Reykjavíkurborg og Kópavogur dæmdu menningarverðmæti til glötunar: „Algert virðingarleysi“

„Hinn 1. október sl. gengu í gildi sögulegar reglur um eyðingu (grisjun) skjala settar af Hrefnu Róbertsdóttur þjóðskjalaverði. Þar sem afleiðingarnar eru víðtækar og ískyggilegar hefur verið reynt að draga fjöður yfir alvöru málsins með því að leggja áherslu á það í málflutningi Þjóðskjalasafns að þetta sé aðeins heimild, ekki skylda.“

Þetta skrifar Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður í Kópavogi, en hann fullyrðir að þetta sé víðtækasta eyðingarheimild sem gefin hefur verið um opinber skjöl á Íslandi til þessa. Hann fer yfir málið í löngu máli í pistli sem má lesa í heild sinni hér. Hrafn segir að með þessari reglu sé meira en helmingur opinberra skjala dæmdur til eyðingar.

„Áætlanir Þjóðskjalasafns nú um yfirtöku safngagna Borgarskjalasafns og Héraðsskjalasafns Kópavogs gera ráð fyrir eyðingu opinberra skjala sem hafa verið tekin þar til vörslu með hliðsjón af þeim reglum sem hér er um fjallað. Umfang opinberra bókhaldsskjala í vörslu opinberra skjalasafna verði minnkað, þannig að verkefnið, að gleypa héraðsskjalasöfnin, verði viðráðanlegra,“ segir Hrafn.

Síðastliðinn mars ákvað meirihlutinn í Reykjavík að leggja niður Borgarskjalasafnið en talað var um að stærstur hluti verkefna þess myndi flytjast til Þjóðskjalasafns Íslands. Meirihlutinn í Kópavógi ákvað svo að fylgja fordæmi meirihlutans í Reykjavík. Hrafn segir að með þessu hafi meirihlutarnir tveir í raun dæmt skjöl safnanna til glötunnar.

„Hugmyndin er að skilja hreinlega eftir einkaskjöl, sem Borgarskjalasafni og Héraðsskjalasafni Kópavogs hefur verið trúað fyrir af einstaklingum og félagasamtökum á svæðum þeirra, í höndum óskilgreindra stofnana sem hafa ekki opinbera skjalavörslu að hlutverki og ekki á að skipa starfsfólki með þjálfun til hennar. Ástæðan er e.t.v. sú að ólíklegt má telja að hægt verði að gera Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ skylt að greiða meðgjöf með einkaskjalasöfnum til langtímavörslu í Þjóðskjalasafni, en þau taka rými. Þannig sýna bæði sveitarfélögin og Þjóðskjalasafn þessum menningarverðmætum algert virðingarleysi og dæma þau til glötunar með því að láta þau hægt og rólega hverfa í óskilgreindum stofnunum sem ekki hafa á að skipa sérhæfðum skjalavörðum,“ segir Hrafn.

Að lokum bendir Hrafn á að þessi skjöl séu mikilvægari en margir gera sér grein fyrir. „Einkaskjalasöfn íbúa Reykjavíkur og Kópavogs eru lent í óvissu, aðgengi skattgreiðenda að skjölum um ráðstöfun opinbers fjár takmarkast af eyðingu og um leið er mikilvægum heimildum til íslenskrar hagsögu fargað. Nærþjónusta Borgarskjalasafns og Héraðsskjalasafns Kópavogs leggst af og útlit er fyrir að heimildir til sögu þessara sveitarfélaga muni glatast þ.e. einkaskjalasöfnin og fjárhagsbókhaldið. Allt til þess að Þjóðskjalasafnið fái hús. Það verður þá dýru verði keypt. Tilgangur opinberrar skjalavörslu á Íslandi er orðinn húsnæðismál Þjóðskjalasafns, fremur en réttindi borgaranna, hagur stjórnsýslunnar og varðveisla sögu íslensku þjóðarinnar.“

Hér má lesa pistil Hrafns í heild sinni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí