Í september var greint frá því á vef Samherja að Orkusjóður hafi ákveðið að styrkja Samherja um 100 milljónir króna, til að „hanna lausn og breyta ísfisktogara félagsins þannig að skipið geti nýtt grænt rafeldsneyti.“ Orkusjóður er í eigu ríkisins og undir yfirumsjón ráðherra.
Á fimmtudag birtist frétt í namibíska miðlinum The Namibian, þar sem greint er frá þessari styrkveitingu og hún sett í samhengi við þá rannsókn sem stjórnendur fyrirtækisins sæta um spillingu og mútugreiðslur í Namibíu. Þar er tilgreint að styrkurinn sé veittur fyrirtækinu þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld viti af gögnum sem gefa til kynna að Samherji hafi beint um 64 milljónum dala eða um 9 milljörðum íslenskra króna í skattaskjól milli áranna 2011 og 2018.
Rándýrsleg hegðun íslenskra stjórnvalda
Í umfjöllun The Namibian kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi reynt að „skella skuldinni af hneykslismálinu á veikleika Namibíu í að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu.“ Þar kemur einnig fram að McHenry Venaani, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Namibíu, saki íslensk stjórnvöld um „rándýrslega“ hegðun. Venaani hyggst vara forsætisráðherra Íslands við áframhaldandi stuðningi við Samherja. „Þau verða að koma í veg fyrir að þetta fyrirtæki komist í sjóði, jafnvel í sínu eigin landi. Ég mun skrifa forsætisráðherranum og fara fram á að Samherji greiði sanngirnisbætur til íbúa Namibíu, sem urðu fyrir fjárhagstjóni af völdum Fishrot-máins, og að Ísland verði að gera sitt til að draga þetta fólk til ábyrgðar,“ hefur miðillinn eftir Venaani.
Í fréttinni er haft eftir Herbert Jauch, sérfræðingi á sviði verkalýðsmála, að framkoma íslenskra stjórnvalda við Samherja veki efasemdir um hvort stjórnendur fyrirtækisins verði framseldir til Namibíu. „Þetta er skýrt merki um að íslensk stjórnvöld taka Fishrot-skandalinn ekki mjög alvarlega … enginn hefur verið handtekinn á Íslandi,“ sagði Jauch.
Íslenska ríkið gjafmilt við stórfyrirtæki
Í fréttinni er vísað til gagnrýni Atla Þórs Fanndal, framkvæmdastjóra samtakanna Transparency International, á styrkveitinguna. „Þetta er svolítið smekklaust,“ er þar haft eftir Atla, „baráttan við loftslagsbreytingar er samofin baráttunni gegn spillingu. Frá þeim sjónarhóli mun stefna sem heldur áfram að dæla milljónum til ríkasta fólks á Íslandi, þar á meðal Samherja … ekki gefa merki um nokkurs konar samfélagsbreytingar í þágu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.“
Þar er einnig vísað í umfjöllun ýmissa íslenskra fjölmiðla um spillingarmál Samherja, meðal annars umfjöllun Stundarinnar, Vísis og Samstöðvarinnar, en í frétt Samstöðvarinnar í september var greint frá því að stjórnvöld hefðu alls veitt 928 milljónir króna af almannafé í styrki úr Orkusjóði, að mestu leyti til stórfyrirtækja sem ættu að geta staðið straum af kostnaði sínum sjálf. The Namibian tilgreinir, úr umfjöllun Samstöðvarinnar, að veglegir styrkir úr sjóðnum hafi, auk Samherja, meðal annars verið veittir Ísfélagi Vestmannaeyja, Arnarlax, Orkunni og Ölgerðinni.
Stjórnendur óínáanlegir
Netumbo Nandi-Ndaitwah, ráðherra alþjóðasamstarfs í Namibíu, og Paulus Noa, forstöðumaður andspillingarnefndar landsins, sögðust ekki hafa séð fréttir af styrkveitingu stjórnvalda til Samherja og gætu því ekki látið hafa neitt eftir sér um málið enn.
The Namibian hafði samband við fulltrúa Samherja í leit að viðbrögðum 31. október og aftur 2. nóvember. Þegar frétt miðilsins birtist á fimmtudag hafði fyrirtækið ekki svarað.