Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir að hann muni ekki virða niðurstöður alþjóðlegra dómstóla, þegar kemur að því að senda flóttafólk úr landi og til Rúanda. Hæstiréttur í Bretlandi úrskurðaði í síðasta mánuði að Rúanda áætlun breskra stjórnvalda stæðist hvorki bresk lög né alþjóðalög.
Rúanda áætlunin er stefna í málefnum flóttafólks í Bretlandi sem breska ríkisstjórnin lagði fram í apríl 2022. Hún gengur út á að fólk sem talið er ólöglegir innflytjendur en einnig hælisleitendur, verði sent til Rúanda í Afríku, í flóttamannabúðir þar sem það umsóknir þess verði metnar og þeim mögulega veitt þar hæli. Fólki sem fengi vernd samþykkta yrði að dveljast áfram í Rúanda og yrði óheimilt að koma að nýju til Bretlands.
Hæstiréttur Bretlands heimilaði áætlunina og til stóð að senda flóttafólk úr landi þegar í júní 2022. Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði hins vegar til bráðabirgða gegn Rúanda áætluninni og því varð ekkert úr brottflutningnum. Áætluninni hefur því enn ekki verið hrint í framkvæmd.
„Ég mun ekki láta erlenda dómstóla koma í veg fyrir að við setjum fólk upp í flugvélar og sendum það til Rúanda,“ sagði Sunak við LBC útvarpsstöðina í dag. Var það svar við spurningu um hvort að Íhaldsflokkurinn hefði íhugað möguleikann á að segja sig frá Mannréttindadómstólnum.
Sunak sagði að hann hefði nálgast málið með mjög sanngjörnum hætti. “Við höfum samþykkt ný lög í þinginu, við höfum tekið tillit til athugasemda allra, en á þessum tímapunkti er nóg komið,” sagði forsætisráðherrann.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst því að hún sé eindregið andvíg Rúanda áætluninni, hún sé lögbrot, byggð á fordómum og óframkvæmanleg.