Fjármunir hjálparsamtakanna Solaris eru á þrotum, eftir linnulausa neyðaraðstoð við heimilislaust flóttafólk á Íslandi frá gildistöku breytinga á útlendingalögum síðasta sumar. Samtökin hafa því þurft „að stöðva alla þá neyðaraðstoð sem við höfum veitt einstaklingum í þessari stöðu.“ Þetta kemur fram í tilkynningu sem Sema Erla Serdaroglu, formaður samtakanna, lét frá sér á Facebook á miðvikudagskvöld. Þar segir ennfremur: „Allir neyðarsjóðir sem samtökin hafa byggt upp frá árinu 2017 eru nú tómir.“
Sema Erla lýsir neyðaraðstoð samtakanna með stuttri samantekt: „Síðustu mánuði hafa sjálfboðaliðar Solaris lagt af höndum ómælda vinnu við að aðstoða heimilislaust flóttafólk á Íslandi, tekið á móti símtölum og skilaboðum á öllum tímum sólarhrings, gengið inn í átakanlegar og sorglegar aðstæður, sótt fólk í erfiðar aðstæður, dag og nótt, og komið þeim í öruggt húsnæði, fylgt fólki á heilbrigðisstofnanir, séð fólki fyrir mat og öðrum nauðsynjavörum og í raun unnið vinnu sem er langt út fyrir verksvið samtakanna, en var nauðsynleg í þeim fordæmalausu og skelfilegu aðstæðum sem aðgerðir stjórnvalda hafa búið til.“
Af tilkynningunni er ljóst að þessi verkefni hafa þurrausið samtökin, bæði í fjárhagslegum skilningi og öðrum. Sema skrifar: „Viðbrögð við aðgerðum stjórnvalda síðustu mánuði hefur einnig áhrif á önnur verkefni samtakanna og við getum ekki haldið áfram að aðstoða flóttafólk eins og við höfum gert, td. með greiðslum fyrir lögfræðiþjónustu, heilbrigðisþjónustu og aðra nauðsynlega þjónustu. Þetta þýðir í raun að við getum ekki haldið úti grunnstarfsemi samtakanna að óbreyttu.“
Sema nefnir sérstaklega þá hefð sem hafi skapast undanfarin ár, „að Solaris gefi vetrargjafir til barna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi og bíða úrlausnar sinna mála.“ Sjálfboðaliðar samtakanna hafa, segir hún, safnað framlögum, keypt, pakkað og dreift gjöfunum. „Vegna aðstæðna sem við stöndum nú frammi fyrir geta samtökin ekki sinnt því verkefni þetta árið. Sú ákvörðun er mjög þungbær og sár.“
Sema segist ekki tilbúin að gefa upp vonina um að samtökin geti starfað áfram og bendir í tilkynningunni á valkosti fyrir þau sem vilja styrkja samtökin.