Samtök atvinnulífsins ferðast nú um landið og hvert sem þau líta sjá þau bara sjálf sig, ef marka má fréttatilkynningu sem þau létu frá sér í dag, fimmtudag. „Hringferð SA hefur farið af stað af miklum krafti og hafa samtökin þegar komið víða við.“ Nefna þau Selfoss, Reykjanesbæ, Egilsstaði og Ísafjörð, Borgarnes og Reykjavík meðal þeirra viðkomustaði sem samtökin hafa þegar heimsótt.
Á hverjum stað hafa samtökin haldið það sem þau kalla „opna vinnufundi“. Þau segja þá hafa verið vel sótta og „mikinn samhljóm“ á meðal gesta „um þær áskoranir sem framundan eru og leiðirnar fram á við.“
Þá greina samtökin frá því í hverju þessi samhljómur hefur falist. Efst á blaði: „Einhugur hefur verið um að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja til langs tíma og innan svigrúms með það að markmiði að verja kaupmátt. Þá telur fólk almennt mikilvægt að hið opinbera leiði ekki launaþróun eða setji atvinnulífinu of þröngar skorður með íþyngjandi regluverki.“
Að hið opinbera leiði ekki launaþróun og lágmarki regluverk eru hvort tveggja mjög hefðbundnar hugmyndir viðskiptalífsins um æskilega samfélagsgerð. Slíkar hugmyndir hafa þó notið sífellt minnkandi fylgis meðal almennings á undanliðnum árum, eins og má meðal annars sjá á nýlegum skoðanakönnunum. Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið fulltrúi þessara hugmynda á vettvangi stjórnmálanna, nýtur nú um 18% fylgis. Ef kjósendum Viðreisnar er bætt við má ætla að um fjórði hver kjósandi í landinu sé að einhverju leyti hlynntur þessum hugmyndum. Að Samtök atvinnulífsins hafi á ferð sinni um landið aðeins hitt fyrir fólk sem er á þessari skoðun væri furðuleg hending.