„Hnífurinn stendur hvergi í kúnni“ – ráðherra almannavarna svarar fyrir ákvarðanafælni

Á miðvikudag ræddu þáttastjórnendur Reykjavík síðdegis, á Bylgjunni, við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, og gáfu henni færi á að svara ávirðingum í garð stjórnvalda í samhengi við yfirstandandi náttúruvá á Reykjanesi.

Það var um hádegisbil sama dag sem, Þetta helst, fréttaskýringaþáttur Rásar 1, flutti viðtal við Ármann Höskuldsson, prófessor í jarðfræði við HÍ, þar sem hann sagði að ef hann réði væri búið að lýsa yfir hættustigi vegna jarðhræringanna á Reykjanesi og vinna hafin að gerð varnargarða. Ármann bætti því við að sér þættu viðbrögð stjórnvalda einkennast af ákvarðanafælni og upplýsingaóreiðu.

Það mátti skilja á ráðherranum að þar væri ekki við stjórnvöld að sakast heldur náttúruöflin:

„Það er eins og með náttúruna, hún er óútreiknanleg,“ sagði ráðherrann. „Við vitum ekki hvort að verði gos eða ekki. Við vitum ekki hvar mun gjósa. Við vitum að það er líka kvikusöfnun í Fagradalsfjalli og þar undir. Það gæti þýtt að við gætum hugsanlega verið með eldgos þá kannski á tveimur stöðum. Við vitum að það var ris í Öskjugígnum í sumar, hann gæti farið af stað. Það er beðið eftir Kötlugosi.“

Þjóðaröryggisráð fundaði á miðvikudagsmorgun

Framangreind ummæli lét ráðherra falla undir lok viðtalsins, sem hófst þó á einfaldri spurningu: Er ákvarðanafælni hjá ykkur varðandi varnargarða, spurði þáttastjórnandi, er þetta eitthvað sem ætti að fara að skoða strax, svona miðað við hagsmunina sem þarna eru í húfi?

„Nei,“ svaraði ráðherrann. „Það er engin ákvarðanafælni í kerfinu nema síður sé.“ Eftir að reifa að „við erum á óvissustigi,“ að gríðarleg vinna hefði þegar átt sér stað, og margir hefðu komið að henni: „stjórnvöld, ríkislögreglustjóri, almannavarnir, fyrirtækin á svæðinu, sveitarfélögin, ríkisstjórnin – það eru allir að vinna,“ sagðist ráðherrann hlusta á okkar færustu sérfræðinga, sem í þessu tilfelli væru „sérfræðingar á veðurstofu Íslands, sem að veita Almannavörnum upplýsingar.“ Um leið og Almannavarnir færa mat sitt af óvissustigi á neyðarstig, sagði ráðherrann, „þá virkjum við samhæfingarmiðstöðina. Við höfum ekki virkjað hana ennþá, því eins og ég sagði þá erum við á óvissustigi.“

Þá nefndi ráðherrann að Þjóðaröryggisráð hefði fundað að morgni þessa miðvikudags, „þar sem að fulltrúar almannavarna, veðurstofunnar og frá verkfræðistofunni VERKÍS komu til fundar og við fórum mjög vel yfir málin.“

„Nokkur sjónarmið varðandi varnargarða“

„Það hafa verið nokkur sjónarmið varðandi varnargarða,“ sagði ráðherrann loks, og virtist þar vísa til fundar Þjóðaröryggisráðs.

– Hvaða helst? spurði þáttastjórnandi.

„Þá er það helst hvar eigi að setja þá. Og ef að einhver vísar til ákvarðanafælni þá vísa ég því á bug. En það er mikilvægt að vera með mjög nákvæmar og góðar upplýsingar um það hvar eigi að setja þessa garða áður en við hefjum það verk, því að við viljum náttúrlega alls ekki …“

Þáttastjórnandi greip hér fram í fyrir ráðherranum og spurði:

– Sko, það sem mér finnst kannski pínu skrítið í þessu öllu saman er að það er alveg rúmlega ár síðan þetta teymi frá VERKÍS var kallað út, sérfræðingar voru fengnir til að gera plön, og þá tala þeir um það að þetta séu forvarnaraðgerðir, það standi til að byggja þessa garða fyrir atburði en ekki í miðjum atburði. Þar segja þeir: „Það er mikill greinarmunur þar á, þá er hægt að vinna með þessa varnargarði út frá betra efni, keyra að betra efni, og hægt að þjappa það betur þannig að það verði sterkbyggðari mannvirki.“ En nú erum við bara mögulega mjög nálægt atburði.

Ráðherra svaraði: „Við vitum það ekki.“

– Nei, það er þessi óvissa, ítrekaði þáttastjórnandi.

„Það er þessi óvissa,“ staðfesti ráðherrann. „Við erum á óvissustigi.“

– Já en þarna er verið að tala um forvarnaraðgerðir. Af hverju er ekki farið í forvarnaraðgerðir?

Ráðherrann dró seiminn og sagði: „Já …“

– Af hverju er verið að bíða eftir að hættustigi er lýst yfir? spurði þáttastjórnandi.

Búið að telja vinnuvélar á suðvesturhorninu

„Við erum … við erum ekki að bíða eftir því,“ sagði ráðherra. „En við getum, eins og ég sagði, við getum ekki hafið þessa vinnu nema að mjög vel ígrunduðu máli og það að það sé búin að eiga sér stað mikil reiknivinna. Hún er til. Við vitum hvað við þurfum mikið efni. Það er búið að kortlegga núna allar vinnuvélar hér á suðvesturhorninu. Hvað þær eru margar og það er búið að hafa samband við eigendur tækja.“

– Hvað eru þetta margar vélar?

„Þetta eru nokkur hundruð vélar,“ svaraði ráðherra.

– En eftir hverju er þá verið að bíða? Ef þetta er allt tilbúið og við erum að tala um að fyrir ári síðan, þá var þessi vinna gerð og lögð fram. Eftir hverju er verið að bíða?

„Við erum að bíða … við erum náttúrlega ekkert að bíða eftir neinu,“ leiðrétti ráðherrann sjálfa sig.

– En af hverju er þá ekki farið af stað?

„… erum komin inn í mjög virkt tímabil jarðelda“

Hóf þá ráðherrann aftur tal sem virðist ekki fráleitt að lýsa sem upplýsingaóreiðu:

„Þetta, eins og ég sagði, þetta eru framkvæmdir sem að verða óafturkræfar. Og þær verða að vera á réttum stað. Við viljum heldur ekki lenda í því að vera búin að reisa einhvern varnargarð sem gæti hugsanlega valdið skaða, en það er verið að horfa á það núna. Varnargarða í kringum virkjunina í Svartsengi. Og hugsanlega varnargarð norðan við Grindavík eða norðvestan við Grindavík. En við erum auðvitað að horfa á það að við þurfum að verja samfélagslega mikilvæga innviði. Og það er athafnaskylda, líka, hjá almannavörnum, eins og þú segir réttilega, að hindra tjón. Við erum aftur á móti, þegar við horfum líka til þess að byggja varnargarða eða svona mannvirki, að þá erum við að horfa til þess að við erum að fara, líklega, og erum komin inn, í mjög virkt tímabil jarðelda á Reykjanesi. Jarðskjálfta og jarðelda sem hugsanlega gætu hlaupið á tugum ára eða hundruðum ára. Og þá þurfum við að vanda vitaskuld mjög vel þá vinnu.“

Þáttastjórnandi lét ráðherrann ekki slá sig út af laginu og ítrekaði spurninguna: – Hvenær vitum við hvar á að byggja þessa varnargarða? Vegna þess að nú vitum við, nú eru skýr merki um það hvar þenslan er og þetta er ofboðslega nálægt meiriháttar mannvirkjum og bara húsum fólks. Þannig að, hvað þurfum við að vita meira til þess að geta ákveðið hvar á að byggja garðana?

Annar þáttastjórnandi bætti við, að virtist í kaldhæðni: Er þá ekki bara næsta skref að sjá hvar gýs og bregðast við því? Þegar gos er skollið á?

Aftur dró ráðherra seiminn: „Neei … ekki endilega. Við erum að skoða þetta núna. Ég minni á það að þetta er fimmta kvikusöfnunin, svona, á þessum slóðum. Og sem betur fer þá hefur kvika ekki komið þarna upp. Við erum búin að vera að horfa líka á svona kvikusöfnun níu sinnum frá árinu 2000 en það hafa orðið þrjú eldgos. Þannig að …“

„Nei. Nei. Nei. Nei.“

Til að glöggva sig á þýðingu þessarar talningar spurði þáttastjórnandi: Eru þá minni líkur eða meiri á að það gjósi núna?

„Ég treysti mér alls ekki til að fullyrða neitt um það,“ svaraði ráðherrann. Og bætti við: „Og og en. Það sem ég er að segja er það að við erum á virku svæði. Við erum komin inn í virkt eldfjallaumhverfi þarna. Við megum búast við eldsumbrotum næstu áratugina. Og vitaskuld þurfum við að horfa til þess tíma, við þurfum að horfa núna áratugi fram í tímann, hvernig við ætlum að bregðast við þeim breytta veruleika. Hvernig við ætlum að verja nauðsynlega innviði og samfélagslega mikilvæga innviði, til þess að tryggja að það verði ekki alvarlegt tjón, hvorki líkamstjón né tjón á mikilvægum mannvirkjum.“

Öll þessi orð og enn ekkert svar. Þáttastjórnandi reyndi að koma úr annarri átt að málinu og sagði: En mig langar aðeins að spyrja sko, hvar … eru það sérfræðingar sem eru að ráðleggja ykkur að setja ekki upp þessa varnargarða strax eða er þetta pólitískt?

„Nei,“ sagði ráðherrann.

– Er það pólitíkin … hélt þáttastjórnandinn áfram.

„Nei,“ endurtók ráðherra.

– … sem á eftir að …

„Nei,“ sagði hún í þriðja sinn.

… taka ákvörðun um það.

„Nei,“ sagði ráðherra enn einu sinni.

Þáttastjórnandi lauk eftir sem áður við spurninguna:

– Ertu bara að bíða eftir grænu ljósi frá sérfræðingum eða … af því að maður veltir fyrir sér: er hægt að byrja eftir að gosið er? Nú bendir hann á líka, Ármann Höskuldsson, hann vill meina að þetta verði miklu – ef það fer að gjósa þarna miðað við bara það sem þeir vita í dag – þá verði þetta miklu meira gos og miklu meira hraun, á miklu meiri hraða, sem kemur upp þarna í byrjun. Þannig að maður svona veltir fyrir sér eftir hverju er verið að bíða. Enn og aftur, við erum náttúrlega búin að spyrja margoft en ég … hvar stendur hnífurinn í kúnni?

Þrívíddarlíkan af mögulegum varnargörðum, sem Almannavarnir deildu með fjölmiðlum á miðvikudag.

„Við myndum ýta þarna upp litlum fjöllum“

Ráðherra var ekki af baki dottin og svaraði skelegg: „Hnífurinn stendur hvergi í kúnni.“ Og útskýrði aftur hvað tefur þetta verk sem hún segir þó engar tafir á:

„En hann … þetta snýst um það að við vöndum vel til verka til þess að ef að við förum í svona stórtækar aðgerðir, að þær haldi og þær verði öruggar og þær verði góðar. Við, eins og ég sagði áðan, þá eru okkar færustu sérfræðingar, bæði að fylgjast með stöðu mála, hvar hugsanlega kvika komi upp, og við erum þá að reyna að meta það hvar væri þá best – líka með tilliti til þess hvernig landslagið er – hvernig yrði þá mögulegt hraunflæði, og hvar yrði þá árangursríkast að setja svona varnargarða. Og ég vil líka bara benda á það að þetta, þetta eru mikil mannvirki. Þau munu sjást víða að. Þetta … við myndum ýta þarna upp litlum fjöllum. Þannig að það eru óafturkræfar aðgerðir sem við færum þarna í. Og … þannig að við erum að horfa á þetta með okkar færustu sérfræðingum, það er verið að reikna út hvar væri best að staðsetja þetta og þá einnig hvenær ætti þá að hefja þessa vinnu. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það að hefja þessa vinnu.“

– Hvernig finnst þér umræðan vera? spurði nú þáttastjórnandi og bætti við: Nú tala vísindamenn sumir í kross …

„Umræðan er bara um margt ágæt,“ svaraði ráðherrann. „Ég sem yfirmaður almannavarna, ég verð að hlusta á þá sérfræðinga sem eru að vinna fyrir okkur, sem eru sérfræðingar veðurstofunnar. Þeir eru framúrskarandi, starfsfólk almannavarna er framúrskarandi, og ég ber fullt traust til allra þeirra sem eru að vinna núna allan sólarhringinn, eru að vakta okkar kerfi, frá mínútu til mínútu, klukkustundar til klukkustundar og eru vakin og sofin allan sólarhringinn. Í litlu landi eins og okkar, þá eigum við oft á tíðum ekki marga sérfræðinga í hverri grein. Við eigum þónokkuð marga sérfræðinga í eldfjöllum og jarðfræði. Það er eins og með náttúruna, hún er óútreiknanleg.“

Ættingjar ráðherrans og óþörf fyrirhyggja þeirra um 1980

Og þar hófst lokaeintal þessa stutta þáttar. Fyrst vék ráðherrann nánar að óútreiknanleika náttúrunnar, sem vitnað var til í upphafi þessarar samantektar. Beint í kjölfar þeirra orða vísaði ráðherrann til óþarfrar fyrirhyggju ættingja sinna:

„Ég man sérstaklega eftir því svona í kringum 1980. Það voru ættingjar mínir sem þá, 1980, pökkuðu niður öllum styttum og tóku niður allar myndir af veggjum því það átti ekkert að skemmast á því heimili í Suðurlandsskjálfta sem kom síðan ekki fyrr en 2008. Þannig að við megum bara ekki vera hrædd.“

Þannig virtist ráðherrann vilja undirstrika mikilvægi þess að bregðast ekki of fljótt við. Beint í kjölfarið hvatti ráðherrann hins vegar alla íbúa landsins til að vera stöðugt á varðbergi gagnvart náttúruöflunum, enda væru hættur landsins margar:

„Við eigum að undirbúa okkur vel. Ég ætla að hvetja bara öll heimili á Íslandi, alveg sama hvar, að fara með reglubundnum hætti yfir heimili sín – það er mikilvægt núna, þegar er að ganga vetur í garð að til dæmis við vitum það að við erum með snjóflóðasvæði á Íslandi, við erum núna með svæði þar sem geta orðið alvarlegar aurskriður, það geta komið mjög válynd veður, jarðskjálftar, eldgos og annað. Þannig að hver einasti Íslendingur á að vera undir það búinn að geta tekist á við svona alvarlegar náttúruógnir og hérna … þannig að við eigum að yfirfara heimilin okkar og gera hvað við getum til þess að vera vel undirbúin.“

Til að snúa aftur að ætluðu viðfangsefni viðtalsins bætti loks ráðherrann við: „Og það erum við búin að vera að gera á Reykjanesi, í samvinnu þá – ríkisvaldið – í samvinnu við sveitarfélögin, ríkislögreglustjóra, almannavarnir, fyrirtækin á svæðinu og svo framvegis.“

Framkvæmdin tæki einhverjar vikur

Að þeirri upptalningu lokinni átti þáttastjórnandi þó eina tilraun enn uppi í erminni til að kría svar út úr ráðherranum:

– Hvað tekur langan tíma að byggja þessa varnargarða, svona út frá þeim plönum sem hafa verið gerð?

Ráðherrann reyndi að vísa spurningunni á bug: „Ég treysti mér ekki til að fullyrða um það. Það fer algjörlega eftir lengd þeirra, hvað við ætlum að fara langt.“

– En svona um það bil, innan einhvers ramma? þráaðist stjórnandinn við.

„Það … það verða hugsanlega einhverjar vikur. Þetta er, þetta er mjög mikil framkvæmd. Þetta er mjög mikil framkvæmd.“

– Komumst ekki lengra, sagði loks annar þáttastjórnenda og þakkaði ráðherranum fyrir komuna. Gangi ykkur vel, sagði hinn. Takk, sagði ráðherrann.

Viðtalið allt, í Reykjavík síðdegis.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí