Kjarasamningar eru mikilvægasti snertiflötur aðila vinnumarkaðarins og á vettvangi kjaraviðræðna á sér stað yfirgripsmikil greining á vinnumarkaði og samfélaginu. Vel er hægt að bæta þar inn greiningu á þáttum er varða græn umskeipi, enda eru réttlát umskipti á ábyrgð okkar allra.
Á fundinum héldu erindi auk Kolbrúnar, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur í umhverfis- og neytendamálum hjá ASÍ og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir – hagfræðingur hjá BSRB. Fjallað var um hugmyndafræðina sem réttlát umskipti byggja á og hvaða þýðingu þau hafa fyrir íslenskt samfélag, vinnumarkað, efnahag og velferð launafólks. Fundurinn var haldinn í tilefni af og í aðdraganda að þríhliða viðburði norrænna stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar sem haldinn verður í Hörpu 1. desember nk.
Framsögumenn voru á einu máli um að meira þyrfti að koma til í orkuskiptum en ívilnanir til kaupa á rafmagnsbílum. Ekki hafi verið varið nægilega miklu fé til uppbyggingar almenningssamgangna, sem væru mikilvægur liður í sameiginlegum loftlagsmarkmiðum. Þá komu fram þau sjónarmið að fram að þessu hafi athyglinni ekki verið beint nægilega að þeim atvinnugreinum sem losa mest, sjávarútvegi, landbúnaði og álframleiðslu. Samvinnu allra hagaðila þurft til svo hægt sé að tala um réttlát umskipti og ásetningurinn þarf að vera óumdeildur.
Rýna þarf í kjarasamninga með grænum gleraugum
Losun heimila er að mestu í formi útblásturs bifreiða og eins og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB benti á, þá nægir okkur ekki að flokka úrgang heima fyrir og í vinunni til að ná árangri, meira þurfi til. Auður Alfa sagði að halda þyrfti rétt á spilunum því umskipti gætu falið í sér óréttlæti ekki síður en tækifæri. Áhrifin þurfi að vera til góðs fyrir launafólk. Sigríður Ingibjörg ræddi um að stefna stjórnvalda í loftlagsmálum þurfi að fela í sér áform um fjölgun grænna starfa.
Í þessu samhengi benti Kolbrún á að fá þyrfti skýrari aðferðarfræði frá stjórnvöldum varðandi losunarbókhald og útreikning á kolefnisspori fyrir allar stærðir og gerðir atvinnurekstrar. Hún benti einnig á að hægt væri að fara í tilteknar aðgerðir strax, s.s. að hefja formlegt samstarf um réttlát umskipti þó stærri aðgerðir krefjist þróunar og yfirlegu. Verkefni framundan er að innleiða hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar á öllum sviðum og rýna í kjarasamninga með grænum gleraugum.
Frétt af vef BHM.
Hér má sjá viðtal við Kolbrúnu Halldórsdóttur formann BHM og Auði Ölfu Ólafsdóttur við Rauða borðið um réttlát umskipti: