Viðreisn leikur eftir Kanada: Alþingi fæst við tvær ályktanir um Gasa

Alþingi hefur nú stillt upp í mögulegan endurflutning á verkinu sem var frumflutt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir skemmstu, um orðalag til fordæmingar á hernaðaraðgerðum Ísraelshers á Gasa. Á mánudag lögðu þingmenn fjögurra flokka fyrir þingið „Tillögu til þingsályktunar um að fordæma aðgerðir Ísraelshers í Palestínu og kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum.“ ÞIngmennirnir að baki þessari tillögu tilheyra þingflokkum Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins auk tveggja þingmanna úr röðum Vinstri grænna. Ályktunin sem þar er borin undir þingið yrði svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að fordæma árásir Ísraelshers á óbreytta borgara, sjúkrahús, skóla og aðra borgaralega innviði í Palestínu sem hófust 7. október 2023 í kjölfar árása Hamas-samtakanna á ísraelska borgara. Alþingi ályktar einnig að fela utanríkisráðherra að kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum til þess að koma megi neyðarvistum og læknisaðstoð til íbúa Gaza og í framhaldinu stöðva átök á svæðinu, í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna frá 26. október 2023.“

Tillögu að þessari ályktun var útbýtt til þingmanna á mánudag en umræður um hana hafa enn ekki farið fram, að morgni miðvikudags.

Tillaga 2: Fordæma árásir Hamas og Ísraels

Daginn eftir, á þriðjudag, var útbýtt annarri tillögu til þingsályktunar um sama efni – eða þar um bil. Fyrir þeirri tillögu eru skrifaðir allir fimm þingmenn Viðreisnar. Hún ber yfirskriftina „Tillaga til þingsályktunar um að fordæma hryðjuverkaárásir Hamas í Ísrael og árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum í Palestínu.“ Þegar má vera ljóst í hverju munurinn á tillögunum felst: í fyrri tillögunni eru aðeins fordæmdar aðgerðir Ísralshers, í seinni tillögunni eru hryðjuverkaárásir Hamas nefndar og fordæmdar fyrst, síðan árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum. Tillagan í heild er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fordæma hryðjuverkaárásir Hamas á almenna borgara í Ísrael sem hófust 7. október 2023 og árásir Ísraelshers gegn almennum borgurum og á borgaralega innviði á Gasaströndinni í kjölfarið. Réttur Ísraels til að verja sig er ótvíræður en ekki takmarkalaus. Alþingi kallar eftir tafarlausu mannúðarhléi svo að unnt sé að tryggja flutningsleiðir fyrir neyðarvistir og aðra mannúðaraðstoð til Gasa. Alþingi krefst einnig tafarlausrar og skilyrðislausrar lausnar á gíslum sem eru í haldi Hamas. Þá ályktar Alþingi að Ísland beiti sér fyrir því að alþjóðalög og mannréttindi séu virt og þrýsti á að lausn verði fundin á þeim átökum sem nú geisa svo að almennir borgarar í ríkjunum geti búið við frið frá ofbeldi og átökum.“

Eins og sést er sá munur einnig á tillögunum að sú fyrri felur í sér ákall eftir vopnahléi „til þess að … í framhaldinu megi stöðva átök á svæðinu“ en síðari tillagan kallar aðeins eftir „tafarlausu mannúðarhléi“ til að tryggja megi neyðarvistir og mannúðaraðstoð, ekki að átök verði stöðvuð. Um þau efni lætur síðari tillagan nægja að „þrýst verði á að lausn verði fundin.“

Eins og Jórdanía og Kanada

Eins og getið er í greinargerð síðari tillögunnar, þeirrar af hægri vængnum, er hún að miklu leyti í samræmi við breytingatillöguna sem Kanada gerði við tillögu Jórdana um ályktunina sem Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna kaus um þann 27. október sl., þegar Ísland ákvað að endingu að sitja hjá.

Þessa samsvörun áréttaði Sigmar Guðmundsson í ræðu sem hann flutti í umræðum um störf þingsins á þriðjudag, þar sem hann sagði: „Þessi þingsályktunartillaga er efnislega samhljóða breytingartillögu Kanada sem lögð var fyrir á þingi Sameinuðu þjóðanna á dögunum.“ Sigmar sagði að tillaga Kanada hefði sameinað „alla okkar helstu bandamenn“ og eins ætti tillaga Viðreisnar „að geta orðið til þess að allir þingmenn á Alþingi Ísledinga sameinist í því sem er rétt að gera og sem allar vinaþjóðir okkar stóðu saman að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna“ enda skipti mjög miklu máli „að þjóð eins og okkar tali einum rómi.“

Liggur vonin í nefnd?

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, tók til máls í sömu umræðum á þriðjudag og sagði báðar tillögurnar ágætar og hann myndi treysta sér til að greiða þeim báðum atkvæði sitt, en ekki væri víst að allir yrðu tilbúnir til þess. Því væri rétt, að hans mati, „að utanríkismálanefnd taki málið í sínar hendur, skoði að sameina tillögurnar í eina og klári þannig að sómi sé að.“

Umræður um störf þingsins snúast um eitt og annað, nokkrir þingmenn tóku til máls og ræddu aðra hluti, þar til Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG og einn flutningsmanna fyrri tillögunnar, beindi talinu aftur að stöðunni á Gasa. Hún ræddi ekki þingsályktunartillögurnar sem slíkar, en sagði: „Ísland á og verður að beita öllum tiltækum ráðum til að stöðva sprengjuregn Ísraelshers. Það verður að komast á vopnahlé tafarlaust og í kjölfarið á því þarf að semja um varanlegan frið sem byggir á réttlæti og tryggir raunverulegt öryggi allra íbúa svæðisins til frambúðar. Fyrir þessu á Ísland að beita sér á alþjóðavettvangi.“

Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingar og annar flutningsmaður fyrri tillögunnar, tók í sama streng, skömmu síðar, er hann sagði: „Ísland þarf að tala skýrri röddu á alþjóðavettvangi. Ísland á að tala fyrir varanlegum friði og tafarlausu vopnahléi.“

„Þref um texta og orðalag“

Ljóst er að báðar tillögurnar sem nú eru bornar undir Alþingi eru að verulegu leyti viðbragð við skömminni sem margir hafa lýst yfir á hjásetu Íslands á vettvangi Allsherjarþingsins, og birta von um að Alþingi geti þá að minnsta kosti komið sér saman um opinbera afstöðu í máli sem ríkisstjórninni lánaðist ekki að gera. Eins og þingflokksformaður VG, Orri Páll Jóhannsson, orðaði það í kjölfar hjásetunnar alræmdu virðist „allt þref um texta og orðalag“ vera „hjóm, í samhengi þess ástands sem er fyrir botni Miðjarðarhafs.“ Hvort það að tillögurnar sem liggja fyrir þinginu eru ekki ein heldur tvær, og að munurinn á þeim er sá sami og áður klauf Allsherjarþingið, liðkar fyrir því að „þjóð eins og okkar tali einum rómi,“ kemur brátt í ljós.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí