Um 200 manns brottvísað frá Íslandi til Venesúela, sökuð um landráð við lendingu

Með skírskotun til þeirra Evrópulanda sem reka nú harðasta stefnu gegn flóttafólki, landa á við Danmörku og Bretland, hafa íslensk stjórnvöld hafið rassíu brottvísana flóttafólks frá Venesúela, sem þau áður buðu sérstaklega velkomin til landsins.

Í íslenskum fjölmiðlum hefur verið greint frá því að á miðvikudag haf flugvél flogið frá Íslandi til Venesúela, á vegum íslenskra stjórnvalda, með 180 umsækjendur um alþjóðlega vernd innanborðs, sem hér hefur verið synjað um vernd og nú brottvísað til upprunalands. Í umfjöllun venesúelska fréttamiðilsins Efecto Cocuyo er sagt að fjöldi brottvísaðra um borð í vélinni hafi verið yfir 200.

Þar kemur fram að eftir lendingu á Simón Bolívar flugvellinum, vestur af höfuðborginni Karakas, hafi stjórnvöld gert vegabréf farþeganna upptæk og neytt þau til að undirrita bréf þar sem þau eru sökuð um landráð. Ekki kemur fram í fréttinni hvers konar skjal var þar um að ræða, ákæru eða yfirlýsingu af öðrum toga. Þá er ekki ljóst hvort allir farþegar vélarinnar voru látnir undirrita slíkt skjal eða aðeins tiltekinn hópur meðal þeirra. Landráð teljast alvarlegur glæpur í hegningarlögum flestra landa, þó að sjaldan reyni á þau ákvæði á friðartímum. Svo er til dæmis á Íslandi, þar sem hörð refsing er lögð við landráðum, allt að ævilöngu fangelsi.

Eftir undirritun skjalsins var, að sögn miðilsins, fólkið fært til búða að nafni Misión Negra Hipólita, þar sem stjórnvöld hýsa þau fyrst um sinn.

Brottvísanirnar nú eru almennt séð afleiðing af hertri stefnu íslenskra stjórnvalda gegn umsækjendum um vernd, en í samhengi Venesúela sérstaklega urðu tímamót með úrskurði kærunefndar útlendingamála í september síðastliðnum, um að heimilt væri að synja fólki þaðan um alþjóðlega vernd hér á landi. Samkvæmt Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, þýðir úrskurðurinn að líklega verði um 1.500 manns frá Venesúela brottvísað frá Íslandi á næstunni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí