við störf í Svartsengi“

Óskar vísar þar til þess sem í samantekt RÚV frá upplýsingafundi Almannavarna er haft eftir Kristni Harðarsyni, framkvæmdastjóra HS Orku, að atburðurinn hafi þegar mikil áhrif á starfsemi virkjunarinnar í Svartsengi: „Viðbragðið snúist bæði um að tryggja öryggi starfsfólks og starfseminnar. Búið sé að vinna í viðbragðsáætlunum, skilgreina flóttaleiðir, koma fyrir gasmælum og fleira. Þá hafi verkefni verið endurskipulögð þannig að sem fæstir séu við störf í Svartsengi hverju sinni.“

Á sama tíma hefur ekki heyrst af neinum sambærilegum ráðstöfunum í Bláa lóninu, rekstri sem stofnaður var kringum lónið sem myndast úr affallinu frá virkjuninni.

Bláa lónið og Svartsengisvirkjun eru ekki aðeins nálægt hvort öðru heldur sitt hvor hliðin á sama ferlinu: virkjunin og lónið sem myndaðist úr affallinu frá henni.

Lögreglan ræskir sig en fyrirtækið bíður

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í kvöldfréttum RÚV á mánudag að hann liti svo á að það væri „óábyrgt að halda þarna úti starfsemi,“ það er í Bláa lóninu, miðað við núverandi aðstæður. Þó var ekki á honum að skilja að hann sem fulltrúi yfirvalda á svæðinu sæi fyrir sér að gefa fyrirmæli um annað, en um það var hann ekki heldur spurður í þaula.

Á sama tíma má skilja á Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins sjálfs, að hún telji að fyrirtækinu beri ekki skylda til að ganga lengra í öryggisráðstöfunum en stjórnvöld mæla fyrir um. Í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni sagði Helga, aðspurð um ótta starfsfólks við aðstæðurnar: „Við höfum valið að fylgja almannavörnum og yfirvöldum sem leiða þessa vinnu alla saman. Við vitum að þeir munu grípa til ráðstafana ef þurfa þykir.“

Staðan er því sú að lögreglan segir óábyrgt að hafa opið í lóninu án þess að gefa fyrirmæli um að loka því en rekstraraðilar segjast treysta því að lögreglan loki þegar tilefni er til. Ekki hefur komið fram um hvað sú störukeppni snýst en margir hafa leitt að því líkur að hún snúist um ábyrgð á mögulegu tekjutapi ef kemur til lokunar, sem hvorki fyrirtækið né stjórnvöld vilji bera. Vinnustaðurinn er því eftir sem áður fullur af starfsfólki og lónið fullt af gestum. Dag eftir dag leiða fréttamiðlar í ljós að gestirnir hafa ekki verið upplýstir um áhættumat svæðisins – nú síðast kvöldfréttir RÚV á mánudag – og dag eftir dag segist framkvæmdastjóri Bláa lónsins undrandi á því.

„Þekkjum það vel að þurfa að aflýsa“

Eitt fyrirtæki hefur þó ákveðið að draga sig til hlés á þessum vettvangi. Ferðafyrirtækið Kynnisferðir tilkynnti þennan sama mánudag að þau muni hætta ferðum til Bláa lónsins frá og með hádegi í dag, þriðjudag, „af öryggisástæðum,“ og sú ákvörðun standi að minnsta kosti til þriggja daga. „Út af veðrinu á Íslandi þekkjum við það vel að þurfa að aflýsa,“ sagði Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við mbl.is, og mátti á honum skilja að það þætti hvorki honum né viðskiptavinum fyrirtækisins tiltökumál. Miðillinn hafði eftir honum að viðskiptavinir sem eigi bókað næstu daga fái „að sjálfsögðu endurgreitt.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí